141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:08]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég ætlaði að spyrja um athugasemdir ÖSE, en hv. þingmaður er búinn að svara þeirri spurningu.

Mig langaði til að spyrja hann hvort hann teldi nauðsynlegt að stjórnarandstaðan í landinu hefði dagskrárvald og gæti komið sjónarmiðum sínum að í fjölmiðlunum og hvort þetta frumvarp tryggi það. Hv. þingmaður sagði nefnilega að ríkisvaldið hefði alltaf yfirgnæfandi dagskrárvald.

Síðan er spurningin: Hvernig telur hv. þingmaður að samkeppni geti átt sér stað á fjölmiðlamarkaði yfirleitt við þessar aðstæður? Finnst honum núverandi samkeppni lífleg, lífvænleg og sterk og veita Ríkisútvarpinu raunverulega samkeppni eða vill hann hafa Ríkisútvarpið yfirgnæfandi á markaðnum eins og það er í dag?

Þá vil ég spyrja hann, ef hann er hlynntur því eins og hann talaði, hvort þá væri ekki rétt að taka upp ríkisdagblöð líka, ríkisútgáfu námsbóka og annað slíkt?