141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:33]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Nú er frumvarpið komið úr nefnd en ég ræddi það nokkuð þegar það var lagt fram. Ég spurði þá sérstaklega um það, virðulegi forseti, af hverju hlutverk Ríkisútvarpsins er ekki skilgreint betur því að — forseti, á ég ekki að fá lengri ræðutíma? Ég fæ bara 20 mínútur, það er lítið fyrir þetta stóra mál. — Í frumvarpinu finnst mér ekki vera gerð tilraun til þess sem ég tel vera algjörlega nauðsynlegt að gera þegar við erum að tala um ríkisfjölmiðil, þ.e. að skilgreina hvað hann á að gera. Ég get ekki séð í þeim breytingartillögum sem hér eru að neitt hafi verið reynt að gera til að koma til móts við þau sjónarmið.

Í II. kafla frumvarpsins um hlutverk og skyldur, í 3. tölulið 3. gr., segir:

„Fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.“

Virðulegi forseti. Þetta er „hið minnsta“. Nokkrir hv. þingmenn eru í salnum og mér þætti vænt um ef þeir gætu bent mér á hverju væri hægt að bæta þarna við, því að þetta er hið minnsta. En mér sýnist þetta vera nokkuð góð upptalning á öllu því sem er hægt að hafa í fjölmiðlum. Nú getur vel verið að ég sé að missa af einhverju, en það segir hér:

„… fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni.“

Kannski veit hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hverju er hægt að bæta við. Þetta er samt sem áður ekki fullnægjandi upptalning í frumvarpinu því að tekið er fram að þetta sé hið minnsta. Það verður að minnsta kosti að vera þetta en síðan geta menn bætt einhverju við. Svo segir í 4. tölulið:

„Ríkisútvarpið skal dreifa efni til alls landsins og næstu miða með að minnsta kosti tveimur hljóðvarpsdagskrám og einni sjónvarpsdagskrá árið um kring.“

Enn erum við á þeim stað að þetta á að vera „að minnsta kosti“. Við gætum auðvitað verið með 20 hljóðvarpsdagskrár og 50 sjónvarpsdagskrár ef svo bæri undir og það mundi ekki fara gegn þessum lögum.

Ég skil ekki alveg af hverju verið er að fara í þetta verkefni. Ég ætla að við undirbúning málsins og vinnu nefndarinnar, þar sem kallaðir voru til fjölmargir aðilar, hafi nefndin farið vel yfir málið. En ég skil ekki af hverju við erum ekki komin með neinar skilgreiningar á því hvað Ríkisútvarpið á að gera, hvað ríkið á að gera á fjölmiðlamarkaði.

Er ekki hreinlegra að segja: Ríkisútvarpið á að gera nákvæmlega það sem stjórnendum þess dettur í hug þá og þegar þeir fá hugmyndir um að vera með dagskrárefni? Einhver kynni að segja: Er það ekki allt í lagi? Er ekki bara sjálfsagt að Ríkisútvarpið sé alls staðar þar sem hugurinn girnist, ef þannig má að orði komast? Ég held að það sé mjög óskynsamlegt, virðulegi forseti. Ég vek athygli á því ef marka má umsögn fjárlagaskrifstofunnar þá mun frumvarpið, ef það nær fram að ganga, auka útgjöld ríkissjóðs um 700 milljónir á ári. [Sjá leiðréttingu þingmanns kl. 20.58.]

Ég hef farið í gegnum breytingartillögurnar og blaðað í gegnum nefndarálit meiri hlutans. Ég sé ekki að komið sé til móts við það hvernig menn ætla að ná þessu því að þetta er þvert á stefnu núverandi ríkisstjórnar og þá stefnu sem ég tel nú vera sátt um, að ná jafnvægi í ríkisfjármálum.

Ég nefndi líka í ræðu minni þegar farið var yfir málið að mér fyndist mikilvægt — og ég skal alveg viðurkenna að erfitt er að gera það, vegna þess að þetta er viðkvæmt, við erum fámenn þjóð, við erum hér 63 þingmenn, fjölmiðlafólkið í landinu er heldur ekki fjölmennt, þetta er ekki fjölmennasta stéttin. Og ég held að fjölmiðlamenn og fréttamenn eigi það sameiginlegt með stjórnmálamönnum að vera frekar viðkvæmir fyrir gagnrýni. Ég held að ég taki ekki of djúpt í árinni þegar ég segi að stjórnendur Ríkisútvarpsins séu sömuleiðis mjög viðkvæmir fyrir gagnrýni og þarf ekki annað en að vitna í viðtöl við þá stjórnendur og facebook-færslur. Aðgát skal höfð í nærveru sálar.

Virðulegi forseti. Í 3. gr. í II. kafla segir einnig:

„Ríkisútvarpið skal sinna lýðræðislegu hlutverki sínu m.a. með því að: Veita víðtæka, áreiðanlega, almenna og hlutlæga frétta- og fréttaskýringarþjónustu um innlend og erlend málefni líðandi stundar.“

Það er gömul saga og ný, virðulegi forseti, að menn hafa tekist á um þetta og ef einhver heldur að þetta sé nýtt af nálinni, þ.e. að stjórnmálamenn telji að það markmið hafi náð fram, þá geta menn flett gömlum þingræðum og farið sömuleiðis í gegnum fjölmiðlaumfjöllun, ég hef nú ekki gert það, ég hef aðeins blaðað í gömlum þingræðum þar sem menn eru að taka svipaða umræðu. Og svo sannarlega er þetta ekki einfalt mál. Það er ekki hægt að ná fullkomnun í þessu og síðan er það þannig að fólk hefur misjafnar skoðanir á því hvað er hlutlægt í fréttum. Ég er einn af þeim sem hefur fundist frétta- og fréttaskýringarþjónusta Ríkisútvarpsins og jafnvel fleiri fjölmiðla vera nokkuð einsleit og hafa þau einkenni að það prýðisgóða starfsfólk sem þar vinnur, og vill flestallt örugglega gera hlutina eins vel og mögulegt er, sé svolítið einsleitur hópur. Það er alltaf hættulegt alveg sama hvar það er.

Ég held að það væri jafnvel ekki gott, virðulegi forseti, fyrir lýðræðið í landinu að Sjálfstæðisflokkurinn væri með 63 hv. þingmenn af 63. Ég held að það væri ekki gott. (Gripið fram í.) Það gæti vel verið að okkur fyndist það gott, virðulegi forseti, ef við næðum þeim árangri, en ég held að það væri ekki gott fyrir lýðræðið í landinu. Ég er svo djarfur að reyna að ræða þessa hluti vegna þess að þeir skipta máli og ég reyni að ræða þetta þannig að enginn telji á sig sérstaklega hallað, ég er ekki að ráðast á einhverja einstaklinga, ég er alls ekki að gera það.

Þegar við fjöllum um ríkisfjölmiðil tel ég mjög mikilvægt að við gerum tvennt. Annars vegar að skilgreina hvað ríkisfjölmiðillinn á að gera og hins vegar hvað hann á ekki að gera, og vonandi að sem best sátt náist um það. Ég held að óskynsamlegt sé að hafa það opið. Ég tel sömuleiðis það skipta máli að einkareknir miðlar hafi svigrúm til að starfa á þeim markaði. Ég held að ein af ástæðunum fyrir því hve rekstrarumhverfi fjölmiðla hefur verið erfitt, hve fjölmiðlum hefur gengið illa að reka sig og hversu mikil samþjöppun hefur orðið á einkamarkaði sé til komin vegna þess að við stjórnmálamenn höfum ekki sinnt því hlutverki að ná sátt um hvað Ríkisútvarpið á að gera, hvar það á að starfa og hvar við teljum að frjáls félagasamtök og einkaframtakið geti sinnt þeirri þjónustu.

Við erum því komin í ákveðinn vítahring sem felst í því að þegar rætt er um þessi mál er svarið ávallt það þegar viðkomandi aðili fer á þá braut að benda á hið augljósa að mínu áliti, þ.e. að skynsamlegt sé að skilgreina hvar Ríkisútvarpið á að gera og hvað ekki, þá er sagt að viðkomandi muni færa auglýsingatekjur eða eitthvað slíkt yfir til stóra aðilans á einkamarkaði. Það er að vísu ekki sanngjarnt. Það hefur aldrei komið betur í ljós en núna, við erum að sjá svo miklar breytingar í fjölmiðlun, við erum að sjá að bæði myndefni, blöð og annað slíkt er að renna saman með ógnarhraða og er tilkoma alheimsnetsins auðvitað grunnurinn í því. Og sömuleiðis er ódýrara og einfaldara að framleiða myndefni en áður. Því má alveg færa rök fyrir því að þegar maður notar vefmiðla eins og mbl.is eða aðra í öðrum löndum, þá sé það eitthvað sem renni mjög saman, þ.e. skrifað efni og síðan myndefni. Þá er ég ekki að tala um ljósmyndir heldur myndbönd.

Virðulegi forseti. Síðast þegar ég ræddi þetta var ég með útskrift úr Viðskiptablaðinu frá 4. apríl 2012 sem hafði tekið út eina fréttaskýringaþáttinn í Ríkisútvarpinu um stjórnmál. Það er bara einn. Þeir tóku þetta út í Speglinum, hlutfallið á milli stjórnmálaflokkanna frá síðustu kosningum og niðurstaðan var sú að stjórnarandstaðan var með 25% af viðmælendum en stjórnin 75%. Ef við tökum þetta eftir flokkum — þetta var sett fram myndrænt, aðgangur stjórnmálaflokkanna að Speglinum, þá höfðu viðtölin skipst þannig að Framsóknarflokkurinn var 18 sinnum, Sjálfstæðisflokkurinn: 23 sinnum kom viðmælandi frá honum, Samfylkingin: hjá henni sjáum við stökk upp í 60 sinnum, en Vinstri grænir sem hafa nú kannski ekki verið neitt sérstaklega stór flokkur, eiginlega ekki verið það, hann var 82 sinnum. Hann var fjórum sinnum oftar en Sjálfstæðisflokkurinn. 44% af viðmælendum stjórnmálaflokkanna voru frá Vinstri grænum. Hreyfingin var síðan bara fjórum sinnum.

Virðulegi forseti. Ég fullyrði að ef það hefði verið ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem hefði verið í því embætti og hlutföllin hefðu verið með þeim hætti, við getum sagt Sjálfstæðisflokknum í vil, þá held ég að það hefði nú heyrst mjög mikið, virðulegi forseti. Það hefði orðið mikill úlfaþytur í fjölmiðlum.

Viðskiptablaðið tekur fleira til, líka þennan eina pólitíska þátt í sjónvarpinu, sem er Silfur Egils og tekur þar viðmælendur. Ég ætla ekki að lesa það allt saman upp en ég held að óhætt sé að segja að þar sé ákveðin slagsíða. En við gerum ekkert í því sem liðið er, þetta er búið. Spurningin er: Er eitthvað hægt að gera til að sjá til þess að hlutirnir verði, eins og hér segir, áreiðanlegir, almennir, hlutlægir frétta- og fréttaskýringarþjónustuþættir? Getum við komið hlutum þannig fyrir að ef menn telja að á sig sé hallað sé hægt að hafa eitthvert kerfi á því að koma athugasemdum áleiðis? Mér sýnist á nefndarálitum að gert sé ráð fyrir að nota Fjölmiðlastofu í slíkum málum. Ég veit ekki hvort það er gott fyrirkomulag.

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi sakna ég þess að ekki er reynt að skilgreina hvað Ríkisútvarpið á að gera, það er númer eitt, og hver sé almenningsþjónusta Ríkisútvarpsins. Það tengist, má segja í öðru lagi, hvar ætlar Ríkisútvarpið ekki að vera og þá er ég að vísa í auglýsingamálin o.s.frv. Ég sé að í breytingunum er gert ráð fyrir að kostun sé tekin út. Ég verð að viðurkenna — ég hlustaði á orðaskipti hv. þm. Skúla Helgasonar og hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur — að mér fannst svona undanþáguákvæði varðandi kostun dagskrárefnisins taka yfir kannski flest það sem manni dettur í hug þegar kemur að kostun dagskrárliða, en hér segir í 7. gr. „við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða“. Mér fannst hv. þm. Skúli Helgason, sem hefur verið við umræðuna og svarað fyrirspurnum skilmerkilega og geri ég svo sannarlega ekki athugasemdir við það, þvert á móti, en mér fannst svona í upptalningunni hjá hv. þingmanni að það væri nú ekki mjög mikið eftir. Ég er ekki að segja að það sé ekki neitt eftir en ef kostun hefur verið í Ríkisútvarpinu á minni hlutum fram til þessa þá eru þau væntanlega að ganga mjög langt í þessum kostunarmálum.

Virðulegi forseti. Síðan er hitt, kannski getum við ekki tekið þá umræðu, ég hafði hins vegar ætlað að gott væri ef við gætum talað málefnalega um það hvernig best er að koma málum þannig fyrir að sem best sátt sé um frétta- og fréttaskýringaþætti. Ég verð að viðurkenna að hvarflað hefur að mér hvort ekki væri skynsamlegt að hafa þá fleiri en færri og hafa þá kannski aðeins fjölbreyttari stjórnendur en nú eru. Hvort það gæti ekki verið góð lausn, ég velti því aðeins upp.

Að síðustu, og það er þá í fjórða lagi, hvernig ætla menn að ná 700 milljónum á ári? Sem er, ef marka má fjárlagaskrifstofuna, aukinn kostnaður vegna þessa frumvarps. Það eru ekki litlir peningar, virðulegi forseti. Þeir eru náttúrlega aldrei litlir, 700 milljónir er mikið á hverju einasta ári, en þeir eru enn meiri svona hlutfallslega séð af því að við eigum þá ekki og þurfum að taka lán fyrir þeim. Það væri því ágætt, virðulegi forseti, ef við fengjum einhverjar skýringar á þessu. Ef ég hef misskilið þetta, virðulegi forseti, ég hef nú bara fylgst með umræðunni og lesið það sem fyrir okkur er lagt, þá væri gott að fá upplýsingar um þessa þætti.