141. löggjafarþing — 85. fundur,  21. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[15:04]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að ég kom inn á þetta í máli mínu. Ég var að reyna að fjarlægja umræðu um einstaka starfsmenn vegna þess að mér eiginlega hálfmisbauð að yfirmenn Ríkisútvarpsins skyldu túlka þá afstöðu þingmanna Suðurkjördæmis um að mikilvægt væri að fréttaritari Ríkisútvarpsins væri á staðnum sem afskipti af starfsmannamálum. Það hafði ekkert með það að gera hvort hann sinnti starfi sínu vel eða illa eða hvernig sem það væri. Ég get bara sagt að hann vinnur starf sitt ágætlega og ég hef oft gaman af fréttum hans og fréttamati.

Það sem ég var að meina var að ég hefði kannski viljað sjá skýrari ákvæði um þetta. Það er stefna okkar framsóknarmanna að efla svæðisútvarp eða þjónustu Ríkisútvarpsins um allt land sem er m.a. hægt með svæðisútvörpum eða starfsemi á mismunandi landsvæðum.

Hv. þm. Skúli Helgason, sem er framsögumaður, benti mér á að í nefndarálitinu segir, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af hlutverki og skyldum Ríkisútvarpsins telur meiri hlutinn engu síður mikilvægt að Ríkisútvarpið komi sér upp fastri starfsemi á völdum svæðum á landsbyggðinni.“

Það er kannski það sem er ítrekað í þá átt, vissulega stendur ekkert í frumvarpinu um það. Ég var að velta því upp hér hvort það væri mikilvægt eða nauðsynlegt að það kæmi hreinlega eitthvað fram um þá frumskyldu, að mínu mati, fjölmiðils í eigu almennings og í almannaþágu, að hann hefði slíkar skilgreindar skyldur í lagatexta eða hvort hægt væri að taka á því með einhverjum hætti. Ég vildi koma því sjónarmiði að í umræðunni.