141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

framhald aðildarviðræðna við ESB.

[15:18]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra um Evrópusambandsmál. Hún er á svipuðum nótum og fyrirspurnin hér á undan til hæstv. innanríkisráðherra.

Okkur er mörgum í fersku minni dagurinn fyrir kjördag fyrir síðustu kosningar þegar hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra kom í fjölmiðla og sagði að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu á hans vakt. Þetta var í ríkissjónvarpinu þar sem spurningu var beint til hans um þetta málefni.

Á landsfundi Vinstri grænna um helgina var greinilega nokkuð tekist á og að lokum fór það svo að með naumum meiri hluta var samþykkt að halda ESB-ferlinu áfram á næsta kjörtímabili og felld tillaga þess efnis að þjóðin yrði spurð um hvort ESB-viðræðurnar skyldu halda áfram. Sumir hafa talað um að með þessu hafi VG í raun tekið upp stefnu Samfylkingar í Evrópumálum, þ.e. að staðfesta í stefnu sinni að flokkurinn ætli á næsta kjörtímabili að vera stuðningsflokkur Samfylkingarinnar í þessu eina máli flokksins.

Þetta er athyglisvert í ljósi þess meðal annars að allar kannanir hafa í mjög langan tíma sýnt mikla andstöðu við Evrópusambandsaðild og einnig að allar kannanir sem hafa birst síðustu mánuði sýna að meiri hluti þjóðarinnar vill hætta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Það vakti líka athygli að (Gripið fram í.) nýkjörinn formaður og varaformaður Vinstri grænna voru ekki á sama máli í þessu efni. Nýkjörinn formaður vildi með sama hætti og hæstv. innanríkisráðherra hefur talað spyrja þjóðina hvort haldið skuli áfram aðildarferlinu.

Mig langar að spyrja hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hvort hann sé sammála nýkjörnum formanni Vinstri grænna eða nýkjörnum varaformanni Vinstri grænna í þessu stóra og mikilvæga máli.