141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

verðmætasköpun í landinu.

[15:27]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég heyrði ekki þessi tilvitnuðu ummæli og ég leyfi mér að efast um að þetta sé sanngjörn endursögn á þeim. Ég þykist þekkja þennan mann það vel að ég tel afar ólíklegt að hann hafi haldið því fram berum orðum að verðmætasköpun gæti ekkert aukist í landinu næstu fjögur, fimm árin og þýddi ekkert að bíða eftir því. Ég skal hlusta á þessi ummæli en sé hv. þingmaður að leika þann leik að endursegja þetta með vafasömum hætti er það ekki sérstaklega rismikið.

Við erum að sjálfsögðu öll sammála um að það sé mikilvægt að auka verðmætasköpun í landinu. Það er ævintýralegt að stilla þessu þannig upp að sumir vilji það og aðrir ekki. Ég þekki engan sem ekki vill að Ísland blómgist, að hér sé verðmætasköpun og hagvöxtur, að störfum fjölgi o.s.frv. Við skiljum öll og vitum og þekkjum mikilvægi þess fyrir okkur til að ná okkur upp úr hruninu. Sérstaklega þeir sem bera ábyrgð á hruninu ættu náttúrlega að vera sér vel meðvitaðir um að við munum aldrei ráða við allar þær skuldir sem hlóðust á okkur, ríkissjóð og landið, nema að við höfum verðmæti til að borga þær til baka með.

Verðmætasköpunin er að aukast. Við getum verið þeirrar skoðunar að það væri æskilegt að batinn væri enn kraftmeiri en við skulum að minnsta kosti vera ánægð með það sem það er, að við erum að fara inn í þriðja árið í röð með 2–2,5% hagvexti sem er með því mesta sem við sjáum í þróuðum hagkerfum, því miður, vegna þess að ástandið annars staðar er svo dapurlegt. Hagvöxturinn hér hjá okkur og batinn væri án nokkurs minnsta vafa kraftmeiri ef efnahagsástandið væri ekki svona bágborið í Evrópu. Útflutnings- og samkeppnisgreinarnar hafa almennt staðið sig vel. Raunhagkerfið íslenska er að sækja í sig veðrið. Ýmsar nýjar vaxtargreinar leggja mikið af mörkum.

Tækni- og þekkingargreinar og skapandi greinar, nýsköpun, eru að örvast eins og við sjáum á því að endurgreiðslur á rannsóknar- og þróunarkostnaði hjá nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum vaxa núna um hundruð milljóna króna á milli ára í fjárlögum sem eru ávísun á aukna verðmætasköpun og aukinn kraft inn í framtíðina. Við erum að styðja við bakið á þessari nýsköpun. (Forseti hringir.) Það er nokkuð sem þessi ríkisstjórn gerði en ekki þær sem voru á undan henni.