141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[13:45]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil sömuleiðis þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að hún sé tímabær og vonast til að hún verði gagnleg fyrir framhaldið. Ég tel mikilvægt að í umræðunni um verðtrygginguna og það álitamál sem hv. málshefjandi gerir grein fyrir í máli sínu sé mikilvægt að skilja annars vegar á milli afstöðunnar til verðtryggingarinnar sem slíkrar og hvaða stefnu menn hafa sérstaklega varðandi hana til framtíðar, og hins vegar þeirra lagalegu álitamála sem eru uppi í málinu og hv. málshefjandi rakti og hæstv. fjármálaráðherra svaraði.

Ég vil að það komi sérstaklega fram varðandi verðtrygginguna og afstöðuna til hennar að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að vera verðtrygging á neytendalánum eða lánum til húsnæðismála eftir því hvernig menn skilgreina þau. Ég er sammála til að mynda þeim niðurstöðum sem koma fram í sérstöku áliti fulltrúa Framsóknarflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og fleiri í nefndarvinnu um verðtrygginguna þar sem er sérstaklega bent á að hún hafi aukið skuldsetningu, verið til þess fallandi að auka skuldsetningu í samfélaginu einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að hluti lántöku- eða vaxtakostnaðar er tekinn og bætt aftan við höfuðstól. Það er afstaða sem ég hef haft lengi og tel mikilvægt að vinna að því að afnema slíkan útreikning lána.

Varðandi þau lagalegu álitamál sem eru hins vegar uppi hér eru það mál sem þarf að fara betur yfir eins og hæstv. ráðherra kom inn á. Hvernig skuli að greiða úr þeim flækjum sem þar kunna að vera bæði með tilliti til þess hvort (Forseti hringir.) miða á við tilteknar tímasetningar í því efni og hvaða niðurstöðu dómstólar kunna síðan að komast að þegar (Forseti hringir.) þeir fjalla um lögmæti eða ólögmæti lánanna.