141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:56]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljúft og skylt að útskýra betur þessa 7. gr. Skilningur hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur er hárréttur um það sem verið er að tala um undanþágur frá því hvað teljist til auglýsinga í 3. mgr. 7. gr. Þar er átt við undantekningar frá kostunarbanninu. Þær eru örfáar eins og ég rakti áðan og af tvennu tagi. Annars vegar eru þá þessir íburðarmiklu dagskrárliðir sem eru sérstaklega nefndir í nefndarálitinu. Við leggjum mikla áherslu á að þar sé tæmandi listi yfir stórviðburði á íþróttasviðinu, alþjóðlega viðburði og síðan söngvakeppnina. Það eru tilkynningar um þá viðburði sem hér er átt við að telji ekki upp í þetta átta mínútna auglýsingaþak.

Að öðru leyti þakka ég þingmanninum fyrir málefnalega ræðu sem dregur fram kosti og galla í frumvarpinu og ég tel það gagnlegt fyrir umræðuna.