141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[18:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður spurði hvernig á því stæði að honum fyndist vera halli á fréttaflutningi RÚV. Við því er bara eitt svar og það er þekkt, það er einn eigandi og eigandinn er ríkið. Eigandinn er ríkisstjórnin, hún fer með vald ríkisins, og þó að starfsfólkið sé allt af vilja gert til þess að gæta hlutleysis — heiður fréttamanna er að veði í því — þá gildir nákvæmlega það sama með þennan fjölmiðil og aðra sem eru í eigu eins aðila að starfsfólkið veit hver borgar saltið í grautinn hjá því, hvort sem um er að ræða fjölmiðil í einkaeigu þar sem eigandinn hefur um það að segja hvort sett sé fjármagn í þetta eða hitt í starfseminni eða ríkisvaldið sem ákveður hvort fjármagn verði sett í hitt og þetta í starfseminni, hvort eitthvað verði aukið, hvort farið verði í nýja starfsemi o.s.frv., þá vita þessir starfsmenn að það er eigandinn sem ræður.

Þetta er svarið og þess vegna stóðum við í fjölmiðlalögunum á sínum tíma, þ.e. til að finna út úr þessu og reyna að takmarka eignarhaldið. Reyndar var Ríkisútvarpið undanskilið, merkilegt nokk, þar sem er bara einn eigandi og hann má ekki einu sinni selja samkvæmt því frumvarpi sem við ræðum hér.

Hv. þingmaður spurði hvað væri til ráða. Það er bara eitt: Að selja Ríkisútvarpið. Það er mjög einfalt.