141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:27]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég á við er að við erum að fjalla um frumvarpið um Ríkisútvarpið og það er mikil samstaða um það en það er einungis einn flokkur sem stendur á móti þessari afgreiðslu á málinu og það er Sjálfstæðisflokkurinn. Hann leggur mjög þunga áherslu á að það sé óeðlilegt að útvarpsgjaldið sem er lagt á skattborgara landsins í þeim tilgangi að standa straum af rekstri Ríkisútvarpsins, sé notað í þeim tilgangi. Ég set bara stórt spurningarmerki við það yfir höfuð, ekki sérstaklega út af Ríkisútvarpinu heldur almennt, að markaðir tekjustofnar, ef við erum með þá, séu að verulegu leyti notaðir í eitthvað annað. Mér finnst það óeðlileg vinnubrögð. Ég vísa til þess fyrirkomulags sem er víða í löndum í kringum okkur, ég nefni t.d. Bandaríkin. Það er alsiða í fylkjum Bandaríkjanna að kjósendum gefist kostur á því að taka ákvarðanir um skattaleg málefni og þeir spurðir hvort þeir hafi áhuga á því að tekinn sé af þeim aukinn skattur til að nota í tiltekin verkefni, hvort sem það eru menntamál, heilbrigðismál eða önnur málefni, og menn geta kosið sig annaðhvort frá því eða samþykkt að taka á sig auknar álögur í þeim skilgreinda tilgangi. Þá er ekki góður praxís að þær tekjur séu notaðar í eitthvað annað.

En mér finnst það vera grundvallaratriði að virða fjárhagslegt sjálfstæði stofnunarinnar og sé að fjárlaganefnd er mér sammála um það. Ég hefði gaman af því að þingmaðurinn gæfi mér einhverjar aðrar leiðir. Hvaða leiðir höfum við til að verja fjárhagslegt sjálfstæði stofnunarinnar sem eru betri en þær sem farnar eru í frumvarpinu? Það kemur því miður ekki fram í þeirri umsögn sem fjárlaganefnd sendi allsherjar- og menntamálanefnd í tengslum við þetta frumvarp.