141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

sértæk þjálfun, hæfing og lífsgæði einstaklinga með fjölþættar skerðingar.

588. mál
[16:00]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Ragnheiður Ríkharðsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Kveikjan að þessum fyrirspurnum er heimsókn í Endurhæfingu – þekkingarsetur í Kópavogi og kynning á því afar sérstæða starfi sem þar fer fram.

Í gildi er þverfagleg þjónusta, valdeflandi og skjólstæðingamiðuð, sem lögð er til grundvallar í starfi með fötluðum börnum. Við tímamót unglings- og fullorðinsára verður ákveðið rof í þjónustu og síðan við flutning úr foreldrahúsum en þá hafa þessir einstaklingar ekki eingöngu misst stuðning velferðarkerfisins sem þeir nutu sem börn heldur einnig þekkingu og stuðning foreldra og fjölskyldu ásamt ýmsum réttindum. Það er ljóst að við tekur óviss þjónusta á vegum hins opinbera og í raun mætti segja að núverandi skipulag fyrir þennan hóp stuðli að fötlun, færniskerðingu og félagslegri einangrun. Á þessum tímamótum í lífi þess sem býr við fjölþættar skerðingar er notkun hjálpartækja einnig í uppnámi því að jafnt þessir einstaklingar sem og starfsfólk sem aðstoðar þá telja að þeir hafi ekki aðgang að nauðsynlegum hjálpartækjum. Það mætti halda að reglugerð um úthlutun hjálpartækja til fullorðins einstaklings sem býr á sambýli við fjölþættar skerðingar feli í sér mismunun á grundvelli aldurs og búsetu.

Virðulegur forseti. Í ljósi þessa vil ég spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga:

Telur ráðherra að á tímamótum unglings- og fullorðinsára þeirra sem búa við fjölþættar skerðingar og við flutning þeirra úr heimahúsum njóti þeir viðeigandi þjónustu og stuðnings velferðarkerfisins?

Í öðru lagi: Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða reglugerðir um hjálpartæki með tilliti til jafnræðisreglu þar sem fram hefur komið að aðgengi að stoð- og hjálpartækjum auki sjálfstæði og þátttöku einstaklinga?

Virðulegur forseti. Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. velferðarráðherra hvort hann telji þörf á heildstæðu mati á þjálfun og hæfingu þessa hóps sem og skipulagi þjónustunnar þvert á stofnanir og kerfi.