141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:09]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef ég heyrði rétt fyrstu spurningu hv. þingmanns snerist hún um það hvort stjórnarandstaðan á hverjum tíma ætti að hafa eitthvert dagskrárvald. Var það spurningin? Já, hv. þingmaður kinkar kolli.

Ef það væri með góðu móti hægt að útfæra það kann vel að vera að það væri skoðandi, en eins og ég nefndi í ræðu minni getur það „dagskrárvald“, ef maður getur orðað það svo, til að mynda falist í því að stjórnarandstaðan á hverjum tíma veki af myndugleik athygli á málum eins og hún hefur til dæmis tök á hér á þingi og gerir iðulega. Það er einmitt það sem kannski kom fram í máli hv. þm. Skúla Helgasonar fyrr í dag, að tilteknir dagskrárliðir þingsins eru þannig uppbyggðir og uppsettir að stjórnarandstaðan hefur þar töluvert mikið fram að færa, sem er vel, (Forseti hringir.) og þar einmitt getur þetta dagskrárvald birst og við höfum oft séð það í fjölmiðlum á þessu kjörtímabili.

Seinni spurningunum mun ég reyna að svara í seinna andsvari.