141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

álit framkvæmdastjórnar ESB um að verðtryggð lán séu ólögleg.

[13:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil í síðari ræðu víkja að neytendaþættinum sem ég kom ekki sérstaklega inn á í fyrri ræðu. Ég get tekið undir það með mörgum hv. þingmönnum í umræðunni að ég tel ákaflega þýðingarmikið að gagnvart neytandanum sé ljóst hver kostnaðurinn við lántöku er. Það má velta því fyrir sér hvort sú umræða eigi bara við um verðtryggð lán eða geti einnig náð til óverðtryggðra lána með breytilegum vöxtum vegna þess að ef lánin eru óverðtryggð en með breytilegum vöxtum er kostnaður neytandans að sjálfsögðu eitthvað breytilegur og að hve miklu leyti er það fyrirsjáanlegt? Yrði þá að setja sérstakar reglur um að kjörin yrðu endurskoðuð á tilteknum tímafresti og þar með vextirnir og það héldist í hendur? Það kann að vera en ég vek athygli á því að hlutirnir eru ekki alveg svartir og hvítir í því efni, það þarf að skoða það samhengi að mínu viti.

Ég vil svo ítreka að málið sem er sérstaklega til umræðu hér er hið meinta ólögmæti verðtryggingar. Það er auðvitað úrlausnarefni dómstóla að komast að niðurstöðu um hvort framkvæmdin hefur verið í samræmi við lög og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist. Ég vek líka athygli á því, og það getur skipt máli í því samhengi, að umrædd tilskipun sem er vísað til er frá árinu 2008. Miðast þá hugsanlega ólögmæt framkvæmd við þann tíma eða tímann frá því að lögunum var breytt árið 2000 með gildistöku frá því í janúar 2001 eða jafnvel enn aftar með lögunum frá 1993? Það eru álitamál sem við erum ekki fær um að ráða fram úr en dómstólar gera og hljóta að verða að gera og því fyrr því betra, ég tek undir það.

Frú forseti. Ég ítreka að lokum (Forseti hringir.) þá grundvallarafstöðu mína til framtíðar litið að afnema eigi verðtryggingu og ég vonast svo sannarlega til þess að breið pólitísk samstaða skapist um það.