141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:26]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það hefur verið rifjað upp í þessari umræðu, og ekki að ástæðulausu, að hér erum við að fjalla um mál sem um urðu gríðarleg átök á næstsíðasta kjörtímabili, á kjörtímabilinu 2003–2007. Ég man ekki hve margar atlögur voru þá gerðar að því að breyta Ríkisútvarpinu og tókst að lokum. Um það var deilt harðlega og haldnar um það margar og miklar ræður. Mér er þetta auðvitað minnisstætt því að ég var einn af þeim sem stóðu framarlega í þeim slag.

Það er rétt að rifja upp að af okkar hálfu, minni og þeirra sem voru með mér í flokki í þessu máli, fjallaði málið fyrst og fremst um að tryggja og sjá til þess að Ríkisútvarpið yrði sjálfstætt og öflugt almannaútvarp. Við leiddum að því ýmis rök af hverju það ætti að vera sjálfstætt og öflugt og við gagnrýndum það frumvarp sem þá var rætt fyrir að það væri í fyrsta lagi ekki nógu sjálfstætt, í öðru lagi ekki nógu öflugt og í þriðja lagi ekki nógu mikið almannaútvarp. Ég ætla ekki að rifja núna upp þessi rök sem menn geta fundið, ef þeir eru fundnir eða fyndnir, í Alþingistíðindum og á netinu, í greinum og umræðum, en það er rétt að taka þetta fram og það líka að um þetta stóð slagurinn af okkar hálfu en miklu síður um sjálft formið sem þó bar miklu meira á í fjölmiðlum og umræðum manna á meðal, þ.e. hvort Ríkisútvarpið ætti að vera ríkisstofnun, eins og hún var þá, hvort ætti að breyta því í hlutafélag, þótt opinbert héti, eða hvort fara ætti einhverja aðra leið. Við höfðum þá skoðun og tillögu að ríkisstjórnin ætti að verða sjálfseignarstofnun og ég tel raunar enn að svo eigi að vera. Bent var á þá galla á því að lagaleg umgjörð sjálfseignarstofnana er ákaflega léleg og við höfum enn ekki undið okkur í það á þinginu að bæta hana.

Gallar við hlutafélagsformið eru ýmsir, kostir við það eru líka ýmsir, en í þessu máli tel ég, og það var afstaða okkar samfylkingarmanna þá og er enn, að það sé ekki formið sem skiptir máli heldur innihaldið, með öðrum orðum, þá þeim orðum sem Deng Xiaoping Kínaleiðtogi lét út úr sér — og hafi þökk fyrir það þó að ekki væri allt þakkar vert sem hann gerði — að ef kötturinn veiddi mýs skipti ekki máli hvort hann væri svartur eða hvítur.

Það frumvarp sem hingað er komið með breytingartillögum og eftir umfjöllun í þinginu er til fyrirmyndar. Það er athyglisvert eftir þessar deilur frá 2003–2007, og hlýtur að vera lærdómsríkt fyrir þá sem í þeim stóðu, þar á meðal mig, en ekki síst fyrir þá sem það frumvarp fluttu, þáverandi menntamálaráðherra, hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og flokksmenn hennar og stuðningsmenn málsins í Framsóknarflokknum þá, og athyglisvert að nú tekst mikil samstaða á svipuðum grunni og við settum fram um það að stíga skref í áttina að því að Ríkisútvarpið verði, hvort sem það heitir hlutafélag eða eitthvað annað, sjálfstætt og öflugt almannaútvarp.

Það frumvarp sem núverandi hæstv. menntamálaráðherra flytur fær stuðning frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar, stuðning fulltrúa allra þeirra flokka sem þar eiga sæti nema eins, sem er Sjálfstæðisflokkurinn, og mér heyrast sjálfstæðismenn hafa tekið frumvarpinu þokkalega vel. Að minnsta kosti liggur ekki fyrir minnihlutaálit frá þeim um málið og ég hef ekki komið auga á neinar breytingartillögur frá þeim við þessa umræðu.

Ég ætla ekki að ræða hin smærri atriði í frumvarpinu. Ég á ekki sæti í nefndinni og ætla ekki að verja tíma mínum í að skipta mér af umræðu sem þar fer fram. Ég styð málið í heild sinni og að mér sýnist flestar þær breytingartillögur sem hér eru fram lagðar við það. Ég ætla hins vegar að lýsa í stuttu máli þeim breytingum sem það hefur í för með sér og segja álit mitt á einhverjum þeirra.

Í markmiðsgreininni er lögð aukin áhersla á almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins. Hlutverki þess og skyldum sem fjölmiðils í almannaþágu er í II. almennum kafla lýst ítarlegar en í gildandi lögum. Ég styðst hér, forseti, við athugasemdirnar. Það á að skilja á milli fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu og annarrar starfsemi Ríkisútvarpsins, sem okkur fannst einmitt mjög mikilvægt á sínum tíma, með því að stofna um aðra starfsemi sérstök dótturfélög sem eru þá í fjarlægð frá aðalfélaginu sem hefur annað hlutverk. Það á líka að skilja á milli þessara hlutverka fjárhagslega þannig að dótturfélögin hafi sinn fjárhag og útvarpið sjálft annan fjárhag. Síðan eiga samkeppnisyfirvöld að hafa lögsögu yfir þeirri starfsemi sem ekki fellur undir almannaþjónustu. Þetta tel ég að séu allt framfaraskref og fagna því að um þau skuli hafa náðst þessi samstaða.

Ríkisútvarpið verður væntanlega alltaf í einhvers konar tvöföldu hlutverki. Annars vegar er það almannamiðill samkvæmt þeirri hefð og hugsun, og hugmyndafræði held ég að megi segja, sem á uppruna sinn í Evrópu og viðgengst um alla álfuna þótt það sé í svolítið mismunandi formi. Það er einnig búsett í Bandaríkjunum þó að það taki á sig allnokkuð aðra mynd þar. Því hlutverki fylgja vissar skyldur og viss starfsemi sem stundum rekst á við útvarpsstöðvar sem sjálfstæðar eru, og ég vil kalla sjálfstætt starfandi frekar en „frjálsar“ eins og Ríkisútvarpið og almannaútvarpið sé þá ófrjálst. Ég held að það sé rétt að kalla þær sjálfstætt starfandi og þær starfa auðvitað á tilteknum markaði. Vinna þeirra og starfsemi mótast af því. Það er ekki hnjóð, það er ekki slæmt í sjálfu sér að starfa á markaði en það mótar hins vegar starfsemina. Þess vegna þarf að vera til á þessu mikilvæga samfélagssviði almannaþjónusta sem mótast ekki af starfsemi á markaði. Skilin þarna verða alltaf óglögg, ekki síst ef á að uppfylla það að almannaútvarpið sé ekki aðeins sjálfstætt heldur líka öflugt.

Með þessu frumvarpi eru stigin skref sem ég held að verði afar áhugavert að fylgjast með og eru að mínu viti í rétta átt og í samræmi við málflutning minn og annarra þeirra sem stóðu í þessum stóli löngum stundum fyrr á árum að ræða þessi mál.

Það skiptir að sjálfsögðu líka máli að sá ráðherra sem fer með eignarhlut ríkisins í Ríkisútvarpinu, þetta eina 100% hlutabréf, er ekki lengur fjármálaráðherra. Það voru auðvitað mistök og skrýtin ráðstöfun á sínum tíma, hafði ákveðin rök sem komið hefur í ljós að eiga illa við Ríkisútvarpið, en nú heldur mennta- og menningarmálaráðherra á hlutabréfinu. Ég tel að það sé framför en enn meiri framför vona ég að felist í nýju fyrirkomulagi við val á stjórn Ríkisútvarpsins og nýrri verkaskiptingu milli hennar og útvarpsstjórans. Ég tel að við höfum náð athyglisverðum sáttum um að gera tilraun með stjórn Ríkisútvarpsins sem ekki hefur verið gerð áður. Menn hafa rætt margt og mikið um það mál, þ.e. hvað ætti að taka við af hinu pólitískt skipaða útvarpsráði sem einu sinni var, og niðurstaðan varð sú að við því tók annars vegar útvarpsstjóri sem var gerður fullkomlega sjálfstæður eins og forstjóri í fyrirtæki og hins vegar stjórn sem kjörin var pólitískri kosningu á Alþingi. Margar aðrar leiðir hafa verið nefndar, en hér held ég að farið sé bil beggja með því að komið er á fót þessari valnefnd sem síðan skipar fulltrúa í stjórnina. Ráðherra á þar hins vegar formann og starfsmannasamtökin áheyrnarfulltrúa. Miklu máli skiptir að starfsmenn sitji í stjórninni þótt þeir hafi þar ekki atkvæðisrétt, sem vel kann að vera að sé ekki að öllu leyti heppilegt, en þeir hafa málfrelsi og tillögurétt og geta dreift upplýsingum og punktum úr umræðu, bæði frá gólfinu í Efstaleiti meðan Ríkisútvarpið er þar og upp á við og líka úr stjórninni og niður á við.

Það skiptir líka máli að verksvið stjórnar og útvarpsstjóra sé með öðrum hætti en nú gildir, að útvarpsstjóri sé með einhverjum hætti framkvæmdastjóri þeirrar stjórnar sem á að vera á Ríkisútvarpinu og að starf hans mótist ekki af starfsháttum forstjóra í einkafyrirtæki. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta en ég held að það hafi komið í ljós, að þeim manni fullkomlega ólöstuðum sem nú gegnir starfi útvarpsstjóra, að þetta er ekki heppilegt og að stjórn Ríkisútvarpsins þarf að geta haft um ýmsa hluti að segja í starfi stofnunarinnar þótt þar sé að sjálfsögðu undantekin dagskrá Ríkisútvarpsins frá degi til dags, fréttaflutningur o.s.frv. sem útvarpsstjórinn á að standa vörð um fyrir sína starfsmenn og það hlutverk að Ríkisútvarpið sé eins sjálfstætt og nokkur kostur er.

Það er talað um innra gæðaeftirlit og það verður fróðlegt að sjá hvernig til tekst með það. Það er líka minnst á það að mat á frammistöðu Ríkisútvarpsins um almannaþágu verði í höndum fjölmiðlanefndar sem stofnuð var með öðrum lögum. Það mat er í núverandi lögum falið Ríkisendurskoðun. Við gagnrýndum það mjög á sínum tíma og ég man að þáverandi ríkisendurskoðandi og menn með honum komu á fund menntamálanefndar um þetta efni og töldu að þeir ættu ekki í mjög miklum erfiðleikum með þetta mat. Það varð síðan í skötulíki og þegar ég hitti þessa menn aftur sem þingmaður fyrr á kjörtímabilinu viðurkenndu fulltrúar Ríkisendurskoðunar að þetta hefði reynst rangt mat hjá þeim og þeir hefðu ekki burði til þess, jafnvel með aðstoð, að gera þetta en fjölmiðlanefndin ætti að geta gert það betur og verið þá fulltrúi almennings gagnvart starfsmönnum Ríkisútvarpsins, stjórn þess og útvarpsstjóra úr hinni áttinni. Hinn fulltrúi almennings er auðvitað menntamálaráðherra sem á að haga sér sem slíkur.

Ég ætla ekki að fara mikið út í útvarpsgjaldið og umræður um það. Ég hef áður sagt að allir kostir við fjármögnun Ríkisútvarpsins séu vondir og stend við það. Ég hafði og hef miklar efasemdir um útvarpsgjaldið, hefði viljað leita annarra leiða og reyna að minnsta kosti einhverjar tilraunir í þá átt. Menn hafa nefnt fjölmargar leiðir, þar á meðal tengingu við fasteignaskatta. Ég held að þetta verði framhaldsmál og það er sjálfsagt að ræða það áfram en aðalmálið þegar menn ræða um þetta er auðvitað að ríkisstjórnin fái tekjur, og þær hæfilega miklar. Í því sambandi verður að nefna að hér er stigið enn eitt gott skref, að því er mér sýnist, það að takmarka auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins. Ég tel það nauðsynlegt af tveimur orsökum og er rétt að telja þær báðar fram, annars vegar vegna þess að Ríkisútvarpið á ekki að standa í samkeppni um fé við þær stöðvar sem hér starfa á markaði, hinar sjálfstætt starfandi stöðvar sem ég vil kalla, a.m.k. ekki um of þótt ekki eigi kannski að útrýma með öllu auglýsingum og tilkynningum í Ríkisútvarpinu. Hins vegar er það vegna þess að Ríkisútvarpið hefur hreinlega ekki gott af því að taka verulegan hluta af tekjum sínum á auglýsingamarkaði. Það er sama hversu gott, heilbrigt og kjarnmikið fólk starfar hjá Ríkisútvarpinu, tekjur af auglýsingum hafa óhjákvæmilega áhrif á ákvarðanir sem teknar eru um dagskrá, ákvarðanir sem eru umfram það sem vera á. Stundum eru auðvitað tengsl á milli auglýsingateknanna, vilja auglýsandans til að auglýsa og þess fjölmennis sem fylgist með dagskránni. Það er alveg prýðilegt en Ríkisútvarpið hefur sem almannaútvarp umframskyldur og á að taka ákvarðanir sem eru óháðar vilja auglýsenda til að kosta dagskrána með auglýsingum eða öðrum viðskiptaboðum þannig að talað sé það mál sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu, þ.e. með kostun og ýmsum öðrum hætti. Hér hefði ég viljað ganga lengra og mér þótti athyglisvert að heyra að hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir, fyrrverandi menntamálaráðherra, var líka á þeirri skoðun. Hóf er þó best í hverjum hlut og það er rétt að láta nú líða nokkurn tíma eftir að við höfum samþykkt þetta sem ég treysti að verði notaður til þess að skoða hvaða áhrif þessar breytingar hafa, þessar miklu breytingar sem hér verða, áður en við göngum skrefi lengra í þessu.

Að lokum ítreka ég það sem ég sagði í upphafi. Ég tel að hér sé gott mál á ferð. Ég fagna þeirri samstöðu sem um það ríkir sem og þeim endalokum sem áratugalangar deilur um þetta mál fá nú. Ég vona að það verði friður um starfsemi Ríkisútvarpsins og öflugur stuðningur við hið góða starf sem þar fer fram eða þar á að minnsta kosti að fara fram þótt stigin verði í framtíðinni fleiri skref í áttina að því sem við þurfum á að halda — sem er sjálfstætt og öflugt almannaútvarp.