141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni og ég legg áherslu á það að þetta er ekki bannfrumvarp. Þetta er ekki frumvarp sem bannar einhverjar tilteknar tegundir af dagskrárefni í Ríkisútvarpinu. Það er ekki tilgangur þess, tilgangur þess er ekki að segja að Ríkisútvarpið megi ekki senda út tiltekna tegund af efni, ekki senda út þætti frá tilteknum málsvæðum eða afþreyingarefni sé bannað eða eitthvað slíkt. Tilgangurinn er fyrst og fremst að treysta sjálfstæði Ríkisútvarpsins, bæði fjárhagslegt sjálfstæði í gegnum útvarpsgjaldið, í gegnum það verði stöðugleiki í fjárveitingum til stofnunarinnar, og að tryggja hið faglega sjálfstæði með 9. gr. sem fjallar um stjórnina. Ég held að það sé markmið sem skiptir miklu máli. Ég held að það skipti miklu máli að Ríkisútvarpið hafi þetta sjálfstæði og það endurspeglist í þeim mikla stuðningi sem er við þetta mál í nefndinni þar sem allir flokkar nema einn styðja það og vilja framgang þess í þinginu.

Hlutverk Ríkisútvarpsins hefur alltaf verið mikilvægt, en ég er þeirrar skoðunar að það hafi kannski aldrei verið mikilvægara en einmitt nú þegar samfélagið er allt í ákveðinni endurskoðun eftir hrunið og mikilvægt er að til sé fjölmiðill sem nýtur almenns trausts þjóðarinnar varðandi fréttaflutning og umfjöllun um samfélagsmálefni. Það gerir Ríkisútvarpið sannarlega. Ef svo væri ekki væri ef til vill tilefni til þess að fara með róttækum hætti og skera upp þessa starfsemi, en það er ljóst að þjóðin metur þá starfsemi sem þarna fer fram og enginn vilji er hjá meiri hlutanum að breyta henni að neinu marki.