141. löggjafarþing — 86. fundur,  25. feb. 2013.

sértæk þjálfun, hæfing og lífsgæði einstaklinga með fjölþættar skerðingar.

588. mál
[16:13]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu, ég held að hún sé afar mikilvæg, og þakka málshefjanda fyrir að bera þetta hér fram og þeim sem hafa tekið þátt í umræðunni þó að formið sé knappt.

Það sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir nefnir hér varðandi langveik börn er nokkuð sem þarf að skoða og ég get ekki tekið afstöðu til hér. Ég tek það fram, eins og ég fór yfir í framsögu minni, að ætlast er til þess að menn vinni einmitt heildstætt mat og sveitarfélögin, heilbrigðiskerfið, félagsþjónustan og aðrir komi að því mati og leggi fram greiningu á því hver þörfin er. Það verður auðvitað að viðurkennast, eins og kom líka fram í framsögu minni, að þetta er ekki alls staðar komið í viðunandi horf um land allt þannig að við höfum verk að vinna. Við erum líka að þróa okkur áfram með notendastýrða persónulega aðstoð.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi hér Endurhæfingu – þekkingarsetur í Kópavogi sem ég var svo heppinn að fá að heimsækja fyrir helgi og var mjög hrifinn af þeirri vinnu sem þar er unnin. Þar er einmitt lögð áhersla á að hvetja alla sem vinna með viðkomandi einstaklingum til að vinna fyrirbyggjandi störf, ekki er reynt að draga þá inn á stofnanir til að leysa málið heldur auka þekkinguna í umhverfinu á grundvelli þess sem þar er byggt á. Ég tek heils hugar undir með hv. málshefjanda að það er svo brýnt að við nálgumst viðfangsefnið þannig að þessir einstaklingar fái tækifæri í nærumhverfi sínu til að þroska hæfileika sína, til að auka lífsgæði sín og taka þátt í virkni. Það verður ekki leyst inni á stofnunum eða með því að fara á ákveðna staði, það verður leyst með því að auka þekkingu allra sem koma að vinnu með viðkomandi einstaklingum, hvort sem það er fjölskyldan eða þeir þjónustuaðilar sem vinna með fatlaða einstaklinga.

Takk fyrir að taka þessa umræðu upp og megi hún verða hvatning til þess að við reynum áfram að gera enn betur.