141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[13:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég held að hún snúist um nokkra hluti, í fyrsta lagi hvort fasteignalán séu neytendalán. Þau eru það ekki samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins en við höfum innleitt það í þessi lög.

Er framkvæmd verðtryggingar ábótavant? Það hefur lítið verið um það rætt. Auðvitað er vísitala bara mælikvarði, en það sem flækir málið er að hún er notuð þegar við erum að reikna út lán. Ég fór fram á það að Elvira Méndez Pinedo kæmi á fund efnahags- og viðskiptanefndar. Eins og ég skildi hana er hér um það að ræða að það er ólöglegt, og það er ólöglegt samkvæmt íslenskum lögum, að vera með kostnað umfram það sem er gefið upp þegar lánið er tekið. Ef til dæmis verður gert ráð fyrir 0% verðbólgu er spurning hvort allt umfram það sé ólöglegt eða allt umfram gefna hlutfallstölu.

Það breytir því hins vegar ekki að samkvæmt þeim sérfræðingi sem ég nefndi hjá viðkomandi lánastofnun er heimilt að breyta árlega þannig að það er hægt að vera með lán bundin við vísitölu en það þarf hins vegar að breyta forsendum í það minnsta einu sinni á ári ef þær breytast á lánunum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að læra af mistökum fortíðar. Nú skulum við bara horfast í augu við það að hátt lánshlutfall er stærsta einstaka vandamálið. Við hvöttum til skuldsetningar og ég hvet nú hv. þingmenn til að líta í eigin barm og sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar þegar kemur að því. Sömuleiðis hefur Íbúðalánasjóður verið tabúumræðuefni í íslenskum stjórnmálum. Ég þekki þessi mál mjög vel vegna þess að ég er búinn að starfa í því síðan 2003, m.a. í hv. félagsmálanefnd, og þekki alveg mjög vel orð hv. þingmanna Samfylkingarinnar. Það leysir engan skuldavanda ef menn eru (Forseti hringir.) fullkomlega fastir í sértrú um Evrópusambandið. Það mun ekki hjálpa neinum. (Forseti hringir.) Við þurfum að taka á skuldavanda heimilanna og við þurfum að vinna okkur út úr þessu, og þá er sértrú (Forseti hringir.) ekki neitt sem nýtist okkur í þeirri umræðu.

(Forseti (ÞBack): Forseti minnir hv. þingmann á að virða ræðutíma.) (Gripið fram í.)