141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

vandi Íbúðalánasjóðs.

[15:08]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég hef að sjálfsögðu ýmsar skoðanir á því, ég fylgist með og á fulltrúa í þeirri vinnu sem stendur yfir varðandi málefni Íbúðalánasjóðs. Nú í lok árs voru settir til hans fjármunir til að styrkja eiginfjárgrunninn en við vitum að horfurnar eru ekki bjartar hvað það varðar að Íbúðalánasjóður verði að öllu leyti sjálfbær og má búast við frekari afskriftaþörf á komandi árum. Það er þessi uppgreiðsluáhætta sem við þekkjum og blasir við um mistök sem liggja í fortíðinni. Aðrir verða að axla ábyrgð á því að hafa staðið þannig að málum á sínum tíma. Það heyrir undir aðra en þann sem hér talar að minnsta kosti.

En ég er sammála hv. þingmanni um að við erum að tala hér um mjög stóra og afdrifaríka hluti sem hafa mikil áhrif á samkeppnisskilyrði og starfsumhverfi bæði atvinnulífs og heimila í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að það sem Ísland þurfi séu lágir vextir, það kæmi sér mjög vel fyrir okkur, bæði vegna þess að það mun væntanlega örva fjárfestingu og eftirspurn í hagkerfinu. En það er líka þáttur sem við þurfum að hyggja að, það mikla fé sem er á fóðrum inni í hagkerfinu og vaxtastigið er stór breyta í sambandi við það hvaða ávöxtun er á því fjármagni á meðan það er hér.