141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram að ræða Ríkisútvarpið og alveg sérstaklega samkeppni á fjölmiðlamarkaði. Velflestir lýðræðissinnar eru hlynntir samkeppni. Það hefur sýnt sig að hún hvetur til dáða, lækkar verð, bætir þjónustu að mörgu leyti og eykur framboð. Það sá maður mjög vel í austantjaldslöndunum meðan þau voru við lýði en þegar maður kom þangað var afskaplega fátæklegt framboð af vörum í verslunum, stundum var bara eitt brauð í bakaríunum og þjónustan var mjög léleg. Samkeppni ýtir undir að þeir sem eru í rekstri tipli á tánum, reyni að veita betri og ódýrari þjónustu og reyni að ná til fjöldans með því að vera liprir í samskiptum.

Það sama á við um fjölmiðla. Það sem við gerum með frumvarpinu, og höfum gert undanfarin ár, er að minnka samkeppni á markaðnum. Við gefum einum fjölmiðli óskaplegan forgang umfram aðra. Hann fær 3.000 milljónir af skattfé, um 10 þús. kr. á mann, og getur verið í rólegheitum og keypt alla aðra starfsemi. Auk þess er hann á auglýsingamarkaði sem á reyndar að reyna að takmarka í frumvarpinu en ég á eftir að sjá það gerast. Aðrir fjölmiðlar verða mjög lítið virkir vegna þess að samkeppnin er svo yfirgnæfandi, þeir berjast í bökkum og eiga mjög erfitt uppdráttar.

Ef þessi fjölmiðill yrði til dæmis seldur til starfsmanna, en ég hef lagt til að þeir fái forgang í því að kaupa fyrirtækið þar sem þeir eru uppistaðan í því, er viðbúið að öll samkeppni á markaðnum færi í gang. Fjölmiðillinn yrði miklu betri, virkari og skemmtilegri og framboðið yrði miklu meira og ódýrara. Það er trú þeirra sem hafa trú á markaðnum. Eiginlega allir þingflokkar á Alþingi trúa á markað, markaðsvæðingu, samkeppni og slíkt nema kannski hv. þingmenn Vinstri grænna. Ég ætla ekki að leggja þeim til þá skoðun en það væri mjög gaman að heyra þá tala um gildi samkeppninnar og þá sérstaklega gildi hennar í fjölmiðlum.

Ég hef spurt af hverju við erum ekki með ríkisdagblað. Af hverju erum við ekki með ríkisútgáfu bóka og annað slíkt? Reyndar hefur það gerst endrum og eins að Alþingi hefur staðið að útgáfu ýmissa bóka og það eru þá bækur sem enginn vill kaupa eða lesa, þar sem menn setja ákveðið hugðarefni á prent. Það er kannski fullmikið sagt að enginn vilji lesa bækurnar en ég hugsa að þær séu ekki mikið lesnar. Markaðurinn reynir að ná til þeirra sem nota fjölmiðlana. Það sem er að gerast núna með netið er að þar ríkir mjög mikil og hörð samkeppni um hvernig menn ná til fjöldans og það má segja að netmiðlarnir geri það. Ég þekki fólk sem fer daglega og mörgum sinnum á dag inn á Facebook og Twitter, og hvað það heitir allt saman, vegna þess að þeir samskiptamiðlar ná til fjöldans sem hinir opinberu miðlar gera í sífellt minna mæli. Þetta ætti að vera viðmiðunin fyrir til dæmis Ríkisútvarpið og stjórn þess. Hún ætti í rauninni að leggja til að stofnunin verði seld til að hún standi sig betur í samkeppninni og hér myndist gróskumikið menningarlíf sem ekki gerist á meðan öllu saman er stjórnað af ríkinu.