141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[12:45]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil aðeins gera grein fyrir afstöðu minni til frumvarps til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Eins og fram kemur í nefndarálitinu og hv. þingmaður og talsmaður þessa máls, Skúli Helgason, rakti er ég á nefndaráliti meiri hlutans. Ég styð þetta mál, tel það gott, en hef þó fyrirvara. Sá fyrirvari er ekki mjög alvarlegur en ég ætla að gera grein fyrir honum og fara aðeins yfir málið í heild.

Það má segja að þetta mál sé að verða gamall kunningi, þetta er ekki í fyrsta sinn sem við erum með það til umfjöllunar í þinginu. Það var lagt fram á síðasta þingi líka og þá fórum við að mínu mati mjög vel yfir málið og gerðum breytingar á því, lögðum fram breytingartillögur og gerðum athugasemdir. Málið fór ekki í gegn þá, það kom aftur hingað inn en í breyttu formi. Þá var búið að taka tillit til sjónarmiða allsherjar- og menntamálanefndar og núna erum við vonandi að klára það í þessari umferð. Því má segja að málið hafi farið í gegnum tvær þvottavélar í þinginu og fengið ítarlega skoðun. Ég tel þess vegna að okkur sé ekkert að vanbúnaði að klára það, þ.e. láta reyna á þann meiri hluta sem ég tel vera örugglega fyrir hendi í þessu máli.

En af hverju er málið hérna yfirleitt? Jú, frumvarpið er lagt fram til að sníða af agnúa eða taka tillit til reynslunnar varðandi rekstur Ríkisútvarpsins. Það er önnur hliðin, annar hvatinn að þessu máli. Hinn hvatinn er að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, um tilhögun ríkisaðstoðar. Ætlunin er að afmarka betur hvað felst í fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu með það að leiðarljósi að skapa traustari starfsgrundvöll fyrir Ríkisútvarpið innan þess ramma sem reglur ESA frá árinu 2010 um ríkisstyrki til fjölmiðla í almannaþágu leyfa. Það er hinn hvatinn að því að við erum með þetta mál í vinnslu. Það er því bæði reynslan og erlendar reglur sem við þurfum að uppfylla sem veldur því að við erum að vinna að málinu.

Framsóknarflokkurinn hefur haft skoðun á Ríkisútvarpinu um langt skeið og sú skoðun er frekar sterk. Framsóknarflokkurinn hefur verið mikill vinur Ríkisútvarpsins og hefur viljað standa vörð um það og hefur ítrekað ályktað á þeim nótum. Ég ætla að drepa aðeins á því sem var ályktað á flokksþingi. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Fjölmiðlar eru mikilvæg upplýsingaveita almennings í lýðræðislegu samfélagi. Auka þarf gagnsæi um útbreidda fjölmiðla þannig að eignarhald sé skýrt og til að koma í veg fyrir samþjöppun. Ríkisútvarpið gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi og á því hvílir rík skylda að þjóna öllu landinu. Útvarpsgjaldið verður að renna óskipt til RÚV.“

Það er alveg ljóst að Framsóknarflokkurinn vill viðhalda sterku RÚV, sterku ríkisútvarpi, og dregur sérstaklega fram að það eigi að þjóna landinu öllu. En ein af þeim breytingum sem meiri hlutinn gerir er að tiltaka sérstaklega að RÚV eigi að þjóna öllu landinu og koma upp starfsstöðvum í því sambandi. Það hugnast okkur mjög vel.

Ég hef fylgst með Ríkisútvarpinu í langan tíma eins og flestallir stjórnmálamenn gera og þeir sem eru á ferðinni í samfélaginu. Ég verð að segja að ég er frekar ánægð með Ríkisútvarpið, mér finnst það hafa staðist vel tímans tönn. (Gripið fram í.) Það hefur brugðist við breytingum á fjölmiðlamarkaði, tækninni, samkeppninni o.s.frv. Það hefur líka brugðist vel við kröfu um sparnað. Við bankahrunið breyttist mjög mikið á Íslandi og var gerð rík krafa um sparnað hjá stofnunum. Ríkisútvarpið hefur alls ekki farið varhluta af því frekar en aðrar stofnanir. Það hefur tekist að spara ótrúlega háar upphæðir í rekstri Ríkisútvarpsins án þess að dagskráin hafi látið mikið á sjá. Hún hefur eitthvað látið á sjá, en ótrúlega lítið miðað við hve háar upphæðir voru sparaðar. Ég er ekki með þær á takteinum en ég man að þær eru tilgreindar í ársskýrslu RÚV. Það munar verulega, ég held að það hafi hlaupið á meira en milljarði sem sparaðist. Ég vil sérstaklega hæla forustu RÚV fyrir að hafa getað sparað svona mikið án þess að það hafi bitnað mjög á dagskránni.

Á sama tíma og þessi mikli sparnaður hefur orðið með mikilli hagræðingu og niðurskurði hefur traustið á Ríkisútvarpinu ekki dalað. Traustið mælist hátt, það eru reglulega gerðar traustsmælingar í samfélaginu á stofnunum og nokkrar stofnanir hafa komið ítrekað vel út, m.a. lögreglan, Landhelgisgæslan, háskólinn, heilbrigðiskerfið og RÚV. Það er mjög ánægjulegt að RÚV sé í þeim hópi, að fólk beri traust til þess. Það hafa líka verið gerðar kannanir á trausti til fréttastofanna. Ég man eftir könnun sem var gerð í fyrra á því og þá mældist fréttastofa RÚV með 80% traust sem verður að teljast mjög hátt hlutfall og gott traust en næstu fréttastofur þar á eftir voru með 50% og lægra. RÚV hefur því staðið sig að mínu mati mjög vel í þeim ólgusjó sem hér hefur verið hin seinni ár.

Með þessu frumvarpi er að vissu leyti verið að herða að RÚV. Það er verið að takmarka stöðu RÚV á auglýsingamarkaði til að gefa öðrum miðlum færi á að koma þar sterkar inn. Við erum líka að taka enn þá stærri skref en voru í upphaflegu máli, þ.e. að hemja RÚV varðandi kostun líka, þó með ákveðnum undanþágum. Ef ég man rétt er talið að þær takmarkanir á umsvifum RÚV nemi um 500–600 millj. kr. missi í tekjum. RÚV eru því settar takmarkanir með þessu frumvarpi. Á sama tíma er verið að skýra hlutverk þess að mínu mati á mjög jákvæðan hátt.

Ég tiltók áðan áherslur okkar í Framsóknarflokknum varðandi það að RÚV eigi að sinna öllu landinu og ég vil tilgreina sérstaklega Rás 1. Við teljum að hún hafi gegnt og gegni mjög miklu menningarlegu hlutverki og það beri að passa mjög vel upp á að menningardagskráin verði áfram vönduð eins og verið hefur.

Hér er tilgreint að stofnunin eigi að móta sér öryggisstefnu. Yfir þetta fór talsmaður málsins, hv. þm. Skúli Helgason, ágætlega áðan. Ég get komið því á framfæri í „forbífarten“ að sú er hér stendur lenti í svolítið skondnu atviki í sambandi við þetta á sínum tíma. Ég var í sjónvarpsþætti á RÚV í beinni útsendingu þegar maður komst inn í Ríkisútvarpið og inn í einhverja stjórnstöð og slökkti á öllum tækjunum. Allt í einu sátum við þarna í myrkri í útsendingunni og uppi varð fótur og fit og það var kallað: Þetta er martröð pródúsentsins. Það er martröð framleiðandans þegar allir skjáirnir verða svartir og ekki verður við neitt ráðið. Þarna varð óheppilegt atvik en eftir að það gerðist hefur verið bætt úr og mér skilst að ekki sé hægt að gera svona aftur. Það er auðvitað alvarlegt ef hægt er að labba inn í Ríkisútvarpið og slökkva á öllum græjum og hertaka dagskrána þar með. Það er því mikilvægt að móta öryggisstefnu þannig að þetta verði allt í lagi um allt land.

Þá ætla ég að gera nokkra grein fyrir fyrirvara mínum — nei, ég ætla að fjalla um eitt annað áður, um kostunina. Hér erum við að takmarka kostun í Ríkisútvarpinu, þó með undantekningu. Í breytingartillögu við 7. gr. kemur fram að Ríkisútvarpinu er óheimilt að afla tekna með kostun dagskrárefnis, en víkja megi frá því í eftirfarandi tilvikum:

a. við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti,

b. við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá.

Þarna er sérstaklega mikilvægt að sá skilningur komi fram að hér er ekki einungis átt við alþjóðlega viðburði. Það er líka átt við íburðarmikla innlenda dagskrárliði. Ég ætla að nefna eitt dæmi, undanfara söngvakeppninnar sem er innlendur atburður. Það má nefna fleiri slík dæmi þannig að ég tel að slíkt verði heimilað áfram.

Varðandi fyrirvara minn kemur hann fram í nefndarálitinu. Hann lýtur að kynningarmálum stjórnmálaflokkanna. Í upphaflegu frumvarpi voru ýmis inngrip varðandi kosningar og umfjöllun RÚV um þær, til dæmis var lagt til að banna skoðanakannanir skömmu fyrir kjördag, viku eða svo minnir mig. Nefndin gerði athugasemdir við það og ákveðið var að taka þau ákvæði út úr frumvarpinu í seinna skiptið. Sérstök nefnd fékk það hlutverk að skoða öll mál er við komu kosningum og RÚV. Finnur Beck er formaður í þeirri nefnd og fulltrúar stjórnmálaflokkanna eiga þar fulltrúa. Sunna Gunnars Marteinsdóttir er fulltrúi Framsóknarflokksins í þeirri nefnd. Nefndin hefur reynt að vinna á miklum hraða til að koma að málinu áður en við afgreiðum það fyrir vorið og hefur komið með ábendingu sem við ræddum í nefndinni um það hvernig ætti að kynna framboð stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar.

Það má eiginlega segja að í þessu séu tveir skólar. Annar skólinn er sá sem RÚV hefur sjálft lagt áherslu á og það er að RÚV verði með kynningu á framboðunum en hafi ritstjórnarlegt vald á þeim kynningum. RÚV sýni það sem RÚV telji eðlilegt að sýna, og geti stoppað af umfjöllun ef flokkarnir senda inn eitthvað vafasamt, þó að ég búist ekki við því að það verði reynt aftur. Mér skilst að það sé ólíklegt. Þá hafi RÚV ritstjórnarlegt vald yfir kynningu á flokkunum, hugsanlega með litlum þáttum, umræðuþáttum um einhver ákveðin mál, spyrji alla flokkana eða fulltrúa þeirra ákveðinna spurninga o.s.frv.

Þetta er annar skólinn. Hinn skólinn sem Finnur Beck og nefnd hans hefur frekar hallað sér að er ókeypis dagskrártími fyrir framboðin. Þau geti sýnt á þeim tíma efni sem væri algjörlega á þeirra eigin ábyrgð og lyti ekki ritstjórnarlegu valdi RÚV. Þá mætti líta á það efni meira sem hreina auglýsingu, eins og bara frá hvaða fyrirtæki sem er eða samtökum. Menn mundu senda inn alveg tilbúið efni og hafa algjörlega frjálsar hendur um hvernig það væri.

Nefndin ræddi þetta og komst að þeirri niðurstöðu að fara leiðina sem RÚV sjálft mælti frekar með, þ.e. að RÚV ætti að hafa ritstjórnarlegt vald á kynningunum og vera með ákveðið form í því sambandi og setja sér reglur þar að lútandi. Það er mjög mikilvægt að þessar reglur verði settar og þær verði góðar.

Ég get alveg fallist á að þetta er fær og ágæt leið, ég geri ekki athugasemdir við það. Ég tel hins vegar að við þurfum ekki að velja bara aðra hvora leiðina, ég held að við getum valið blandaða leið. Það væri hægt að vera með kynningarefni sem lýtur ritstjórnarlegu valdi RÚV og einnig úthlutað flokkunum ákveðnum tíma til að senda inn efni sem þeir hafa sjálfir útbúið og væri sýnt eins og hver önnur auglýsing, flokkunum að endurgjaldslausu. Flokkarnir fengju ígildi auglýsingatíma. Ég hefði talið heppilegast að fara báðar leiðirnar, nota þessa tvo svokölluðu skóla samhliða. RÚV gæti auðvitað gripið inn í ef það mæti það sem svo að einhver hatursáróður væri í kynningunni eða eitthvað slíkt. Þá mundu þeir stoppa af að sýna slíkt, eins og menn mundu gera í dag eðli máls samkvæmt ef einhverjar slíkar auglýsingar kæmu fram. Kynningarefnið mundi lúta sömu lögmálum og auglýsingar í dag.

Þessi blandaða leið var ekki farin enda höfðum við svo sem frekar lítinn tíma í lokin til að sökkva okkur mikið ofan í þetta. Ég ákvað að koma þessu sjónarmiði mínu á framfæri í fyrirvara. Ég er samt ekki með breytingartillögu sem lýtur að því og hef ekki endilega hugsað mér að flytja slíka breytingartillögu þó að það komi til greina. Ef manni væri stillt upp við vegg og ætti að velja aðra hvora leiðina, ef staðan væri sú, hefði ég valið þá leið sem meiri hlutinn velur hér, að hafa kynningarefnið undir ritstjórnarlegu valdi RÚV en fara ekki þessa svokölluðu auglýsingaleið. Best hefði ég talið að fara báðar leiðir.

Það sem fær mig til að komast að þeirri niðurstöðu er að fyrir hendi er ákveðin hætta, ég vona að hún sé samt ekki mikil, að ef allir flokkarnir eru settir í sama form undir ritstjórnarlegu valdi RÚV getur komið upp sú staða að stjórnmálaafl sem hefur mjög ákveðnar skoðanir í einhverju máli, er upptekið af fáum málum, einu, tveimur, þremur málum en hefur kannski ekki mikla málefnabreidd, komi sjónarmiðum sínum ekki nægilega vel á framfæri innan þeirra reglna sem RÚV mun setja um kynningarefni. Slíkt afl verði of heft í því formi. Hugsanlega kæmi RÚV sjónarmiðum þess aldrei nægilega skýrt á framfæri en þá hefði slíkt framboð getað komið þeim á framfæri án endurgjalds í auglýsingaformi, ef má kalla það svo.

Ég gef mér að flokkarnir muni ekki allir, sérstaklega ekki nýir flokkar, hafa fjárhagslega burði til að auglýsa mikið þannig að þeir geti ekki bjargað sér sjálfir að því leyti. Þeir hefðu átt að fá einhverja meðgjöf í því, og hún fælist í því að gefa þeim ókeypis auglýsingatíma, ákveðnar mínútur þar sem þeir hafa algjörlega vald á því hvað þeir vilja leggja mesta áherslu á og í hvaða formi þeir vilja koma því á framfæri o.s.frv.

Ég vona að RÚV setji sér góðar reglur í þessu sambandi þannig að áhyggjur mínar verði óþarfar, reglurnar hafðar þannig að reynt verði að koma til móts við sjónarmið flokka með alveg sérstakar áherslur. Það eru þá líklega ný framboð sem taka á sérstökum málum sem hafa komið upp í samfélaginu. Reglurnar verði þannig að þeirra tónn komist nægilega skýrt í gegn þannig að allir verði sáttir við sinn hlut í þeim flokkum sem munu bjóða fram.

Virðulegur forseti. Á þeirri mínútu sem ég á eftir vil ég sérstaklega árétta að ég tel mikilvægt að við klárum þetta mál í þinginu núna. Ég tel ómögulegt að láta það bíða til næsta kjörtímabils, það er fráleitt. Við eigum að klára þetta núna. Það er búið að vinna málið vel, þetta mun bæta rammann utan um RÚV, en mun líka stórbæta aðstæður annarra fjölmiðla. Þeir munu hafa frjálsari hendur á auglýsingamarkaði þar sem við munum ná að hemja RÚV á auglýsingamarkaði miðað við það sem nú er.

Ég þakka líka talsmanni málsins, hv. þm. Skúla Helgasyni, fyrir að halda mjög lipurlega utan um það. Það er ekki alltaf sjálfgefið að talsmenn geri það, en hann hefur lagt sig í líma við að hlusta á sjónarmið allra aðila. Við tókum málið jafnvel seinna út úr nefndinni en við hefðum getað af því að hv. þingmaður (Forseti hringir.) reyndi að ná öllum sjónarmiðum saman í lokin. Ég þakka honum sérstaklega fyrir það.