141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:05]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta svar ýtir aðeins við mér til að vinna þá frekar í hugsanlegri breytingartillögu. Hún er ekki komin fram þannig að hv. þingmaður hefur að sjálfsögðu ekki séð hana. Ég heyri að hv. þingmaður útilokar ekki að þetta geti farið vel saman. Ég held sjálf að þetta gæti farið mjög vel saman af því að þá gæti maður verið nokkuð öruggur um að framboð, sérstaklega ný framboð sem eru kannski mjög upptekin af einu máli, og það væri þá á þeirra valdi að koma því vel til skila. Ég er ekki alveg viss um að þó að Ríkisútvarpið setji reglur um framboðsmálin muni það algjörlega mæta þessu sjónarmiði. Menn geta einhvern veginn lent milli skips og bryggju í því.

Ef við hefðum hlutfallslegar mínútur á hvert framboð eftir því hvar þau bjóða fram, í hve mörgum kjördæmum o.s.frv., yrðu þetta bara X mínútur sem yrðu þá ókeypis auglýsing en Ríkisútvarpið hefði sama vald og í auglýsingum í dag, þ.e. ekki væri hægt að sýna hvað sem er. (Forseti hringir.) Ríkisútvarpið þyrfti að hafa vald til að stoppa ef það væri eitthvað sem særði mjög mikið, bara eins og í hefðbundnum auglýsingatíma.