141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[17:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma inn á í þessari ræðu. Hér liggur fyrir frumvarp sem hefur að sönnu komið fyrir þingið áður, en fékk ekki mikla umræðu í þingsal þótt það hafi örugglega fengið ágæta yfirferð í nefndinni á síðasta þingi. Ég hef ekki fyrr í þessari umræðu tjáð mig um frumvarpið svo neinu nemi. Tilgangur þess virðist tvíþættur. Annars vegar er um það að ræða að verið er að koma til móts við evrópskar tilskipanir og hins vegar er að einhverju leyti, a.m.k. á yfirborðinu, verið að bregðast við athugasemdum sem hafa komið fram um hversu víðfeðm starfsemi Ríkisútvarpsins er eða getur verið í ljósi núgildandi laga.

Þegar ég les þetta velti ég mjög fyrir mér hvort frumvarpið nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Ég velti til dæmis fyrir mér þegar ég les þau fjölmörgu atriði sem felld eru undir hlutverk og skyldur Ríkisútvarpsins hvort þar sé í raun og veru skýrður nokkur skapaður hlutur miðað við það sem nú er í lögum, hvort við stöndum ekki einfaldlega frammi fyrir því að verði frumvarpið samþykkt verði jafnóljóst og verið hefur til þessa hvað flokkast undir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu sem er lykilhugtakið, má segja, í sambandi við skilgreiningu á verkefnum Ríkisútvarpsins.

Ég horfi á 3. gr. auðvitað sérstaklega í því sambandi og þá löngu lista sem þar er að finna um öll þau fjöldamörgu atriði sem teljast til fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ég er, eins og alveg örugglega flestir þingmenn, sammála mjög mörgu þarna. Ég tel að margt sem þarna er að finna geti vel flokkast undir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ég sé hins vegar í hendi mér, og held að það geri þingmenn almennt, að harla fátt fellur ekki undir fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu miðað við þessa upptalningu.

Hér er fjallað um að fjölmiðlaþjónustan hafi það að markmiði að gæta lýðræðislegra, menningarlegra og samfélagslegra þarfa með miðlun texta, hljóðs og mynda. Síðan er upptalning á mörgum atriðum, talað um fréttir, fréttaskýringar, fræðsluefni, menningarefni, listaefni, íþróttaefni o.s.frv. Svo er á öðrum stað talað um að miðla afþreyingarefni og menningarefni við hæfi fólks á öllum aldri. Erlent efni skal vera frá mismunandi menningarheimum.

Þetta eru ekkert óskaplega skýr skil, þetta er ekkert óskaplega skarpt. Þetta takmarkar ekki starfsemi Ríkisútvarpsins mjög mikið ef menn eru að hugsa um það. Þetta setur starfsemi Ríkisútvarpsins, efnisvali og öðru slíku ekki miklar skorður.

Ég velti fyrir mér hvort það sé í sjálfu sér einhver ávinningur af því að samþykkja lagatexta upp á tvær blaðsíður sem felur í sér langa upptalningu á verkefnum af þessu tagi ef við sjáum þegar upp er staðið einfaldlega fram á það að upptalningin er svo víðtæk að hún getur náð til nánast alls undir sólinni.

Ég velti líka fyrir mér ákvæðinu sem kemur þar í kjölfarið, 4. gr. sem fjallar um dótturfélög. Ég fæ ekki betur séð en að heimild Ríkisútvarpsins til að stofna dótturfélög sem fást við svo til hvað sem er sé bara býsna opin miðað við þessa frumvarpsgrein. Ég sé ekki betur en að hægt sé að gera afskaplega margt á þeim grundvelli sem þarna er að finna. Þegar þetta tvennt er skoðað, annars vegar markmið Ríkisútvarpsins, tilgangur og skyldur miðað við 3. gr., og hins vegar heimildir til að fara út í aðra starfsemi í formi dótturfélaga, virðist Ríkisútvarpið svo til algjörlega frjálst að því að velja þá starfsemi sem það kýs til þess að beina kröftum sínum að. Það má auðvitað lesa út að það er hægt að gera til þess vissar kröfur en það hefur út af fyrir sig verið hægt að gera á grundvelli gildandi laga. Það er nú þegar öryggistæki, vettvangur fréttamiðlunar og menningarlegur fjölmiðill, það eru ákvæði í núgildandi lögum sem kveða á um allt slíkt. Mér finnst verið að fara í afskaplega mikla lagasmíð og mikil textaskrif án þess að það breyti endilega svo miklu um þá stöðu sem er uppi í dag.

Ég velti fyrir mér, spyr enn og nú hv. framsögumann málsins sem hér er staddur, hv. þm. Skúla Helgason: Að hvaða leyti telur hann að frumvarpið setji starfsemi Ríkisútvarpsins skorður? Er á einhvern hátt verið að því? Hvað er það sem Ríkisútvarpið hefur verið að gera eða gæti verið að fara að gera sem það getur ekki gert nái þetta frumvarp fram að ganga? Er eitthvað í frumvarpinu sem þrengir að starfsemi Ríkisútvarpsins eða setur því skorður miðað við það fyrirkomulag sem við þekkjum í dag? Er ekki einfaldlega um það að ræða að allt sem í dag er talið á verksviði Ríkisútvarpsins verður áfram á verksviði Ríkisútvarpsins? Því til viðbótar getur Ríkisútvarpið stofnað dótturfélag um svo sem hvað sem er.

Ég hef ekki átt sæti í allsherjar- og menntamálanefnd sem hefur fjallað um þetta, en af gögnum málsins, frumvarpinu, greinargerð og nefndaráliti, get ég ekki séð að þarna sé um neitt annað að ræða en að verið sé að segja að Ríkisútvarpið geti gert nokkurn veginn það sem það er að gera á grundvelli gildandi laga með aðeins meiri orðaflaumi, fleiri ákvæðum, fleiri málsgreinum og greinum. Ef það ætlar að gera eitthvað til viðbótar því sem það er að gera í dag verður það að gjöra svo vel að stofna dótturfélag um það, en það eru engin takmörk á því um hvað dótturfélagið getur snúist. Það eru engin takmörk fyrir því eftir því sem ég fæ best séð en auðvitað kann að vera að mér sjáist yfir eitthvað í þessu sambandi.

Ég velti líka fyrir mér stjórnskipun Ríkisútvarpsins, bara svo ég nefni annað atriði sem ég skil ekki alveg. Ég verð að játa að í 9. gr. sérstaklega, þar sem fjallað er um stjórnina, finnst mér menn flækja hlutina alveg óskaplega mikið. Ætli það sé jafnflókið í nokkurri stjórn í nokkru opinberu fyrirtæki að koma saman stjórn? Mér finnst þetta alveg óskaplega flókið.

Auðvitað má segja að markmiðin séu jákvæð og góð, að það eigi að stuðla að því með einum eða öðrum hætti að ólíkir straumar og ólík sjónarmið komist að. Auðvitað er markmiðið að þarna eigi að vera breið stjórn sem byggir á faglegum og fræðilegum grundvelli og allt það, en það er verið að fara alveg óskaplega flókna leið til þess. Það er verið að flækja hlutina töluvert mikið.

Það er svolítið í tísku að tilnefna valnefndir til að velja í stöður, embætti eða annað þess háttar. Ég verð að játa að mér finnst ansi mikið í lagt að hafa valnefnd með tiltölulega flókinni samsetningu vegna stjórnarsæta í Ríkisútvarpinu, jafnvel þó að þar sé um að ræða ágæta og mikilvæga stofnun. Mér finnst bara ansi mikið í lagt að fara þessa leið.

Eins og kemur fram í 9. gr. er gert ráð fyrir því að stjórn Ríkisútvarpsins sé þannig skipuð að í fyrsta lagi tilnefni ráðherra einn mann sem kjörinn skuli formaður og einn til vara. Það er ágætt að trúnaðarmaður ráðherra starfi þá á hans ábyrgð sem formaður. Það vekur athygli að valnefnd þarf ekkert að leggja mat á þá sem koma til greina í þá stöðu. Hið sama á við um fulltrúa starfsmannasamtakanna sem einnig er gert ráð fyrir að fari inn í stjórnina án aðkomu valnefndar. Svo er gert ráð fyrir að fimm til viðbótar séu valdir af þessari valnefnd. Þar á skipanin að vera með þeim hætti, eins og hér hefur komið fram, að Bandalag íslenskra listamanna tilnefnir einn og Samstarfsnefnd háskólastigsins annan. Allt í góðu með það, ég hef engar sérstakar athugasemdir við að þessir aðilar tilnefni þarna menn inn. Ég verð hins vegar að játa að mér finnst, eins og hv. síðasta ræðumanni, Unni Brá Konráðsdóttur, mjög sérkennilegt að allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis tilnefni þrjá fulltrúa og þrjá til vara, ekki vegna þess að ég sé eitthvað smeykur í sjálfu sér við aðkomu Alþingis að skipun í stjórnir, en mér finnst mjög sérkennilegt, eins og hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir benti réttilega á, að einni fagnefnd þingsins skuli falið tilnefningarhlutverk í þessu sambandi þegar horft er til þess að nefndir þingsins hafa almennt ekki hlutverki að gegna þegar kemur að skipunum í svona nefndir.

Alþingi kýs fólk í stjórnir og nefndir og fyrir því er löng hefð. Alþingi kýs og þá er það jafnan þannig að hér eru lagðir fram listar sem venjulega eru afgreiddir ágreiningslaust, listar yfir stjórnir stofnana, sjóða og þess háttar. Þess er þá að jafnaði gætt að það sé einhver hlutfallslegur stöðugleiki í því, ef ég mætti nota það orðalag, þannig að áhrif manna á skipanina ráðist að einhverju leyti af hlutföllum í þinginu. (Gripið fram í.) Þetta er gott orð og á ágætlega við um þetta. Það er (Gripið fram í.) leitað leiða til þess að þeir sem kjörnir eru af þinginu endurspegli einhver hlutföll í þinginu og sem betur fer er oftast um það prýðilegt samkomulag og enginn ágreiningur og gengur átakalaust fyrir sig hér.

Hvernig á þetta að vera þegar allsherjar- og menntamálanefnd tilnefnir þrjá fulltrúa? Hvernig sjá menn það fyrir sér? Er það þá meiri hlutinn í allsherjar- og menntamálanefnd sem getur tilnefnt alla þrjá fulltrúana? Gildir einhver hlutfallskosning eða eitthvað þess háttar? Við skulum gefa okkur að það geti verið ágreiningur og þá verða reglurnar að minnsta kosti að vera þannig úr garði gerðar að þær geti tekist á við hann. Reyndar er ekki alveg óþekkt að nefnd á vegum þingsins sé valin með hreinni meirihlutakosningu eins og var með hið svokallaða stjórnlagaráð sem er sennilega eina dæmið í seinni tíð þar sem fjölskipuð nefnd á vegum þingsins er valin þannig að meiri hlutinn kýs alla og minni hlutinn engan. En það er önnur saga.

Í þessu tilviki velti ég fyrir mér og varpa því inn í umræðuna hvort það sé ekki einhver misskilningur að segja að allsherjar- og menntamálanefnd eigi að hafa þetta hlutverk. Er það ekki einhver misskilningur? Á þetta ekki að vera Alþingi? Á ekki Alþingi að kjósa þrjá menn í valnefnd ef það er á annað borð nauðsynlegt að hafa þessa nefnd og hafa þessar flækjur í sambandi við aðdraganda þess að menn taka sæti í stjórn? Ég virði það alveg við hæstv. ráðherra og stjórnarmeirihlutann að vilja stíga varlega til jarðar varðandi stjórn Ríkisútvarpsins og gæta þess að gengið sé þannig frá málum að sem flest sjónarmið komist að o.s.frv. Mér finnst samt fyrirkomulagið sem valið er í 9. gr. allt of flókið miðað við það tilefni sem um er að ræða. Ég vísa bara til 10. gr. og velti hreinlega fyrir mér hvort verkefni stjórnar Ríkisútvarpsins miðað við lögin séu þess eðlis að það sé ástæða til að hafa allar þessar krúsidúllur í sambandi við skipun í stjórnina. En það er önnur saga. Ég hef mikla fyrirvara og efasemdir um þetta.

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að staldra öllu lengur við þessa umræðu. Þegar ég horfi á breytingartillögu meiri hlutans í hv. allsherjar- og menntamálanefnd um framboðskynningu og þess háttar velti ég fyrir mér hvort þar sé hinn ágæti meiri hluti í nefndinni hugsanlega að flækja hlutina dálítið mikið. Er ekki einfaldlega hægt að gera þá almennu kröfu til Ríkisútvarpsins að það gæti jafnræðis í aðdraganda kosninga, hvaða kosningar sem það svo sem eru? Er ekki hægt að gera almennt þá kröfu að jafnræðis sé gætt? Þarf að skrifa þetta út eins og þarna er gert? Vilji menn hafa ríkisútvarp, er þá ekki ástæða til að treysta því til að framfylgja þessu? Þarf að skrifa inn svona texta? Ekkert af því sem ég rek augun í þarna sjokkerar mig eða veldur mér sérstökum áhyggjum en ég velti fyrir mér hvort verið sé að gera hlutina kannski ívið of flókna.

Þarna eru hins vegar atriði sem ég hef svolitlar áhyggjur af og þau snerta möguleika annarra aðila á fjölmiðlamarkaði til að reka sína starfsemi. Það er einmitt þess vegna sem ég tek hér til umræðu þau ákvæði sem varða hlutverk Ríkisútvarpsins, þ.e. það svið sem það getur starfað á. Ríkisútvarpið hefur ótvírætt mikið forskot á aðra aðila varðandi fjölmiðlastarfsemi vegna tekjumöguleika sem ég ræði ekki í þessari lotu en verð að játa að það fyrirkomulag sem hér er gert ráð fyrir, og hefur raunar verið, er þess eðlis að mér finnst full ástæða til að efast um það. Látum það vera. Meðan Ríkisútvarpið hefur tekjur sínar að stórum hluta af sköttum með þeim hætti sem nú er gert ráð fyrir er augljóst að Ríkisútvarpið hefur mikið forskot á aðra aðila á fjölmiðlamarkaði. Í ljósi þess forskots er ekki óeðlilegt að gerð sé sú krafa til Ríkisútvarpsins að það beini kröftum sínum fyrst og fremst að þeim verkefnum sem aðrir sinna ekki, að það standi sig í fréttaflutningi, á sviði menningarmála og fræðsluefnis þar sem markaðsöflin geta kannski ekki haldið uppi nægilega öflugri starfsemi.

Þegar við beitum skatttekjum og ríkisframlagi til að halda uppi starfsemi á sviði öryggismála, fræðslumála, fréttamála og menningarmála finnst mér mikið álitamál að hve miklu leyti ríkisútvarp á yfir höfuð að starfa og keppa á afþreyingarmarkaðnum þar sem leikararnir á sviðinu eru fleiri, samkeppnin er meiri og möguleikar annarra skerðast þar með. Mér finnst það mikið álitamál og geri út af fyrir sig (Forseti hringir.) athugasemdir við það.