141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[13:48]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég hef nú löngum verið þeirrar skoðunar að verðtryggingin eins og hún er framkvæmd hér á landi standist ekki lög eða þau lög sem við höfum innleitt með tilskipunum Evrópusambandsins, neytendalöggjöfina. Árið 2011 lagði ég ásamt öðrum fram kvartanir til ESA og til framkvæmdastjórnar ESB og Evrópuþingsins, bæði um gengistryggðu lánin og þá meðferð sem þau fengu með Árna Páls-lögunum og svo sérstaklega um verðtrygginguna og svo lögðum við fram viðbótarkvörtun um það.

Það er kannski ekki aðalmálið. Mér finnst aðalmálið vera hvernig við viljum hafa þetta. Ætlum við að vera með kolómögulegt lánakerfi þar sem hver og einn borgar íbúðina sína fimm sinnum miðað við einu og hálfu sinni eða tvisvar sinnum einhvers staðar annars staðar í heiminum, í siðmenntuðum þjóðum, af því að við komumst upp með það og af því að hugsanlega er einhver smuga í tilskipununum vegna þess að þær snerust um bílalán en ekki einhver ákveðin hús?

Hvernig viljum við hafa það? Viljum við virkilega búa við þá háu vexti og verðtryggingu og við að eiginlega allt umframfé fólks, eða stór hluti af ráðstöfunartekjunum, fari í að borga af íbúðarhúsnæði? Ekki í að borga fyrir húsnæðið sjálft heldur í að borga kostnað, kostnaðinn við gjaldmiðilinn vegna þess að hann er, eins og fjármálaráðherra benti á, handónýtur og við þurfum öllsömul að horfast í augu við það. Hvernig viljum við hafa þetta? Af hverju erum við að tala um viðbragðsáætlanir við hugsanlegum dómum frekar en að teikna upp kerfið eins og við viljum hafa það? Við ráðum því.