141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðu minni vék ég að nokkrum þáttum varðandi þetta frumvarp og er ástæða til að hnykkja á því. Ef ég nefni hlutina í öfugri röð miðað við áðan verð ég að segja að mér finnst stjórnskipulagið sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu vera nokkuð sérkennilegt og velti fyrir mér hvort það sé hugsað til enda. Kannski mun ekki koma að neinni sérstakri sök þó að það séu einkennilegheit í því en ég verð þó aftur að gera sérstakar athugasemdir við það fyrirkomulag að allsherjar- og menntamálanefnd sé falið eitthvert hlutverk í þessu sambandi. Ég byggi það á þeirri skoðun minni að það er ekki verkefni einstakra nefnda þingsins að koma að stjórnsýslulegum ákvörðunum á þann hátt sem hér er um að ræða. Ef menn vilja láta þingið velja í einhverja nefnd á þingið bara að kjósa, eins og þingið kýs í aðrar nefndir, fjöldamargar nefndir á fjölmörgum sviðum. Það er þá þingið allt en ekki einstakar nefndir þess.

Í annan stað verð ég að játa að ég er eiginlega jafnnær um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ég velti fyrir mér hvort mat manna sé það og hvort út frá því sé gengið í frumvarpinu, bæði af hálfu ráðherra og nefndarinnar, að öll fjölmiðlastarfsemi Ríkisútvarpsins sé sjálfkrafa í almannaþágu, hvort það sé óhugsandi að bein fjölmiðlaþjónusta á vegum Ríkisútvarpsins geti verið annað en í almannaþágu. Í greinargerð og síðan öðrum greinum sem varða t.d. starfsemi dótturfélaga virðist alltaf gert ráð fyrir að það sem fellur utan við almannaþjónustuhlutverkið sé önnur starfsemi, sala á einstökum vörum, sala á þáttum, sala á birtingarrétti eða annað slíkt, leiga á tækjum eða eitthvað þess háttar, ekkert sem varðar fjölmiðlastarfsemina sem slíka. Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er auðvitað sú að það snertir kjarna málsins.

Er það virkilega svo að einhver fjölmiðlaþjónusta eða fjölmiðlastarfsemi geti fallið utan við almannaþjónustuhlutverkið samkvæmt 3. gr.? Hvers konar fjölmiðlastarfsemi væri það? Það væri forvitnilegt að vita hvort hv. allsherjar- og menntamálanefnd hafi velt því fyrir sér. Telst einhver fjölmiðlastarfsemi eða fjölmiðlarekstur, einhver fjölmiðlun ekki vera almannaþjónustufjölmiðlun miðað við skilgreiningar 3. gr.? Þetta skiptir máli af því að það er m.a. hlutverk fjölmiðlanefndar samkvæmt frumvarpinu að meta hvort starfsemi Ríkisútvarpsins sé í samræmi við 3. gr., og væntanlega að meta hvort Ríkisútvarpið uppfylli kröfurnar um almannaþjónustu sem settar eru fram í 3. gr. og líka, hefði ég haldið a.m.k., hvort Ríkisútvarpið fari út fyrir almannaþjónustuhlutverkið.

Þetta skiptir lykilmáli þegar haft er í huga að kannski er annar aðaltilgangur frumvarpsins að koma til móts við ábendingar, athugasemdir og tilmæli sem komið hafa um að almannafé, skattfé, sé ekki notað til að niðurgreiða samkeppnisrekstur. Hver er samkeppnisreksturinn? Er hann bara sala á myndböndum af Stiklum Ómars Ragnarssonar eða sýningarrétti á einhverjum myndum eða eitthvað þess háttar? Nei, samkeppnisreksturinn getur líka verið í fjölmiðlastarfseminni sem slíkri. Útvarpsstarfsemi sum hver sem rekin er á vegum Ríkisútvarpsins er augljóslega í samkeppni við útvarpsrekstur sem rekinn er af einkaaðilum í landinu. Sjónvarpsrekstur er að hluta til í samkeppni við sjónvarpsrekstur í landinu eða það skyldi ég ætla. Er allur greinarmunur á því hvort þátturinn Sturm der Liebe er sýndur í ríkissjónvarpi eða á einkastöð, svo ég taki sem dæmi ágæta þýska sápuóperu sem sýnd er síðdegis? (Gripið fram í: Hvað heitir hún?) Sturm der Liebe. Svo má lengi telja. Augljóst er að tæpast er um að ræða þátttöku Ríkisútvarpsins í að efla lýðræðislega umræðu í landinu að senda út þátt af þessu tagi. (Utanrrh.: Ef það væri Sturm und Drang.) Það er tæpast mikið menningarlegt hlutverk í þessu nema auðvitað kann einhverjum að þykja það menningarlegra að heyra froðuna á þýsku en ensku, það kann að vera. En hins vegar hlýtur maður að velta fyrir sér: Er það svo að ekki geti verið um að ræða samkeppnisrekstur á sviði venjulegrar fjölmiðlunar, að fjölmiðlaútsendingar, þ.e. útvarpsútsendingar eða sjónvarpsútsendingar Ríkisútvarpsins, geti ekki hugsanlega verið í samkeppnisrekstri við einkaaðila? Er það mat nefndarinnar, er það mat ráðherra?

Við verðum að hafa í huga að ástæðan fyrir því að ráðherra og ráðuneyti leggja í þetta ferðalag eru athugasemdir um að þess verði að gæta að almannafé sé ekki notað til að niðurgreiða samkeppnisrekstur. Það er ekki bara samkeppnisrekstur í því að selja myndbönd, birtingarrétt eða eitthvað þess háttar. Það er líka samkeppnisrekstur í hinni eiginlegu fjölmiðlun.

Ég verð að segja, nú þegar líður að lokum þessarar umræðu, að hafi það raunverulega verið ætlun frumvarpshöfunda að skýra og skerpa almannaþjónustuhlutverk Ríkisútvarpsins með frumvarpinu hefur það að mínu mati ekki tekist. Það sem hefur tekist er að verið er að segja sömu hluti og eru nú í lögum í tíu sinnum lengra máli, með tíu sinnum fleiri orðum. Innihaldið er það sama og eftir sem áður eru skilgreiningarnar svo víðtækar í 3. gr. að hægt er að fella svo til allt, geri ég ráð fyrir, fjölmiðlaefni þar undir.

Því til viðbótar er opnuð opin heimild fyrir Ríkisútvarp til að stofna dótturfyrirtæki um hvað sem er. Nefnd eru nokkur dæmi um verkefni sem eigi að vera í dótturfélögum en á sama hátt er gefin opin heimild til að hafa dótturfélög um hvaða starfsemi er. Við höfum séð á undanförnum árum að slíkar heimildir til opinberra fyrirtækja geta verið pínulítið varasamar. Lítum til dæmis nokkur ár aftur í tímann og hugsum um Orkuveitu Reykjavíkur þar sem menn voru að stofna dótturfélög um mér liggur við að segja um allt mögulegt sem hafði óveruleg tengsl við hinn eiginlega rekstur. Ég sé því miður ekki fyrir mér annað en að heimilt sé að Ríkisútvarpið stofni dótturfélög um rekstur sem geti verið töluvert langt frá því kjarnahlutverki sem þeirri stofnun er ætlað að sinna.

Ég verð að segja að þegar horft er á þessa þætti, þegar horft er á það hve langt menn eru frá því að ná þeim markmiðum að skýra almannaþjónustuhlutverkið, hve langt þeir eru frá því að komast að vitrænni niðurstöðu um stjórnskipulag Ríkisútvarpsins, svo ekki sé talað um fjármögnunina sem ég hef ekki minnst mikið á en hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur fjallað töluvert um, held ég að það væri betur heima setið en af stað farið með þetta mál. Ég held að við færum ekki hlutina á neinn hátt fram á við með því að samþykkja frumvarpið. Ég held að við næðum ekki neinum sérstökum árangri með því, ekki einu sinni þótt menn vilji hag Ríkisútvarpsins sem allra bestan og mestan. Ég held að menn séu einfaldlega að flækja stöðuna töluvert með þessu frumvarpi.

Ef einhverjum er alvara með því að setja eigi Ríkisútvarpinu einhverjar takmarkanir, hugsanlega til að gefa öðrum aðilum á þessum markaði aðeins meira svigrúm, nær frumvarpið augljóslega ekki þeim tilgangi. Ég mælist þess vegna til þess, af því að hér er kominn aftur hv. framsögumaður málsins í allsherjarnefnd, að málið verði tekið aftur til skoðunar í nefndinni milli umræðna og menn velti því einfaldlega fyrir sér: Erum við að stíga skref fram á við með frumvarpinu eða erum við bara að flækjast fyrir sjálfum okkur með orðavaðli og texta?