141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:00]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr mikilvægi Ríkisútvarpsins í þágu almannavarna og almannaheillar í landinu. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt á undanförnum vikum, mánuðum eða jafnvel missirum að ástandið væri þannig hjá Ríkisútvarpinu að það gæti ekki sinnt þeirri lagalegu skyldu sinni. Við erum að auka ríkisútgjöldin um tæpar 900 milljónir frá og með næstu áramótum og þess vegna eru samanburðurinn og samlíkingin að mínu viti sanngjörn og eðlileg.

Eins og ég segi man ég ekki eftir því að hafa heyrt að eitthvert neyðarástand ríkti hjá Ríkisútvarpinu og það gæti þess vegna ekki sinnt lagalegri skyldu sinni. Ég hef hins vegar heyrt Ríkisútvarpið flytja fréttir af neyðarástandi á Landspítalanum og lít þess vegna svo á að það sé eðlileg spurning og eðlileg krafa þar sem þetta fjallar fyrst og fremst um forgangsröðun fjármuna, sérstaklega þegar lítið er til af þeim.