141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[19:42]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Að mínu viti er óhætt að segja að Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu, eins og segir í frumvarpinu, sé ein af mikilvægustu stofnunum samfélagsins. Það er dýrmætt fyrir okkur öll, fyrir þjóðina, að slík stofnun sé til og að hún sinni einmitt þeim hlutverkum sem getið er um í 3. gr. frumvarpsins.

Ég fagna því sérstaklega að í 3. gr. er farið yfir hlutverkin, bæði sem fjölmiðils í almannaþágu, einnig skilgreint sérstaklega hvert hið lýðræðislega hlutverk Ríkisútvarpsins er sem og hið menningarlega hlutverk og með hvaða hætti Ríkisútvarpið skuli starfa. Allt eru þetta mjög mikilvægir þættir sem meiri hluti nefndarinnar hefur komið inn á í nefndaráliti sínu.

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt hefur meiri hluti nefndarinnar gert breytingartillögu við 7. tölulið 2. mgr. þar sem fjallað er um kynningu á stjórnmálasamtökum. Þarna er verið að ræða allítarlega, og náttúrlega um leið með mikilvægum hætti, hvernig Ríkisútvarpið skuli standa að slíkum kynningum. Það er algjört grundvallaratriði að Ríkisútvarpið geti í krafti lagastoðar tekið af myndugleik á því að kynna stjórnmálasamtök og koma þeim á framfæri en jafnframt tryggja að allir hafi aðgang og að engum sé ýtt til hliðar í þeirri umfjöllun.

Í því sambandi vil ég meðal annars nefna að ég hef ekki í gegnum tíðina haft neinar stórar áhyggjur af því að það væri einhver tiltekin pólitísk slagsíða á Ríkisútvarpinu á einn eða annan veg, hvorki í einhverju sérstöku fréttatengdu efni né einhverjum tilteknum þáttum. Af þessu hef ég ekki haft áhyggjur, frú forseti.

Ég held að það sé kannski að sumu leyti eðlislægt á hverjum tíma að Ríkisútvarpið tali meira við þá sem eru við völd hverju sinni óháð því endilega, eins og hefur komið fram í máli sumra þingmanna, hvort einhver tiltekinn stjórnmálaflokkur er við völd og þar með í þeirri stöðu að stýra hlutabréfinu í Ríkisútvarpinu, ef svo má segja. Það held ég að sé ekki sérstakt áhyggjuefni. Ég held að tilhneigingin til að tala meira við þá sem eru við völd hverju sinni stafi að einhverju leyti af því að stór hluti þess sem kannski má kalla dagskrá valdsins í samfélaginu liggi einmitt hjá ríkjandi valdhöfum hverju sinni. Þá er það einmitt frekar hlutverk stjórnarandstöðu á hverjum tíma, ef menn líta á þetta sem vandamál, að vera vakandi fyrir því að taka þátt í þeirri umræðu og komast að í henni.

Ég er ekki áhyggjufullur með tilliti til þessa. Ég held að ef maður horfir meira en eitt eða tvö kjörtímabil fram eða aftur, eða eitt eða tvö ár fram eða aftur, jafnist þetta nokkuð út. Þess vegna held ég að það sé rétt sem hefur komið fram í máli nokkurra þingmanna að á hverjum tíma finnist stjórnarandstöðunni nokkuð á hana hallað í þessum miðli.

Ég kann ekki, frú forseti, leiðir til þess að bregðast þannig við þessu að öllum gæti líkað en ég held að þau varnaðarorð sem iðulega falla í umræðunni séu einmitt til þess fallin að halda Ríkisútvarpinu og stjórnendum þar við efnið í þessu tilfelli. Þess vegna er í rauninni ljómandi gott að þessi umræða sé í gangi.

Ég ætla að ræða aðeins meira um títtnefndan 7. tölulið 2. mgr. 3. gr. því að það varð allmikil umræða í nefndinni um hann, m.a. um það atriði hvort ritstjórnarlegt vald á efni er sneri að kynningum stjórnmálasamtaka ætti að vera hjá Ríkisútvarpinu eða ekki. Meiri hlutinn leggur til, eins og þingheimi er kunnugt, að þetta ritstjórnarlega vald liggi hjá miðlinum. Ég lít hins vegar ekki svo á að þarna sé um eiginlega ritskoðun að ræða, eins og einhverjir hafa jafnvel kastað fram í umræðunni, heldur lít ég svo á að þetta ritstjórnarlega forræði, ef við getum sagt sem svo, snúi fyrst og fremst að því að tryggja að ekki sé beinlínis óviðurkvæmilegur málflutningur, hatursfullur áróður eða hreinlega efni sem brýtur í bága við lög. Ég hef því ekki miklar áhyggjur af því að stjórnmálasamtök sem koma til með að kynna sig eða sín stefnumál þarna lendi í miklum hindrunum hjá stjórnendum útvarpsins og tel því að það geti farið vel á því að hafa þetta svona.

Mig langar aðeins að nefna lagagrein sem hefur ekki verið nefnd mikið í umræðunni, m.a. vegna þess að ég geri ekki ráð fyrir að um hana sé mikill ágreiningur. Það er 6. gr. í frumvarpinu, sú sem fjallar um textun og táknmálstúlkun. Þar er um gríðarlega mikilvægt atriði að ræða. Ég held að það sé mikilsvert að benda á að þetta snertir fleiri en bara þá sem eru heyrnarskertir eða daufblindir eða eiga við einhverjar þess háttar fatlanir að stríða. Þetta snertir miklu fleiri, til að mynda tækni, þ.e. að menn geti fylgst með sjónvarpsefni án þess að þurfa að hafa hljóðið á, þótt ekki sé annað. Sumir velja það hreinlega. Þetta snertir líka margt eldra fólk sem er farið að tapa heyrn þótt það hafi ekki verið heyrnardauft eða heyrnarlaust. Þetta getur skipt þann hóp sem er býsna stór alveg gríðarlega miklu máli. Þess vegna er rétt að nefna það hér.

Frú forseti. Ég lýsi ánægju minni með þetta frumvarp og með að þetta góð samstaða hafi náðst um málið í allsherjar- og menntamálanefnd. Eins og þingmönnum er kunnugt eru sjö af nefndarmönnum á meirihlutaálitinu. Það er líklega hægt að segja með þokkalega mikilli vissu að það sé mikilli minni hluti, a.m.k. þingmanna ef ekki í samfélaginu, sem lítur þetta mál neikvæðum augum. Ég tel því mikilvægt að við klárum málið á þessu þingi og sköpum þar með Ríkisútvarpinu þá umgjörð sem augljóslega meiri hluti þingmanna vill að verði gert.