141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

vandi Íbúðalánasjóðs.

[15:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Varðandi það undir hvaða ráðherra þetta heyrir þá skiptir það verulegu máli fyrir atvinnuvegina og fyrir nýsköpun hvernig vaxtastig í landinu þróast og hvernig stór hluti af lánamarkaðnum, eins og Íbúðalánasjóður er, vinnur. Ef hann lendir í miklum vanda þá þýðir það ekkert annað en aukna skattheimtu og getur skaðað allt atvinnulífið.

Varðandi virkni stýrivaxta þá hefur það heldur betur áhrif á atvinnuvegi landsins ef gengið er að óþörfu að lækka vegna ákvörðunar Seðlabankans, ef þeir virka þannig að útlendingar geta flutt út meiri vexti af sínu sparifé, sem þeir eiga hérna, þá hefur það náttúrlega heilmikil áhrif á atvinnulífið. Ég tel hins vegar að hæstv. ráðherra þurfi að hafa skoðun á því hvernig eigi að leysa vanda Íbúðalánasjóðs en ekki vísa því til annarra.