141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

sértæk þjálfun, hæfing og lífsgæði einstaklinga með fjölþættar skerðingar.

588. mál
[16:03]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur beint til mín fyrirspurn um sértæka þjálfun, hæfingu og lífsgæði einstaklinga sem eru með fjölþættar skerðingar og flóknar þarfir.

Í fyrsta lagi spyr hv. þingmaður: Telur ráðherra að þeir sem eru með fjölþættar skerðingar og flóknar þarfir njóti viðeigandi þjónustu og stuðnings velferðarkerfisins? Og spyr þá sérstaklega um á mótum unglings- og fullorðinsára, t.d. við flutning úr heimahúsum.

Ég skil efni spurningarinnar þannig að átt sé við þá sem eru með fjölþættar skerðingar eða þarfir. Sértæk þjónusta við þann hóp fellur því undir lög um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992, með síðari breytingum. Í lögunum er með skýrum hætti kveðið á um markmið, skipulag og hlutverk ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk, bæði börn og fullorðna. Rík áhersla er þar lögð á jafnrétti fatlaðs fólks til jafns við ófatlaða. Auk þess er kveðið á um að tekið sé mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Ekki hafa verið sett skýr viðmið um hvaða þjónusta sé viðeigandi fyrir einstaklinga eða hópa með svipaðar stuðningsþarfir. Ástæða þess er að slíkt getur reynst afar erfitt vegna þess hve þarfir einstaklinga eru misjafnar og því þarf að miða þjónustuna við þarfir hvers og eins.

Mat á þörfum einstaklinga fyrir þjónustu hefur verið framkvæmt með ýmsum hætti en áhersla hefur verið á áreiðanleika, réttmæti og jafnræði á grundvelli aðferða sem eru viðurkenndar á alþjóðlega vísu. Því til viðbótar hefur verið lögð áhersla á að mat á þörfum sé samræmt á landsvísu. Loks er gert ráð fyrir því að mat á stuðningsþörf sé unnið í samtali við notanda og/eða eftir atvikum við aðra þá sem til hans þekkja og veita honum þjónustu. Á grundvelli niðurstöðu þess mats hvílir sú skylda á félagsþjónustu sveitarfélaga að veita grunnþjónustu og frekari þjónustu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga og lögum um málefni fatlaðs fólks. Auk þess gilda að sjálfsögðu önnur almenn lög um þjónustu við þennan hóp.

Benda má á að heildstæð nálgun í þjónustu liggur að baki allri framkvæmd. Einkum er horft til þjónustu á heimilum fatlaðs fólks og ýmiss konar virkniúrræða á dagtíma auk þjónustu á skólatíma og í frístundum.

Í reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu, nr. 1054/2010, voru tekin mikilvæg skref í þá átt að tryggja ákveðna meðferð umsókna í þjónustu á heimilum fatlaðs fólks þegar það óskar eftir þjónustu þegar 18 ára aldri er náð. Í reglugerðinni er þess sérstaklega getið að mið skuli tekið af óskum, aðstæðum og þörf viðkomandi einstaklinga fyrir þjónustu. Jafnframt skuli þjónustan vera einstaklingsbundin, heildstæð og sveigjanleg og hafa það markmið að efla vald fólks yfir aðstæðum sínum og lífi. Í reglugerðinni er lýst ákveðnu verklagi sem felur það meðal annars í sér að sveitarfélag þar sem umsækjandi á lögheimili skuli undirbúa þjónustu við viðkomandi innan ákveðins tímaramma. Loks er gert ráð fyrir því að notandi þjónustunnar geti gert samninga eða að unnin verði einstaklingsbundin þjónustuáætlun með honum sem tryggir ábyrgð sveitarfélags eða annarra þjónustustofnana á framkvæmdinni.

Á grundvelli þessa er því mat mitt að almennt séu þau úrræði til staðar sem bjóða upp á að viðkomandi þjónusta sé veitt þótt enn skorti upp á að þjónustukerfin vinni nægjanlega vel saman og með nægjanlega skilvirkum hætti í þágu notenda.

Önnur spurningin var: Telur ráðherra ástæðu til að endurskoða reglugerðir um hjálpartæki með tilliti til jafnræðisreglu þar sem fram hefur komið að aðgengi að stoð- og hjálpartækjum eykur sjálfstæði og þátttöku einstaklinga?

Hjálpartæki auðvelda fólki með skerta hreyfigetu, eins og kom fram hjá fyrirspyrjanda, athafnir daglegs lífs og auka lífsgæði einstaklinga sem þurfa á hjálpartækjum að halda. Náið er fylgst með nýjungum á þessu sviði og reglur um styrki vegna hjálpartækja eru endurskoðaðar reglulega og þeim breytt ef ástæða þykir til, að teknu tilliti til fjárveitinga á fjárlögum hverju sinni. Þegar reglur eru settar um styrki til hjálpartækja er þess gætt að samræmi sé haft á milli hópa sem þurfa á hjálpartækjunum að halda. Það má segja að þrátt fyrir að við höfum búið við þessar erfiðu aðstæður í fjármálum hefur hjálpartækjaþjónustan ekki verið skorin eins mikið niður og ýmis önnur þjónusta.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður: Telur ráðherra þörf á heildstæðu mati á þjálfun og hæfingu þessa hóps sem og skipulagðri þjónustu þvert á stofnanir og kerfi?

Það má kannski svara þessu með einu einföldu jái því að í fyrrgreindri reglugerð um þjónustu við fatlað fólk á heimilum er gert ráð fyrir því að notandi eigi rétt á að gerð sé einstaklingsbundin þjónustuáætlun í hans þágu. Slík áætlun felur í sér skýr markmið sem vinna skal að með því að veita stuðning og samhæfa úrræði mismunandi þjónustuaðila, þar á meðal félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og annarra aðila svo sem á sviði menntunar, atvinnu og tómstunda. Þjónustuáætlun lýsir því hver ber ábyrgð á því að tilteknum verkþáttum í áætluninni sé framfylgt ásamt upplýsingum um þann tíma sem einstökum stuðningsþáttum er ætlað. Forsenda þess að hægt sé að gera þjónustuáætlun (Forseti hringir.) byggist á því að unnið sé heildstætt mat eins og hér hefur komið fram. Ég mun auðvitað koma betur inn á þetta í síðara svari því að tíminn er runninn út.

Hæstv. forseti. Ég vona að þessar upplýsingar svari að mestu fyrirspurn hv. þingmanns.