141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

mál á dagskrá.

[15:59]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég geri athugasemdir við þær breytingar sem forseti gerði á dagskránni í dag með því að taka þetta mál af dagskrá. Ég gerði reyndar athugasemdir við það á þingflokksformannafundi fyrr í dag.

Á sama hátt og ég get tekið undir að það var eðlilegt að fresta umræðu um málið í síðustu viku þegar hæstv. innanríkisráðherra var ekki viðstaddur og fresta því til dagsins í dag þegar hæstv. innanríkisráðherra er viðstaddur er jafneðlilegt að málið fái þá að klárast í umræðunni í dag í þingsal, fá ólík sjónarmið upp á borðið til að geta síðan farið í atkvæðagreiðslu um málið. Ef það er ekki meiri hluti fyrir því í þinginu fer það ekki lengra. Það er ekki flóknara en það. Þá kemur bara hinn lýðræðislegi meiri hluti í ljós en það er gott að fá umræðuna um þetta, það er mjög mikilvægt að fá hana fram því að ég held, frú forseti, að hún sé sveipuð ansi (Forseti hringir.) sérkennilegum skoðunum á til dæmis fullkomlega eðlilegri lögreglurannsóknarvinnu eins og þeirri sem tíðkast í Noregi, Danmörku og Svíþjóð, í þeim löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við.