141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[13:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrir að taka þessa umræðu með svo skömmum fyrirvara. Það er alveg til fyrirmyndar þegar ráðherrar bregðast svona vel við.

Málið er stórt og mikilvægt. Málið getur líka haft töluverð áhrif á fjármálamarkaðinn á Íslandi eins og við þekkjum hann ef það verður niðurstaðan, sem mér sýnist nokkuð augljóst, að verðtryggð neytendalán eins og við þekkjum þau í dag, þ.e. húsnæðislán og önnur neytendalán, séu ekki í samræmi við þær tilskipanir og reglugerðir sem við höfum undirgengist samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í samræmi við tengsl okkar við löggjöf Evrópusambandsins. Meginmarkmið þeirrar tilskipunar sem álit sérfræðinga Evrópusambandsins byggir á lýtur í raun að því að gefnar séu tæmandi upplýsingar um þá lánasamninga sem verið er að gera. Svo virðist sem sú aðferðafræði sem notuð er á Íslandi uppfylli ekki þessar kröfur, í það minnsta miðað við það sem fjölmargir lögfræðingar og aðrir hafa bent á, þar á meðal sérfræðingar í Evrópurétti.

Ég held að það sé óþarfi að fara yfir söguna. Hana þekkja orðið flestir. Þó er mikilvægt að minnast aldamótanna 2000/2001 þegar breyting var gerð á lögum um neytendalán, nr. 121/1994, og þeim breytt með lögum nr. 179/2000. Fasteignalán einstaklinga eru þá samkvæmt þeim flokkuð og skilgreind sem neytendalán. Þar af leiðir að væntanlega þarf að skoða sérstaklega þau lán sem eru tekin á árinu 2001, þ.e. eftir að þessar breytingar eru gerðar.

Kjarni þeirrar neytendalánaverndar sem hér er um að ræða er, eins og ég sagði áðan, að lántakandi sé að fullu upplýstur um þær skuldbindingar sem hann tekst á hendur og samkvæmt því má ætla að það hafi verið og sé óheimilt að innheimta vexti og verðbætur umfram það sem fram kemur í lánasamningum þannig að heildarlántökukostnaður þurfi að liggja fyrir samkvæmt þessari neytendalöggjöf eða þessari tilskipun um neytendavernd.

Það er hægt að fara í löngu máli yfir mikilvægi þess að tekið sé hratt og örugglega á þessu máli. Það er í þágu allra, að ég held, að botn fáist í málið eftir þeim leiðum sem við þurfum að fara, hvort sem það er í gegnum dómstólar eða öðruvísi. Heimilin eru undirstaða og drifkraftur samfélagsins að mörgu leyti og líklega einn stærsti þáttur í okkar efnahagslífi þannig að það er mikilvægt fyrir okkur að hraða því að niðurstaða fáist í málið. Við eigum að geta tekið í alvöru á skuldsettum heimilum því að þetta mun án efa hafa mikil áhrif þar.

Það er rétt að rifja upp að við framsóknarmenn höfum líka lagt fram mál í þinginu er lúta að því að bæta stöðu heimilanna, setja þak á verðtryggingu og annað og við höfum núna ályktað á flokksþingi okkar að það beri að afnema verðtrygginguna.

Frú forseti. Það eru nokkrar spurningar sem ég vil beina til hæstv. ráðherra varðandi þetta mikilvæga mál. Meðal annars kalla ég eftir áliti ráðherra á innihaldi bréfs sérfræðings Evrópusambandsins, framkvæmdastjóra ESB, um þetta mál. Ég óska líka eftir að ráðherra fari yfir það hvort nauðsynlegt sé að bregðast við þessu með einhverjum hætti og þá helst hvernig, hvort ráðherra telji mikilvægt að flýta þeim dómsmálum sem þegar hafa verið höfðuð vegna verðtryggingar. Einnig velti ég því upp í spurningu til hæstv. ráðherra hvort til greina komi að bregðast hratt við og setja nú þegar þak á hækkun verðtryggingar og horfa þá ef til vill til annarra þátta sem koma fram í þingmáli framsóknarmanna, máli á þskj. 9 sem var lagt fram í september, þannig að sett verði þak á hækkun vísitölunnar meðan óvissa ríkir um þessi mál og (Forseti hringir.) í þeirri von að málaferli og annað muni skýra heimildir eða lögmæti verðtryggingar.