141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

umræða um 2. dagskrármál.

[16:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þetta er algjörlega ótækt. Ég krefst þess að hæstv. forseti útskýri og færi fram rök fyrir því af hverju málið er tekið af dagskrá. Er það svo, herra forseti, að hingað geti hæstv. ráðherrar komið og breytt dagskrá þingsins í einu vetfangi? Er það þannig að hæstv. forseti taki við fyrirskipunum frá framkvæmdarvaldinu um það hvernig dagskrá þingsins eigi að vera? Mér þykir það líta þannig út vegna þess að eins og hér var rakið áðan eru engin af þeim rökum sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir beitti fyrir sig áðan enn þá til staðar. Hér er ráðherrann á staðnum. Hér hefur þingmaðurinn haft marga daga til að kynna sér málið. Hér eru flutningsmenn á staðnum. Hér eru allar aðstæður til að ræða málið, nema þær að hæstv. ráðherra vill það ekki.

Hæstv. forseti. Ég fer fram á að gert verði hlé á þessum þingfundi og (Forseti hringir.) formenn þingflokka kallaðir saman til að fara yfir þetta mál.