141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

mál á dagskrá.

[15:53]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ekki svo einfalt að atkvæðagreiðsla eigi bara að fara fram í þessu máli, umræðan skiptir líka máli. Það skiptir máli að mál fái að koma hingað til efnislegrar umræðu.

Fyrir hönd þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs óskaði ég eftir því á miðvikudaginn að umrætt mál yrði tekið af dagskrá og umræðunni frestað. Hvers vegna? Vegna þess að hvorugur fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem var á nefndarálitinu með fyrirvara var í húsi og gat þess vegna ekki tekið þátt í umræðunni. Það sem meira var, hæstv. ráðherra var erlendis og gat heldur ekki tekið þátt í umræðunni en hafði óskað eftir að gera það. Þetta eru málefnalegar ástæður sem óskað var eftir að teknar yrðu til greina og ég bendi á að þessu nefndaráliti var dreift deginum áður en það kom á dagskrá óforvarandis og hafði ekki verið haft samráð um dagskrá við þingflokksformenn. (Forseti hringir.) Nú hefur verið orðið við þessari ósk og það er bara gott. Þá getum við undirbúið umræðuna og haft hana. Það er aðdragandi atkvæðagreiðslu, ekki eins og málið var lagt upp á miðvikudaginn.