141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög skemmtilegur vinkill sem hv. þingmaður kom með á málið. Rjóminn af þjóðinni er sennilega inni á Facebook og Twitter og hvað þetta heitir nú allt, og er í rauninni hver um sig fjölmiðill. Fólk birtir skoðanir sínar, birtir myndir og svo framvegis. Mér skilst nú ekki að menn telji að þeir falli undir fjölmiðlalög eða annað slíkt, enda mundi það æra óstöðugan ef allir færu að skila þessum upplýsingum sem hv. þingmaður nefndi. Það gæti reyndar verið gaman ef menn byrjuðu að dæla inn slíkum upplýsingum.

Ég lít á það þannig að þegar ég birti pólitískar upplýsingar eða pólitíska skoðun mína er ég ekkert að draga það undan að þetta er pólitísk skoðun mín sem birtist. Það vita þeir sem lesa og allir vinir mínir á Facebook, sem eru að held ég að nálgast 3.000, að þessi fjölmiðill er litaður af mínum skoðunum og engu öðru. Það er ekkert verið að fela það neitt og þykjast vera óháður eða eitthvað slíkt, enda hef ég ekki enn þá hitt þann mann sem er algjörlega óháður og skoðanalaus.