141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[14:45]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið ræðum við frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Í upphafi máls vil ég ítreka mikilvægi þess, og þá stefnu Framsóknarflokksins, að Ríkisútvarpinu sé gert kleift að sinna því að vera fjölmiðill í almannaþágu á sem bestan hátt. Þar hefur skort verulega á í gegnum tíðina, einfaldlega vegna þess að Ísland er stórt land og það kemur ævinlega fram ný tækni til þess að tryggja að hægt sé að útvarpa eða senda boð út um land. Svona til gamans sagt var ég viðstaddur þegar vindmyllurnar hjá Landsvirkjun innan við Búrfellsvirkjun voru settar í gang fyrir nokkru. Í ræðu sinni þar lýsti hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra því að heima hjá honum, eins og víða um sveitir áður en rafmagnið kom, voru vindmyllur. Þær gengu náttúrlega misjafnlega og ekki var hægt að nýta allt rafmagnið. Því var safnað á geyma og þegar lítið var eftir af rafmagninu, ef þurfti að velja á milli, settu menn rafmagnið heldur á útvarpið til þess að hlusta á það og sátu í myrkrinu heldur en að lýsa upp húsið. Ég held að það sé gott dæmi um að alveg frá því að Ríkisútvarpið kom fram á sínum fyrstu árdögum hafi það verið mjög mikilvægur þáttur í samfélagi allra landsmanna og menn hafi lagt mikið upp úr því að ná til þess.

Þess vegna er sú ríka krafa sem við gerum til Ríkisútvarpsins til staðar, að það sé fjölmiðill í almannaþágu, geti nýtt sér nýjustu tækni og sé ekki bundið við að veita þjónustu fyrst og fremst á þéttbýlli stöðum heldur tryggi að það sé aðgengilegt um land allt. Við horfum auðvitað ekki bara á útvarpssendingar í því efni heldur líka á sjónvarpsútsendingar. Nú hefur þeim fleygt fram og enn horfir til nýrra vega og nýrrar áttar í því efni. Ég hef nokkrar áhyggjur af því ef menn ætla sér að nota örbylgju eða loftsendingar áfram sem aðaldreifileiðina í dreifbýli. Við sjáum nú þegar að miklar truflanir eru á útsendingum mjög víða og víða næst sjónvarp alls ekki. Ég held að mikilvægt sé að menn horfi í þá átt sem ég hef rætt nokkrum sinnum í vetur, m.a. við hæstv. innanríkisráðherra, að efla fjarskiptatengsl í landinu. Sá möguleiki er miklu nær en við höldum. Annars vegar eru fjarskiptafyrirtækin að setja á laggirnar svokallað ljósnet þar sem er farið í heimakassa allt að 400 metra frá íbúðarhúsum eða jafnvel nær í gegnum ljósleiðara, síðan eru koparstrengir eða þeir strengir sem eru þar fyrir hendi nýttir til þess að senda gögnin inn í húsin og inn í tækin.

Þessu er auðvitað ekki til að heilsa í dreifbýlinu. Þar verða menn að horfa til dýrari lausna, að leggja ljósleiðara heim á hvert heimili. Það hefur hingað til verið talið gríðarlega dýrt, við erum að tala um einhverja tugi milljarða. Svo er alls ekki. Fjarskiptafyrirtækið Míla hefur upp á síðkastið verið að kynna að hægt sé að fara aðrar leiðir. Ég hef einmitt rætt það við hæstv. innanríkisráðherra, í þessum ræðustól við hv. þingmenn, að hægt væri að fara leiðir sem tæknin er nú farin að veita og finna leiðir til þess að gera þetta á mun ódýrari hátt. Við virðumst vera að tala um í mesta lagi 5 milljarða, fyrir að ljósleiðaravæða öll heimili landsins, kannski 6 ef við tækjum allan kostnað við ljósnetsvæðinguna inn. Þetta er stærðargráða sem er allt önnur heldur en sú sem við höfum verið að ræða.

Að þessu þyrftu opinberir aðilar að koma í gegnum ríkisvaldið, þ.e. alþjónustusjóður með þær kvaðir sem við leggjum á um hvað við viljum fá út úr slíku kerfi og auðvitað fjarskiptasjóður sem á að jafna möguleika landsmanna til þess að nýta sér þessi fjarskipti. Auðvitað eru útvarps- og sjónvarpssendingar ekkert annað en fjarskipti og verða það sérstaklega í framtíðinni með gagnvirku sjónvarpi. Síðan eiga fjarskiptafyrirtækin sjálf að koma að þessu. Svo er hugsanlegt að aðrir aðilar eins og sveitarfélög eða íbúar beint geti komið að verkinu. Þá er þetta orðið framkvæmanlegt á mun styttri tíma. Kannski ættum við að setja okkur það sem verkefni að undirbúa þessa fjármögnun því það er hún sem skiptir máli. Stofnkostnaðurinn er hvað dýrastur en rekstrarkostnaðurinn er mjög lágur, þetta snýst fyrst og fremst um að greiða niður fjármögnunina á einhverju árabili.

Hægt væri að gera þetta á fjórum, fimm árum og þar með tryggja að þeirri tæknilegu hindrun sem er í vegi þess að Ríkisútvarpið sé fjölmiðill í almannaþágu, alls almennings í landinu, væri rutt úr vegi á kannski fimm, sex árum.

Því legg ég áherslu á, frú forseti, að ég tel þetta vera einn helsta ágalla þess að Ríkisútvarpið hafi getað sinnt því verkefni að vera raunverulega fjölmiðill í almannaþágu. Síðan er hægt að rífast um stefnur og strauma og hvort menn hafi farið út af línunni í einstökum þáttagerðum, eins og hefur komið fyrir að menn taki upp til umræðu hér í þinginu eða eitthvað slíkt, en til þess að hægt sé að ná tilgangi sínum verður tæknilega lausnin að vera fyrir hendi og hún er fær.

Ríkisútvarpið á auðvitað líka að koma að málinu. Ég veit ekki betur en það sé að fara í gríðarlega endurnýjun á sendum. Ég held að það sé ekki rétt að Ríkisútvarpið með sínum fjármiðlum fari þá leið. Ég held að þetta eigi að vera sameiginlegt verkefni sem ríkisvaldið stýri og fleiri aðilar komi að því, það verði kannski gert til dæmis í gegnum þetta fyrirtæki Mílu. Þar með verði grunnnetskerfi komið á laggirnar, hver sem síðan á að eiga það. Menn geta rætt hvort skynsamlegt sé að lífeyrissjóðirnir eigi það. Eftir hrunið held ég að eignarhald á þessu fyrirtæki sé upp í loft. Það eru „reguleraðar“ tekjur af því, það getur ekki tekið sér hvaða tekjur sem er, en á því er ákveðin ávöxtunarkrafa. Innan hennar gætu lífeyrissjóðirnir án efa fengið sín 3,5% sem er ávöxtunarkrafa þeirra. Þetta væri fjárfesting í almannaþágu sem stæði undir lífeyrisskuldbindingum okkar í framtíðinni og tryggði þetta kerfi.

Ég held að rangt væri ef Ríkisútvarpið færi í stórfellda endurnýjun á sínum sendum fyrir verulega fjármuni, hvort sem væri útvarps- eða sérstaklega sjónvarpssendum, þegar hægt væri að fara leið sem er miklu betri og tryggari heldur en loftsendingar.

Þá er ég búinn með þann þátt sem ég ætlaði að ræða um í sambandi við að tryggja fjölmiðil í almannaþágu. Ég legg eftir sem áður ríka áherslu á og ítreka stefnu okkar framsóknarmanna í því, við viljum standa vörð um Ríkisútvarpið. Fulltrúi okkar í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, ritar einmitt undir þetta nefndarálit, reyndar með fyrirvara, en hann snýr ekki að þessum þætti málsins. Ég fagna því líka að það sé að skapast nokkuð breið samstaða um málið.

Annar þáttur sem við framsóknarmenn höfum lagt ríka áherslu á er að sá nefskattur sem við leggjum á renni til RÚV, til Ríkisútvarpsins. Hann sé ekki notaður til þess að fjármagna annan rekstur ríkisins eins og við höfum horft upp á síðustu árin, kannski allt of mörg. Ég held að það sé í raun og veru miklu skynsamlegra að afmarka þær tekjur sem við erum tilbúin að setja í þetta í gegnum þennan nefskatt, sem er þá ekkert annað en viðbótarskattur í samfélaginu á fólk í landinu að reyna að viðhalda honum eins lágum og hægt er og að þær tekjur renni til Ríkisútvarpsins en séu ekki notaðar eins og ég segi til þess að fjármagna annan rekstur ríkisins. Á þetta viljum við framsóknarmenn líka leggja mikla áherslu.

Varðandi auglýsingatekjurnar verð ég að segja að sá sem hér stendur er alla vega þeirrar skoðunar að til þess að tryggja ákveðið jafnræði á þessum markaði, kannski raunverulega meiri samkeppni heldur en ella, held ég að sé mikilvægt að Ríkisútvarpið sé áfram á þeim markaði. Ekki er hægt, eins og menn hafa bent á, að horfa á Bretland og sumir hafa nefnt hér Danmörku og Danmarks Radio sem dæmi. Við erum að tala um allt aðrar aðstæður. Við erum að tala um aðstæður þar sem búa bara 320 þúsund manns og í til þess að gera stóru og dreifbýlu landi þar sem dreifikerfið verður óhjákvæmilega alltaf miklu dýrara í uppbyggingu, þannig að það verður einfaldlega að leggja aðrar og auknar kröfur um samfélagslega ábyrgð á slík fyrirtæki, sérstaklega fyrirtæki sem eru í opinberri eigu.

Þannig að ég held að það sé mikilvægt að RÚV verði áfram á auglýsingamarkaðnum. Það getur vel verið að það sé hægt að afmarka það með einhverjum hætti vegna nefskattsins. Þess vegna er ég ekkert mótfallinn því sem fjallað er um í þessu frumvarpi og nefndaráliti og get alveg tekið undir það.

Það síðasta sem ég ætlaði að fjalla um snýr enn frekar að þjónustu í almannaþágu, að hægt sé að dekka það sem er að gerast á þessu stóra landi okkar. Nú þekkjum við að allir stærstu, ég veit ekki hvort ég eigi að segja helstu, fjölmiðlar landsins hafa eðlilega höfuðstöðvar hér í höfuðborginni. Einfaldlega vegna fámennis er ekki hægt að halda úti jafnöflugum fjölmiðlum annars staðar, þótt það sé vissulega gert, til dæmis eru héraðsfréttamiðlar gríðarlega mikið lesnir. Á Akureyri er bæði sjónvarpsstöð og dagblað, þannig að vissulega eru menn að reyna að halda úti öflugri fréttamiðlun og upplýsingamiðlun víða um landið.

Það verður að segjast eins og er að með þeirri ákvörðun að heimila RÚV að vera á auglýsingamarkaði og tryggja stofnuninni ákveðnar tekjur með nefskatti verður líka að gera ríkari kröfu til hennar en annarra sem starfa á þeim markaði. Um tíma voru byggð upp svæðisútvörp eða staðir þar sem menn voru með þjónustu á svæðunum. Þær útvarpsrásir höfðu gríðarlega hlustun og í kringum þær byggðist líka upp þjónusta við að senda inn efni í sjónvarpið, bæði fréttir og afþeyingartengt efni.

Nú hefur Ríkisútvarpið á liðnum árum sífellt verið að skerða þessa þjónustu víðs vegar um landið. Ég tek dæmi af Suðurlandi, þar hefur í raun og veru aldrei tekist að byggja almennilega upp neitt svæðisútvarp. Það var varla komið á laggirnar þegar það var lagt af. Meira að segja voru þeir fréttaritarar sem sendu inn efni til útvarps eða sjónvarpsins aflagðir, allt með vísan til þess að svo auðvelt væri að sinna þessu hérna frá höfuðborgarsvæðinu. Það verður að segjast eins og er að það hefur því miður ekki gengið eftir. Það er verulegur ljóður á þessum þætti í starfsemi Ríkisútvarpsins. Á hinum er kannski erfitt að taka í lagatexta, en þó held ég að mikilvægt sé að hnykkja á jafnræðishugsuninni hvað þetta varðar og að tryggt sé að þessi þjónusta sé veitt.

Ég vil taka eitt lítið dæmi því það er mér mjög nærtækt. Fyrir kjördæmisþing okkar framsóknarmanna sem haldið var 12. janúar var tilkynning send til ríkisfjölmiðlanna um að til stæði að halda þing sem á bilinu 400–500 manns mundu sækja, til þess að raða á lista hjá stjórnmálaafli sem þá mældist næststerkast í því kjördæmi. Það mætti enginn frá Ríkisútvarpinu. Ekki nokkur maður. Þeir mátu það ekki nógu fréttnæmt til að vera á staðnum þó þar væru 450 manns hvaðanæva úr kjördæmi sem spannar frá Hornafirði út á Reykjanestá. Þetta er kannski ekki besta dæmið um að fréttamatið sé ekki rétt, en fjarlægðin á Selfoss er nú bara 50 kílómetrar. Það er rétt hjá þeim, það er fljótlegt að skjótast þangað, það er ekkert mál, en matið var það að þetta væri ekki fréttnæmt af því það var ekki hér. Þeir hefðu svo sannarlega farið í næsta hús ef þar hefði verið haldinn opinn stjórnmálafundur með 400–500 manns.

Þetta á ekki síður við um fréttir sem eru bara úr bæjarlífinu, hinu daglega lífi fólksins í héraðinu, þá finnst fólki oft skorta á fréttaflutning.

Þegar Ríkisútvarpið lét fréttaritara sinn hjá sjónvarpinu hætta tók samkeppnisaðilinn hann yfir og réði hann. Síðan lagði samkeppnisaðilinn áherslu að sýna næstu tvær, þrjár vikurnar jafnvel eina, tvær fréttir á dag frá viðkomandi aðila til að sýna að samkeppnisaðilinn gæti rækt þetta hlutverk betur en ríkisfjölmiðillinn. Það verður að segjast eins og er að við þingmenn Suðurkjördæmis rákum hornin í þetta og Ríkisútvarpið tók það upp að við værum að skipta okkur af starfsmannastefnu RÚV, sem var kolrangt. Þó ég vilji ekkert slæmt eða jákvætt segja um viðkomandi starfsmann get ég þó sagt að hann er hinn vænsti piltur og er með áhugaverðar fréttir, Magnús Hlynur, en málið snerist ekkert um hans persónu. Það snerist um að einhver væri á staðnum sem mundi fyrir hönd ríkisfjölmiðilsins vera tilbúinn að veita þessa þjónustu á svæðinu, hafa það mat sem nauðsynlegt er til þess að meta hvað er fréttnæmt.

Við lesturinn á nefndarálitinu og frumvarpinu gat ég ekki séð að á þessu væri nokkuð tekið, að tryggt væri að þessi þjónusta yrði efld eða sú skylda lögð á herðar Ríkisútvarpinu að sinna þeirri skyldu sem ég tel vera jafnræðisskylda gagnvart almannaþjónustu. Ég vildi því koma þeim þætti að og ætla að ljúka máli mínu með þeim orðum, frú forseti.