141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

mál á dagskrá.

[15:47]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Hvers konar endemis vitleysa er það í máli hæstv. ráðherra að ekki sé hægt að afgreiða og taka þetta mál til umfjöllunar því að annað mál frá ráðherra er til umfjöllunar í nefndinni? Við höfum dæmi fyrr á þessu þingi um að ekki mátti afgreiða frumvarp okkar sjálfstæðismanna frá umhverfisnefnd samhliða rammaáætlunarþingsályktunartillögu frá hæstv. ráðherra. Það er alveg hægt að gera þetta svona og það er meiri hluti nefndarinnar sem stendur að þessu. Ekki síst vek ég athygli hæstv. ráðherra á því að tveir þingmenn frá Vinstri grænum eru á nefndarálitinu, svona til íhugunar fyrir hæstv. ráðherra.

Það er greinilegt að þetta vekur einhverjar tilfinningar og menn eru ekki sammála um þetta mál innan Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það leiðir til þess að við fáum ekki að taka til umfjöllunar í þinginu mál sem er afar mikilvægt til að efla bæði almenna löggæslu og rannsóknarheimildir í landinu. Ég vek athygli á því að þetta er þingsályktunartillaga sem snýst um að ráðherra semji frumvarp og þá hefur þingið enn þá tækifæri til að fara (Forseti hringir.) með þremur umræðum og umfjöllun í nefnd betur yfir málið.