141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[16:30]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Það má segja að ferlið í kringum frumvarpið hafi verið bæði lærdómsríkt, langt og gagnlegt og ég fagna því að við erum þó komin þetta langt áleiðis með málið. Það eru nokkur atriði sem hafa verið mér hugleikin í nefndastarfinu og ég ætla aðeins að fara yfir og ég ætla jafnframt að fara yfir hversu vel mér finnst hafa tekist til hjá nefndinni. Ég er líka með ábendingar og svolitlar áhyggjur af aðgengi að þeim ríkisfjölmiðli í kringum ýmiss konar atkvæðagreiðslur, hvort sem það eru þjóðaratkvæðagreiðslur eða kosningar til Alþingis eða sveitarstjórna.

Það er kannski ágætt að rifja upp almenna ákvæðið um frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

Í 1. gr. segir:

„Markmið laga þessara er að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu. Það skal leggja rækt við íslenska tungu, menningu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð.“

Sumir hafa gagnrýnt frumvarpið. Það er mjög margt gott í því og það er gott að hafa heildræna stefnu um hlutverk þessa fjölmiðils sem allir borga sinn nefskatt til. Margir hafa haft orð á því að efnisatriði þess verði fljótt úrelt og persónulega finnst mér ekki vera gert nægilega mikið ráð fyrir þeim miklu breytingum sem eiga sér stað í heimi fjölmiðla og mér finnst furðulegt að vefur Ríkisútvarpsins megi ekki hafa neinar tekjur.

Það var rætt gríðarlega mikið um auglýsingar í störfum nefndarinnar, meira og minna allir fundirnir sem við fengum gesti á höfðu þann fókus og mér fannst stundum pínulítið nóg um. Þó svo að RÚV hafi forskot á aðra fjölmiðla varðandi auglýsingar og nefskatt er svo margt annað sem skiptir máli fyrst við erum með þann miðil. Það skiptir miklu máli að rétt sé að honum staðið og umbúnaðurinn og umgjörðin þurfa að vera mjög skýr svo hann geti þjónað almennu ákvæðismarkmiði sínu.

Mér fannst í raun og veru komið töluvert til móts við margt af þeim sjónarmiðum sem komu fram á fundum okkar sem voru töluvert margir og tóku langan tíma. Eins og ég segi hefði ég viljað sjá meiri áherslu lagða á tækniþróunina og meðvitund um þá miklu þróun sem á sér stað núna varðandi t.d. sjónvarpsefni og hvernig fólk sækir sér sjónvarpsefni. Það er eiginlega orðið þannig að heilu kynslóðirnar horfa aldrei á sjónvarp og heilu kynslóðirnar hlusta aldrei á útvarp nema á þann hátt að ná sér í efni sem sérhvern langar í hverju sinni. Fólk notar ekki endilega einn fjölmiðil eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, að það sé einhvern veginn samfelld og línulaga notkun á miðlinum. Fólk sem er uppalið á internetinu nær sér í auknum mæli í eina frétt á einum stað og aðra frétt á öðrum stað og notar miðilinn þar sem það náði sér í frétt kannski aldrei aftur nema eitthvað laði það að honum.

Það sem mér finnst verst með fréttamiðil RÚV á netinu er að hann er í raun og veru ekki fréttamiðill. Hann er ekki sjálfstæður miðill af neinu tagi heldur er eingöngu unnið upp úr helstu fréttum útvarpsins eða sjónvarpsfrétta. Ég hefði viljað sjá gert meira ráð fyrir því að nauðsynlegt sé fyrir RÚV að hafa einhverja forsendu fyrir því að fá fólk til fara inn á vefinn og nýta sér þá þjónustu sem við leggjum til að RÚV veiti. Ég held að RÚV verði ekki miðill ungs fólks, því miður. Ég vona því að þetta sé bara fyrsta skrefið og fljótlega verði farið í að vinna betri ramma utan um þá staðreynd að RÚV verður að vera með gagnlegri og áhugaverðari vef, sérstaklega hvað lýtur að ítarefni og rannsóknarblaðamennsku. RÚV hefur staðið sig mjög vel á sumum sviðum eins og hefur komið fram undanfarin missiri en ég tel að RÚV þurfi meiri stuðning til að geta aukið og eflt þá rannsóknarblaðamennsku sem miðillinn hefur innt vel af hendi.

Það eru önnur atriði sem ég vakti athygli á og ég veit ekki hvort er búið að laga. Ég vakti athygli á því að þegar vefur RÚV var uppfærður fyrir einu og hálfu ári síðan hurfu allar eldri fréttir út af honum. Það er mjög bagalegt á þeim tímum sem við lifum að ekki sé hægt að ná í fréttir aftur í tímann þegar fólk er að rannsaka og skoða samhengi og tímalínur. Þrátt fyrir að allur gamli vefurinn hafi horfið þegar hann var uppfærður var ekki búið að lagfæra það einu og hálfu ári síðar og því miður virtist yfirstjórn RÚV ekki meðvituð um að allt gagnsafnið væri ekki aðgengilegt almenningi. Ég nefni það af því að skilning virðist skorta á mikilvægi þess að ríkisfjölmiðilinn okkar vanti ekki hreinlega á eina burðarstoð framtíðarinnar í fjölmiðlum.

Það eru fleiri hlutir sem ég vil gagnrýna en áður en ég geri það langar mig að benda á nokkur atriði sem ég er mjög ánægð með að okkur hefur tekist að ná í gegn. Sem dæmi má nefna textunina og táknmálstúlkunina og sér í lagi í kringum fréttir sem mér finnst frábært. Ég er líka mjög ánægð með að gera eigi sögusafn, hið sögulega og stórmerkilega safn RÚV af gömlu efni, aðgengilegt. Ég vil benda á að enn þá hverfur bæði sjónvarpsefni og útvarpsefni, og þá er ég að tala um fréttir og fréttatengda útvarpsþætti og sjónvarpsþætti, af netinu eftir tvær vikur. Það er mjög bagalegt af því að maður vill oft geta vísað í efni þótt tvær vikur séu liðnar. Sumt er hreinlega þess eðlis að það er ekki háð tíma og rúmi. Það væri því mjög gagnlegt ef tekið væri tillit til þess þegar gerð verður, vonandi einhvern tíma, heildstæð stefna um hvernig RÚV á að vera á netinu. Ég vona að það rúmist innan þess ramma og heimilda sem RÚV fékk til að gera tilraunir í allt að 24 mánuði til að þróa betur starfsemi sína út frá þeirri tækni sem við búum við í dag. RÚV hefur til dæmis ekki náð að þróast þannig að við getum nýtt miðilinn nógu vel á öllum okkar gasalega fínu símum.

Ég var fegin að fá til nefndarinnar okkar nefnd um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Það vildi svo til að þegar OECD kom til Íslands eftir kosningar átti ég ásamt fleirum fundi með þeim og við gerðum alvarlegar athugasemdir við aðgengi framboða að RÚV. Útvarpsstjóri hefur viðurkennt að gerð hafi verið mistök þegar ákveðið var að spyrja fjórflokkinn hvort honum fyndist ástæða til að hafa kynningarefni fyrir sig og nýju flokkana eins og hefur oft verið þar sem flokkarnir, nýju framboðin og bara öll framboð, hafa fengið u.þ.b. 15 mínútur til að kynna helstu stefnumál sín. Það brá svo við að nokkrir af flokkunum sögðu að ekki væri þörf á því og þá var ákveðið að hafa það ekki.

Mig langar að hvetja fólk til að lesa álit nefndarinnar um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Ég ætla aðeins að grípa niður í álitið af því að mér finnst við ekki hafa gengið nægilega langt, þótt ég sætti mig við að við höfum gengið hálfa leið. Ég hefði viljað ganga mun lengra varðandi aðgengi stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að RÚV í aðdraganda kosninga. Það er einmitt mjög mikilvægt núna ef það verður svo að framboðin verði 15 eða 16 og ef við verðum t.d. með persónukjör, hvernig ætlar RÚV að tækla það? Það er ekki alveg ljóst. Þess vegna segi ég að þetta er ágætisgrunnur til að byggja á en það er augljóst að mjög fljótlega þarf að skoða, í nýjum veruleika, úrbætur til að byggja ofan á þann fína grunn.

Það sem ég lagði áherslu á og fékk ekki í gegn var að þegar flokkarnir, mismunandi framboð, kynna stefnumál sín sé það á hinum svokallaða kjörtíma eða „prime time“. Ástæða þess að ég hefði viljað það er að fólk er ekkert endilega að horfa á sjónvarp eftir klukkan korter yfir tíu eða seinna á kvöldin. Það er sá tími sem hefur yfirleitt verið notaður fyrir kynningu framboða á stefnumálum sínum. Ég held að fólk geri sér almennt ekki grein fyrir því hversu mikilvægt þetta er af því að stefna flokkanna er sá grunnur sem verður byggt á næstu fjögur ár í landinu og að það þyki ekki jafnmerkilegt og Eurovision-söngvakeppnin eða einhverjir íþróttaleikir finnst mér mjög sérstakt.

Útvarpsstjóri brást mjög illa við þeim tillögum að slíkt efni yrði sýnt á kjörtíma. Þetta er ekki nema örfáum sinnum, alveg eins og stóru íþróttaviðburðirnir og annað sem hafa ekki eins mikil áhrif á okkar daglega líf og stefnur flokkanna, og það er mjög mikilvægt að fólk sé upplýst um hverjar stefnurnar eru. Ég vonast til þess að það verði sett á þannig dagskrártíma að einhverjir hafi tök á að horfa.

Í tengslum við þá gagnrýni og þær áhyggjur er ég ánægð með að okkur hafi tekist að setja inn hér, og vona að þingmenn styðji það, að hvert framboð fái 15 mínútur. Það eru önnur atriði sem eru töluvert mikilvæg og mig langar að grípa aðeins niður í álitið sem við fengum frá nefndinni með langa nafnið, nefnd um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga.

Svo að það sé skjalfest í orði, með leyfi forseta:

„Nefndin var skipuð að tillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar eins og lagt var til í nefndaráliti. […] Nefndinni er ætlað að fjalla um athugasemdir Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu […] um framkvæmd kosninga til Alþingis árið 2009 og móta af því tilefni reglur um aðgang stjórnmálahreyfinga og frambjóðenda að fjölmiðlum í aðdraganda kosninga. Nefndin hefur í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra ekki takmarkað umfjöllun sína við reglur um aðgang að fjölmiðlum svo sem rakið var í skipunarbréfi hennar heldur einnig horft til hlutverks og starfsemi fjölmiðla í aðdraganda kosninga og þeirra reglna sem um þá gilda. Nefndin hefur haldið níu fundi og fengið til sín ýmsa gesti einkum forsvarsmenn fjölmiðla, fagfélaga blaða- og fréttamanna auk fulltrúa fjölmiðlanefndar. Þá stóð nefndin fyrir opnu málþingi um skyldur fjölmiðla í byrjun janúarmánaðar. Stefnt er að því að nefndin skili skýrslu sinni til ráðherra í þriðju viku febrúarmánaðar.

Nefndin hefur haft til umfjöllunar gjaldfrjálsan útsendingartíma (e. free airtime)“ — það er eitthvað sem mér finnst mjög athyglisvert — „sem er þekkt og virkt úrræði í fjölmörgum ríkjum. Með hliðsjón af beiðni allsherjar- og menntamálanefndar hefur nefndin flýtt umfjöllun um þetta atriði enda á það að mati hennar heima í frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðils í almannaþágu. Bréf þetta hefur verið lesið yfir og samþykkt af meiri hluta nefndarmanna.“

Mér finnst mjög brýnt að við höldum tillögunum frá nefndinni til haga. Okkur tókst ekki að ganga eins langt og nefndin lagði til og því tel ég mikilvægt að við í það minnsta höfum tillögurnar til hliðsjónar ef einhvern tíma kemur upp ágreiningur eins og í aðdraganda kosninga 2009.

Með leyfi forseta:

„Ein hinna efnislegu athugasemda sem sett er fram í skýrslu ÖSE tengdist því hvernig Ríkisútvarpið stóð að undirbúningi gjaldfrjáls útsendingartíma fyrir þau framboð sem buðu fram árið 2009 til alþingiskosninga. Með þeirri nálgun, að áskilja þátttöku allra framboða til þess að í boði væri gjaldfrjáls útsendingartími, hefði hinum rótgrónari flokkum í raun verið gert kleift að útiloka að hin nýrri framboð ættu kost á því að kynna framboð sín í sjónvarpi á eigin forsendum. Því er bent á í skýrslunni hvort ástæða sé til að huga að setningu reglna hvernig standa skuli að úthlutun útsendingartíma og tryggja þannig samræmi milli kosninga.

Frjáls útsendingartími í sjónvarpi hefur mikla þýðingu. Almennt virðist yfir vafa hafið að sjónvarp er í eðli sínu svo kröftugur miðill og þannig ein áhrifamesta leiðin til að ná til kjósenda í kosningabaráttu. Þetta endurspeglast í því að framboð leggja mikla áherslu á að hljóta umfjöllun með því að haga viðburðum og kynningum sínum svo þær nái í gegn í sjónvarpi. Þá endurspeglast hið sama í því að framboð hér á landi hafi veitt háum fjárhæðum til auglýsinga í sjónvarpi þrátt fyrir að kostnaður við það sé umtalsvert meiri en við kaup á annars konar auglýsingum.

Áhrifamáttur sjónvarps á kosningabaráttu endurspeglast einnig í því að í mörgum ríkjum hefur verið lagt bann við sjónvarpsauglýsingum stjórnmálaflokka eða framboða vegna neikvæðra áhrifa sem þær geta haft á gæði stjórnmálaumræðunnar, m.a. með því að brengla eða afvegaleiða lýðræðislega umræðu um flókin samfélagsleg viðfangsefni. Til stuðnings slíku banni er einnig iðulega vísað til þess forskots sem fjársterkari framboð eða hagsmunaaðilar gætu öðlast í kosningabaráttu á kostnað veikari eða nýrri framboða.“

Það má geta þess í því samhengi að ég var að hlusta á fréttir á BBC gær og þar kom fram að Berlusconi hlýtur, þrátt fyrir allt sem á undan er gengið, þokkalega kosningu af því að hann hefur beitt fjölmiðlum sínum, sjónvarpsstöðvum sínum, á mjög flókinn hátt viðstöðulaust í stofum allra Ítala og hefur þar af leiðandi einmitt náð að afvegaleiða kjósendur.

Ég gríp aftur niður í álitið frá nefndinni, með leyfi forseta:

„Í tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins CM/Rec (2007/15) til aðildarríkja um úrræði varðandi fjölmiðlaumfjöllun um kosningabaráttu er í II hluta sérstaklega fjallað um úrræði vegna ljósvakamiðla. Í 14. gr. II. kafla er fjallað um gjaldfrjálsan útsendingartíma. Tilmælin gera ráð fyrir að ríki meti gildi þess að reglur um umfjöllun fjölmiðla um kosningar geri ráð fyrir að ljósvakamiðlar í almannaþjónustu megi úthluta útsendingartíma án endurgjalds til flokka eða framboða meðan á kosningabaráttu stendur. Þetta geti átt við jafnt hvort sem um er að ræða línulega eða ólínulega dagskrá en í hinu síðarnefnda tilfelli skuli þess gætt að sýnileiki allra framboð sé jafn. Úrræðinu verði beitt af sanngirni, jafnræði, gagnsæi og hlutlægni.“

Nú sýnist mér ég vera búin með tímann minn. Ég vil endilega og einlæglega hvetja þingmenn og aðra sem er umhugað um að Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu til að hann sé nýttur til almannaþágu, ekki bara til afþreyingar heldur líka til upplýsingar.