141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki bara af gáska sem ég spurði hv. þingmann að þessu, því þetta er líka umhugsunarefni. Sérstaklega ef eitthvað sem getur byrjað sem bloggsíða verður vinsælla verður það eðli málsins samkvæmt að fjölmiðli. Við fórum þá leið að setja upp mun stærra batterí en var til staðar. Það var hér útvarpsréttarnefnd, Fjölmiðlastofa, sem á að fylgjast með þessu öllu saman. Það er umhugsunarefni, virðulegi forseti, hvað við ætlum að ganga langt í eftirlitinu. Ef við getum komist að þeirri niðurstöðu, sem er ekkert algjörlega út í hött, að samanlögð notkun hjá þingmönnum og vinsælum bloggurum getur farið alla vega hátt upp í það sem gerist hjá öðrum fjölmiðlum, kannski sérstaklega prentmiðlum því að þeir eiga undir högg að sækja, þá gætu menn fært rök fyrir því að þetta þyrfti að fara undir það eftirlit.

Ég á voða erfitt með að ræða um Ríkisútvarpið án þess að ræða aðra fjölmiðla. Allt saman er þetta ein heild. Ég hef áhyggjur af ýmsum þáttum í þessu, en á sama hátt sé ég mörg tækifæri. Mér finnst einfaldlega frábær þróun að fleiri hafi tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og koma efni sínu á framfæri, sem tæknibreytingarnar og tækninýjungarnar hafa gert að verkum. Sá sem ræður yfir upplýsingaveitunni, sá sem kemur upplýsingunum áleiðis, er með gríðarleg völd. Fjölmiðlar eins og þeir hafa verið fram til þessa hafa haft gríðarleg völd, þá kannski sérstaklega ríkisfjölmiðillinn. Ég held að það sé ekkert verra að búa í þjóðfélagi þar sem fleiri hafi völd heldur en færri. Reyndar held ég að það sé miklu betra.