141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:23]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ræðu hans. Hann er ötull í því að gagnrýna þessa ráðstöfun útvarpsgjaldsins. Við erum bara hjartanlega ósammála um það. Ég er reyndar sammála þingmanninum um að það sé allt of mikið um markaða tekjustofna í ríkisbúskapnum, en ég tel hins vegar að sérstakt eðli Ríkisútvarpsins sé þannig og mikilvægi þess að tryggja Ríkisútvarpinu sjálfstæði undan íhlutunum hins pólitíska valds réttlæti að gera þá undantekningu að útvarpsgjaldið, sem er lagt á gjaldendur í landinu renni að öllu leyti til Ríkisútvarpsins. Það er gert til að tryggja þetta sjálfstæði. Það er gaman að því, þar sem hv. þingmaður er frambjóðandi fyrir flokk sem heitir Sjálfstæðisflokkurinn, að þingmenn þess flokks virðast ekki hafa neinn skilning á mikilvægi þess að sú stofnun njóti bæði fjárhagslegs og faglegs sjálfstæðis frá þingheimi.

Hann sér ofsjónum yfir þeim rúmum 800 millj. kr. sem eiga að fara til Ríkisútvarpsins til viðbótar í gegnum útvarpsgjaldið. Það er verið að leggja þetta gjald á skattborgarana í landinu í þessum tilgangi. Þegar slíkt er gert með skilgreindum hætti set ég spurningarmerki við það að fjármunirnir séu notaðir í eitthvað annað. Ég tel að það sé ekki góður bragur á því.

Varðandi tekjuskerðingarnar sem koma á móti eru þær vel á fjórða hundrað millj. kr. Þær koma í gegnum þrjá þætti; bann við að rjúfa dagskrárliðinn með auglýsingum, bann við kostun og með þaki á auglýsingar. Þessir þættir eru taldir nema, samkvæmt áætlun mennta- og menningarmálaráðuneytisins, 365 millj. kr., en sú upphæð losar um fimmtung af samanlögðum auglýsinga- og kostunartekjum Ríkisútvarpsins.