141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

verðmætasköpun í landinu.

[15:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefur haft það til siðs í þinginu á þessu kjörtímabili að siða okkur aðeins til og segja okkur hvað má og hvað má ekki. Nú má maður víst ekki spyrja út í stefnumál flokkanna sem mótuð eru á landsfundum en gott og vel, yfirheyrslan mun halda áfram.

Fyrir dyrum stendur það stóra verkefni að semja um kaup og kjör á næstu mánuðum og ég hef þá skoðun að til þess að auka lífskjör fólksins í landinu og til að auka það sem heimilin í landinu hafa milli handanna í hverjum mánuði sé affarasælast fyrir okkur að auka verðmætasköpun.

Það kom fram í Silfri Egils í gær hjá Svavari Gestssyni sem sat umræddan landsfund Vinstri grænna um helgina að það þýddi ekkert að bíða eftir því að verðmætasköpun ykist vegna þess að það mundi taka fjögur til fimm ár. Er hæstv. ráðherra sammála því mati þessa ágæta landsfundarfulltrúa Vinstri grænna að núverandi ríkisstjórn hafi komið hlutunum fyrir með þeim hætti að atvinnulífið muni ekki ná sér á strik fyrr en eftir fjögur til fimm ár þannig að verðmætasköpun í landinu geti aukist? Er þetta sameiginleg skoðun þessara tveggja ágætu vinstri grænna og hvaða skoðun hefur ráðherrann á því?

Ef leiðin er ekki að auka verðmætasköpun, hvernig á þá að vera hægt að standa við þær yfirlýsingar sem varaþingmaður Vinstri grænna gaf í Silfrinu fyrir viku um að hér bæri einfaldlega að fara í það að hækka laun? Hvernig á að fara í það stóra verkefni ef það á ekki jafnframt að auka verðmætasköpun í landinu?

Ég minni á að af þeirri áætlun um ríkisfjármálin sem hefur verið lögð fram af þessari ríkisstjórn er ljóst að núverandi ríkisstjórn telur ekkert svigrúm til að auka ríkisútgjöld samkvæmt fjárlagarammanum sem gefinn var til 2016.