141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

sértæk þjálfun, hæfing og lífsgæði einstaklinga með fjölþættar skerðingar.

588. mál
[16:09]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Mér barst nýlega ábending frá föður tveggja fatlaðra barna varðandi lög nr. 22/2006, um greiðslur til alvarlega langveikra og fatlaðra barna. Ég ætla að inna ráðherra eftir því hvort það geti staðist sem kemur fram í ábendingu frá þessum föður. Hann dregur fram að þegar lögin voru sett kom meðal annars fram að greiða ætti til slíkra fjölskyldna samkvæmt heildarmati, mati á heildaraðstæðum, ekki einungis eftir sjúkdómsgreiningu vegna þess að sjúkdómar geta komið mismunandi illa niður á börnum og fólki almennt. Það ætti sem sagt að fara fram heildstætt mat.

Þessi faðir vill meina að slíkt mat fari ekki fram samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum heldur sé sjúkdómsgreiningin bara skoðuð, ekki þetta heildstæða mat, samlegðaráhrif vegna tveggja fatlaðra barna o.s.frv., og taldi reyndar að fram hefði komið að um 30% foreldra sem eru heimavinnandi vegna veikinda (Forseti hringir.) og fötlunar barna hefðu fengið höfnun á greiðslum.

Ég vil inna ráðherrann eftir þessu, (Forseti hringir.) hvort hann geti aflað sér upplýsinga um þetta og hvort þetta geti staðist.