141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[20:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil biðjast afsökunar á því að ég hef farið rangt með tölur hér áðan, það eru ekki 700 millj. kr. heldur 875 millj. kr. sem ríkissjóður þarf að reiða fram ef þetta frumvarp nær fram að ganga. Ég veit ekki hvort ég er einn um það að finnast þetta vera sérstök forgangsröðun, með fullri virðingu fyrir ríkisfjölmiðlinum. Ég hef spurt að því hvernig menn ætla að ná þessu fram, þ.e. tæplega 900 millj. kr. á ári. Það verður væntanlega gert með tvennum hætti eða kannski þrennum. Í fyrsta lagi með niðurskurði einhvers staðar annars staðar eða með því að auka tekjur, hugsanlega með skattahækkunum eða lántöku. Ég vil ekki gera lítið úr ýmsum þáttum málsins en ég held að það væri fullkomið ábyrgðarleysi að klára umræðuna án þess að upplýst verði hvert eigi að sækja þessa peninga. Þetta eru mjög miklir peningar og ég vek athygli á því að þetta er á hverju einasta ári.

Mér finnst umræðan hafa verið ágæt, ég veit ekki hvað hún stendur lengi, en hins vegar finnst mér vanta svör við spurningum. Ég og hv. þingmenn Birgir Ármannsson og Pétur Blöndal og fleiri hafa spurst fyrir um hvert hlutverk Ríkisútvarpsins eigi að vera og hvernig það sé takmarkað. Ekki hafa komið nein svör önnur en þau að þetta sé svipað núna og er í núgildandi lögum. Ég ætla ekki að draga það í efa. Mér sýnist samt að í þessu frumvarpi sé gert ráð fyrir að lágmarki tveimur hljóðvarpsrásum en í núgildandi lögum er gert ráð fyrir einni. En eftir stendur að fjölmiðlaefnið skal hið minnsta vera fréttir og fréttaskýringar, fræðsluþættir, íþróttaþættir, afþreying af ýmsum toga, lista- og menningarþættir og sérstakt efni fyrir börn og ungmenni. Að minnsta kosti. Það getur vel verið að til séu fleiri efnisflokkar en ég veit alla vega ekki hverjir þeir gætu verið.

Nú gæti einhver sagt: Þetta er bara tal einstaklings sem er lítið hrifinn af Ríkisútvarpinu. En reyndar má segja að þeir sem svona tala og velta þessu fyrir sér séu ekki bara vinir Ríkisútvarpsins heldur bestu vinir Ríkisútvarpsins, kannski einfaldlega vegna þess sem við hv. þm. Pétur Blöndal ræddum hér og skiptumst á skoðunum um. Við erum að sjá mikla og öra þróun á fjölmiðlamarkaði og þess þá heldur er mikilvægt að skilgreina hvað Ríkisútvarpið eigi að vera og hversu sterkt og öflugt við ætlum að hafa Ríkisútvarpið.

Ég er þeirrar skoðunar að Ríkisútvarpið eigi fyrst og fremst að einbeita sér að innlendu efni. Ég hef verið þeirrar skoðunar í langan tíma. Vanalega koma þau rök á móti að dagskráin þurfi að vera blönduð, annars nenni fólk ekki að fylgjast með o.s.frv., en ég held að það eigi bara ekki við. Ég held að það sé sérstaklega mikil eftirspurn eftir innlendu efni núna og muni bara aukast því á sama tíma og heimurinn er að þróast í þá átt að við sjáum alls staðar sömu fréttirnar, hlustum á sömu tónlistina og fáum sömu upplifun er þeim mun meiri eftirspurn eftir efni úr nærumhverfinu. Ég tel að þá fjármuni sem við setjum í Ríkisútvarpið, sem eru umtalsverðir, eigi fyrst og fremst að nota til að vekja athygli á og viðhalda íslenskri menningu og tungu. Mér finnst þessu ekki sinnt núna.

Ég er til dæmis aðdáandi eins dagskrárliðar í Ríkisútvarpinu sem er útvarpsleikhúsið. Það er mjög langt síðan að ég hætti að geta skipulagt tíma minn þannig að ég geti sest niður nákvæmlega á þeim tíma þegar einhver sérstakur liður er á dagskrá. Það gildir svo sannarlega um útvarpsleikritið sem er núna á sunnudögum. Í gamla daga var það alltaf á fimmtudagskvöldum þegar ekkert sjónvarp var, og þá byrjaði ég að hlusta á útvarpsleikritið mér til ánægju. Í dag reiði ég mig á netið. Síðast þegar ég kannaði þetta var ekki búið að setja útvarpsleikritið þannig fram að auðvelt og aðgengilegt væri að nálgast það.

Ég nota mjög mikið einn ríkisfjölmiðil sem er að vísu breskur og heitir BBC. Mér finnst við getum alveg litið til þeirra til að læra af því hvernig er hægt að setja fram efni sem fólk hefur áhuga á og nálgast það. Ég held að hægt væri að ná góðri sátt um að afmarka hlutverk Ríkisútvarpsins fyrst og fremst við innlent efni sem viðkemur sögu okkar og menningu. Þar eru endalaus verkefni þar og þar geta unnið saman bæði opinberir aðilar og einkaaðilar. Við erum með öfluga háskóla sem sinna allra handa rannsóknastarfsemi á hinum ýmsu sviðum og ég held að það væri öllum til hagsbóta, bæði þessum stofnunum og ég tala nú ekki um þjóðinni, ef við mundum með skipulegum hætti koma á framfæri allri þeirri vinnu sem þar fer fram sem oftar en ekki er mjög áhugaverð. Svo mikið er víst, virðulegi forseti, að ef við sinnum þessum ekki, íslensk þjóð, gerir enginn það.

Mér hefur fundist í þessu eins og mörgu öðru að Ríkisútvarpið sé oftar en ekki að eltast við einkaaðilana. Það hafa ótrúlegustu einkaaðilar, oft af litlum mætti, farið af stað með innlent efni og þegar það hefur gengið vel hefur það stundum verið tekið og einhvern veginn kippt yfir á Ríkisútvarpið. Það tel ég ekki vera sérstaklega æskilegt. Það væri æskilegra ef Ríkisútvarpið væri vettvangur fyrir nýjungar og við sæjum þar meiri tilraunastarfsemi, getum við sagt, á þessu sviði. Ef einhvers staðar ætti að vinna vandað efni, efni sem mikið er í lagt, ætti það að vera hjá ríkisfjölmiðlum.

Ég sakna þess að þegar ríkisstjórnin er að reyna að koma þessu frumvarpi í gegn er lítil umræða um þennan þátt. Reyndar hef ég ekki orðið var við hana á neinn hátt. Mér finnst líka mjög dapurt að hér sé verið að fara í gegn með frumvarp þar sem hlutverk Ríkisútvarpsins er ekki skilgreint. Bent hefur verið á að þær takmarkanir sem settar eru á auglýsingatekjur eru mjög litlar, ef einhverjar í raun, og ríkisútgjöld munu aukast um 900 millj. kr. á ári. Það fé kemur úr sameiginlegum sjóðum og í það minnsta fer það ekki í heilbrigðiskerfið meðan það fer í Ríkisútvarpið.

Síðan reyndi ég að ræða um hlutlægnina og að vísu gekk það ágætlega að því leyti til að það varð málefnaleg umræða um hlutlægnina. Það sem var kannski sérstaklega áhugavert var að hér kom í það minnsta einn hv. stjórnarþingmaður sem taldi eðlilegt og sjálfsagt að þeir sem væru ráðandi á hverjum tíma, þau pólitísku öfl sem væru ráðandi, hefðu dagskrárvaldið í umræðunni. Ég held að við ættum að gefa þessum orðum svolítinn gaum. Er það eðlilegt að stjórnarflokkar á hverjum tíma hafi dagskrárvaldið? Er það lýðræðislegt?

Ég held einnig að við ættum með skipulegum hætti að reyna að búa til umhverfi sem auðveldar rekstur einkamiðla á sama tíma og við takmörkum og skilgreinum hlutverk ríkismiðilsins. Ég tel að helsta hindrunin fyrir einkamiðla til að koma á markaðinn sé meðal annars sú að þeir hafa ekki efni á því að gera dýrar hlustenda- eða áhorfendakannanir og sjónvarpskannanir. Ef hið opinbera ætti að gera eitthvað á þessu sviði — ég er ekki að leggja til aukin ríkisútgjöld, ég held að hægt sé að taka þau annars staðar af Fjölmiðlastofu — væri það að fjármagna kannanir þar sem allir einkaaðilarnir væru með. Það mundi gera að verkum að þeir gætu nýtt sér góðar niðurstöður úr könnunum við sölu á auglýsingum og kostunum, það gæti skilað sér í auglýsingatekjum, því að á þeim lifa einkaaðilar. Þeir geta ekki gengið í opinbera sjóði.