141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

umræða um 2. dagskrármál.

[16:19]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég var reiðubúin að falla frá orðinu ef hæstv. forseti hefði upplýst eða gefið svar við þeirri spurningu sem lögð hefur verið fram og var lögð fram á síðasta fundi líka. Ég tel afar mikilvægt að skýr svör komi frá hæstv. forseta. Ef ekki hljótum við að fara fram á það að formenn þingflokka verði kallaðir saman og ræði það ef til stendur að taka málið út af dagskrá. Málið er á dagskrá. Ég vil fá skýr svör og óska eftir því við hæstv. forseta hvort það verði ekki örugglega þannig að það verði rætt á eftir.

Mér þótti nefnilega umræðan sem fór fram hér áðan dálítið hættuleg. Mér fannst hættulegt að hæstv. ráðherra gerði sig sekan um það með grímulausum hætti að reyna að hafa áhrif á dagskrá þingsins. Mér þykir afar mikilvægt að hæstv. forseti skýri það og veiti okkur svar um það atriði.