141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu. Allnokkrir þingmenn hafa blandað sér í þessa umræðu og það er ýmislegt í frumvarpinu sem er skárra en í þeim frumvörpum sem við höfum rætt um þetta sama mál á fyrri þingum, en engu að síður er ýmislegt sem vert er að ræða um.

Ég tel að hlutverk Ríkisútvarpsins sem er skilgreint í 3. gr. frumvarpsins sé enn allt of víðtækt. Engin tilraun er gerð til að mæta þeirri miklu umræðu og þeim hörðu athugasemdum sem komið hafa fram, sérstaklega frá þeim sem eru að reyna að starfrækja einkarekna fjölmiðla hér á landi, gagnvart því ofurefli sem RÚV er.

Í 3. tölulið 3. gr. er fjallað um hvaða fjölmiðlaefni skuli vera hið minnsta hjá Ríkisútvarpinu. Þar kemur fram að:

„Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.“

Einkareknu fyrirtækin hafa aðallega gert athugasemdir við orðalagið „afþreying af ýmsum toga“ og ég get ekki séð að því hafi verið breytt á nokkurn máta í meðförum nefndarinnar þrátt fyrir að ýmsir, meðal annars Skjár einn, hafi sent inn athugasemdir nú eins og svo oft áður. Hann gerir vel grein fyrir athugasemdum sínum í umsögn sinni og spyr hvers vegna skilgreiningin sé ekki þrengri þar sem Ríkisútvarpið hafi til þessa talið hlutverk sitt vera að bjóða upp á afþreyingarefni sem hafi í rauninni enga skírskotun til menningarlegs eða listræns íslensks efnis.

Við þekkjum að á RÚV eru til dæmis sýndir ýmsir bandarískir þættir sem njóta mikilla vinsælda og kosta væntanlega mikið. Ég skil vel athugasemdirnar frá þeim sem eru að reyna að keppa á þessum markaði, sérstaklega í ljósi þess að ekki er gerð tilraun með nægilega skýrum hætti til þess að sporna gegn því að Ríkisútvarpið sé jafnöflugt á auglýsingamarkaði og raun ber vitni.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson fór ítarlega yfir að gert er ráð fyrir að frumvarpið kosti tæpar 900 millj. kr., þ.e. að 900 millj. kr. viðbót komi inn í rekstur RÚV á ári. Það er gagnrýnt mjög harðlega af hálfu fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins, að ekki sé gerð tilraun til þess að afmarka fjárhagslega þetta almannaþjónustuhlutverk RÚV. Við þekkjum að helstu sjónarmið og rökstuðningur fyrir því að RÚV sé til er sá að stofnunin hafi sérstakt almannaþjónustuhlutverk og ég get staðfest að stundum þarf að grípa til þess þegar hér verða náttúruhamfarir, jarðskjálftar, eldgos og svo framvegis og mikilvægt er að það sé til staðar. Hins vegar verður að vera alveg ljóst að RÚV og tilvist þess ýti ekki öðrum út af markaðinum og geri einkaaðilum ókleift að starfa í samkeppni við ríkisrekna fjölmiðilinn. Þessvegna þarf að vanda til verka og fyrst menn eru hér að leggja til heildarlög um Ríkisútvarpið þá tel ég rétt að taka meira mark á þessum sjónarmiðum og ég hefði viljað sjá frekari breytingar í þá átt.

Það veldur mér ákveðnum vonbrigðum að þeir þingmenn sem leggja fram þetta mál hafi ekki farið í andsvör við hv. þm. Ásbjörn Óttarsson til að reyna að upplýsa okkur betur um það hvers vegna menn telja nauðsynlegt, nú á þessum tímum þegar við horfum upp á niðurskurð í ríkisrekstri, að bæta 900 millj. kr. inn í fjárheimildir þessa ríkisrekna fjölmiðils.

Ég átti orðastað við hæstv. innanríkisráðherra fyrir um það bil klukkustund um löggæslumál. Sá ágæti ráðherra hélt því fram að við sjálfstæðismenn værum ekki samkvæm sjálfum okkur þegar við töluðum í einu orðinu um að bæta þyrfti í hvað varðar löggæsluna, það væri búið að skera of mikið niður á því sviði, en gætum ekki bent á neitt annað sem út ætti að fara. Hér er dæmi um eitthvað sem ég tel að eigi ekki að gera, ég tel að ekki eigi að auka fjárframlög til Ríkisútvarpsins um 900 millj. kr. (Gripið fram í.) Annað sem hægt væri að tala um er Evrópusambandsaðlögunarferlið sem við erum á kafi í og kostar mikla fjármuni.

Í umsögn fjárlagaskrifstofunnar segir jafnframt að ekki komi fram nægjanlegar upplýsingar í rökstuðningi ráðuneytisins fyrir því að þessar breytingar séu nauðsynlegar, hvers vegna hækka þurfi framlagið svona mikið. Ég verð að segja, herra forseti, að ég þarf að fá upplýsingar um þetta. Umsögn fjárlagaskrifstofunnar er mjög athyglisverð, af því að hér segir, með leyfi forseta:

„Jafnvel þótt fyrirtækið þyrfti á engan hátt að laga starfsemi sína að breyttu hlutverki og rekstrarskilyrðum vegna ákvæða frumvarpsins, heldur ætti að mæta því að fullu með auknum ríkisframlögum, verður ekki annað séð en að hækkun framlagsins yrði gróflega áætluð helmingi meiri.“

Síðan er það gagnrýnt og sett í samhengi við að ríkisstjórnin hafi sett fram stefnumörkun í ríkisfjármálum um að ríkissjóður verði orðinn hallalaus árið 2014. Hér er komið fram verulegt frávik frá settum markmiðum og því tel ég að það sé rökstutt sérstaklega hvers vegna menn leggja þetta til hér, ekki síst fyrst að fjárlagaskrifstofan gerir þessar harðorðu athugasemdir við málatilbúnað menntamálaráðuneytisins.

Herra forseti. Ég tel að Ríkisútvarpið og hlutverk þess eigi að vera í stöðugri endurskoðun. Ég tel að ríkisrekstur á þessum fjölmiðli okkar eigi ekki að verða til þess að frjáls samkeppni á markaðinum leggist af eða laskist, líkt og fullyrt er í þeim umsögnum sem hafa borist frá einkaaðilum á þessum markaði. Fram kemur í nýlegri landsfundarsamþykkt okkar sjálfstæðismanna að landsfundurinn telur að endurskilgreina beri þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil og ég er sammála því. Ég tel að við eigum að nota tækifærið, fyrst að verið er að leggja fram þetta mál og fyrst að þessi umræða á sér stað, og kalla eftir því að þingmenn allra flokka setjist saman yfir það hver raunveruleg þörf samfélagsins sé fyrir ríkisfjölmiðil.

Telja allir hér inni að hægt sé að rökstyðja á grundvelli samfélagshagsmuna að Rás 2 sé til staðar? Ég skil rökin varðandi almannahættuna og þegar upp koma tilvik eins og ég taldi upp áðan varðandi náttúruvá og svo framvegis, að þá þurfi að vera til eitthvert apparat sem hægt er að nýta til þess að boða menn og koma á framfæri tilkynningum og svo framvegis, þegar svo ber undir. En hvers vegna þarf Rás 2 að vera ríkisrekin? Ég hef enn ekki alveg áttað mig á því. Jafnframt kemur fram í landsfundarályktun okkar að þegar þessi endurskoðun og endurskilgreining á þörf samfélagsins fyrir ríkisfjölmiðil hafi farið fram sé rétt að endurskoða tilvist og hlutverk Ríkisútvarpsins ef ástæða þykir til. Ég held að við þurfum að fara í þessa vinnu, ég held að það sé það besta sem við getum gert og ég sakna þess svolítið að við höfum ekki tekið meiri umræðu um þetta hér í þinginu á þverpólitískum grunni. Sjálfsagt á sú umræða að fara fram í dag, en það eru ekki margir hér í salnum sem ætla sér að blanda sér í umræðuna.

Herra forseti. Ég var ekki búin að fjalla um 3. gr. þar sem reynt er að skilgreina hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins og þar sem fjallað er um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Þar er fyrst talið upp að markmið fjölmiðlaþjónustu RÚV sé:

„Að mæta lýðræðislegum, menningarlegum og samfélagslegum þörfum í íslensku samfélagi með miðlun texta, hljóðs og mynda.“

Gott og vel, maður getur svo sem skilið það. Síðan kemur fram í öðru lagi að:

„Ríkisútvarpið skal framleiða og miðla vönduðu og fjölbreyttu efni með mismunandi tæknilegum aðferðum til allra landsmanna óháð búsetu. Ríkisútvarpið skal gera ráðstafanir til að hægt sé að flytja fréttir og framleiða efni utan höfuðborgarsvæðisins.“

Hér er sem sagt lögð áhersla á bæði fjölbreytt og vandað efni, sem og fréttaflutning alls staðar að af landinu. Í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur lagt niður starfsstöðvar sínar hringinn í kringum landið á kjörtímabilinu spyr maður sig hvort það sé álit bæði ráðherra og menntamálanefndar, sem er í rauninni að taka undir, eða ég skil það þannig, að of langt hafi verið gengið í þessum efnum og vill hverfa til baka, að RÚV hafi verið á rangri leið á kjörtímabilinu með því að leggja þessar starfsstöðvar niður.

Herra forseti. Við upplifum mikla breytingatíma og auðvitað er eðlilegt að við tökum starfsemi Ríkisútvarpsins til endurskoðunar. Ég hélt að við værum meðal annars að gera það til þess að reyna að ná fram meiri hagræðingu og ná betur utan um almannahlutverkið. Ég hélt að við mundum fá út úr þessu öllu saman minni umgjörð, minni heimildir og lægri fjárframlög, en það er ekki alveg þannig. Ég verð að spyrja þá stjórnarliða sem hér eru og ætla sér væntanlega að taka til máls í lok umræðunnar: Hvers vegna notuðu menn ekki tækifærið við þessa endurskoðun á lögunum og þá endurskoðun um starfsemi Ríkisútvarpsins sem hér hefur væntanlega farið fram í undirbúningi málsins til þess að draga saman seglin, til þess að hagræða og til þess að stuðla að því að lækka útgjöld ríkissjóðs?

Það sem er veigamest í frumvarpinu gagnvart fjármálum þessa opinbera hlutafélags og þá ríkissjóði eru ákveðnar takmarkanir á umsvifum á auglýsingamarkaði, ég tel rétt að taka það fram svo allrar sanngirni sé gætt, en ég tel einfaldlega að ekki sé nægjanlega langt gengið. Það er meðal annars bannað að brjóta upp einstaka dagskrárliði, gera hlé á útsendingu og setja inn auglýsingar, og jafnframt er bannað í tilteknum atriðum að vera með kostun. Örlítil breyting er gerð á því í breytingartillögum nefndarinnar, hér er nefndin að leggja til að eftirfarandi texti komi inn:

„Ríkisútvarpinu er óheimilt að afla tekna með kostun dagskrárefnis en þó má víkja frá því í eftirfarandi tilvikum:

a. við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti,

b. við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá.“

Herra forseti. Þá spyr maður sig hvort umræðan í nefndinni hafi náð nægjanlega langt, ef verið er að leggja til þessa breytingu á 7. gr. frumvarpsins. Tóku menn það til alvarlegrar skoðunar inni í nefndinni að banna þetta alfarið? Átti sú umræða sér stað? Fóru menn í það að rannsaka það og fullvinna skoðun á því hvaða afleiðingar þetta mundi hafa fyrir fjárhag stofnunarinnar og eins hvaða áhrif þetta mundi hafa á möguleika annarra stöðva til þess að taka að sér að sýna svona íburðarmikla dagskrárliði, eins og þetta er kallað hérna í textanum? Ég held að menn þurfi að skoða málin betur því ég tel að menn hefðu átt að ganga lengra.

Síðan er ákvæði í 9. gr. sem er vert að ræða og fjallar um stjórn Ríkisútvarpsins. Í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar get ég ekki séð að menn hafi lagt til nokkrar breytingar á stjórn Ríkisútvarpsins, miðað við hvernig þær koma frá ráðuneytinu. Miðað við frumvarpið eiga að sitja sjö menn í stjórn, jafnmargir til vara, og er hún kosin til tveggja ára í senn. Valnefnd tilnefnir fimm fulltrúa í stjórn og fimm til vara en það er ráðherrann sem skipar í þessa valnefnd. Ráðherra skipar fimm manns og jafnmarga til vara í valnefnd til tveggja ára í senn. Síðan er það allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis sem tilnefnir þrjá fulltrúa og jafnmarga til vara.

Herra forseti. Er einhver hefð fyrir því að nefndir Alþingis séu með tilnefningarrétt inn í stjórnir opinberra hlutafélaga eða hér fyrrum daga inn í stjórnir ríkisfyrirtækja? Er það eitthvað sem tíðkast? Ég kannast ekki við það. Við kjósum stundum fulltrúa inn í ýmsar stjórnir hér í þinginu en ég kannast ekki við að nefndir Alþingis almennt séu með slíkt vald og kalla eftir skýringu á því hvers vegna þetta kemur inn með þessum hætti. Af hverju er það ekki þingið sjálft sem hefur þetta tilnefningarvald? Kannski er svörin við þessu öllu að finna í greinargerðinni, en ég kannast ekki við að nein umræða hafi farið fram um að breyta eigi þessum tilnefningarrétti almennt. Ég get heldur ekki séð rökstuðning í greinargerðinni fyrir breytingum á þeim hefðum sem hingað til hafa gilt varðandi tilnefningar og skipanir frá Alþingi inn í stjórnir.

Nefndir Alþingis hafa aðallega það hlutverk að fjalla um ýmis málefni en ekki menn og það er almenna reglan. Er þetta einhver ný regla, herra forseti, er þetta það sem koma skal almennt varðandi tilnefningar í tilvonandi löggjöf á öðrum sviðum?

Ég veit það ekki, herra forseti, mér finnst ekki fara vel á þessari breytingu.

Svo ég klári að fara yfir hverjir sitja í stjórn þá tilnefnir Bandalag íslenskra listamanna einn fulltrúa og annan til vara og Samstarfsnefnd háskólastigsins tilnefnir einn fulltrúa og annan til vara. Síðan er það valnefndin sem tilnefnir fimm fulltrúa í stjórn og fimm til vara. Hér kemur fram að hafa skuli:

„… hagsmuni Ríkisútvarpsins að leiðarljósi og að meðal stjórnarmanna sé m.a. þekking og reynsla af fjölmiðlun, menningarmálum, nýjum miðlum á hverjum tíma, rekstri og stjórnun fyrirtækja. Þá skal gæta að jafnrétti kynjanna …“

Það er gott að verið sé að reyna að gera ráð fyrir því að þarna inn komi aðilar með þekkingu á öllum þessum sviðum, en hvernig verður þessi valnefnd skipuð? Hverjir eiga að sitja í henni? Miðað við frumvarpið þá velur ráðherrann í þessa nefnd, hvers vegna er það ekki bara ráðherrann sjálfur sem velur og tilnefnir þessa fimm aðila? Er það ekki hreinna og beinna en að reyna að búa til einhverja valnefnd, (Forseti hringir.) væntanlega í þeim tilgangi að reyna að láta líta þannig út að ráðherrann sé ekki með puttana í þessu sjálfur? (Forseti hringir.)