141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það eru í það minnsta nokkrir hv. þingmenn sem hafa mikinn áhuga á málinu. Ég er enn þá að bíða eftir því að hv. þm. Skúli Helgason upplýsi mig um hvert hann ætlar að sækja peningana fyrir frumvarpið og ég fullyrði að ég er ekki einn um að hafa áhuga á því af þeim sem hafa farið yfir það. Það segir sig sjálft að þegar fjárlagaskrifstofan segir það ekki samræmast stefnu sem mörkuð hefur verið varðandi ríkisfjármálin hljóta hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarþingmenn að svara því hvert þeir ætli að sækja peningana. Hv. þingmaður segir að löngu sé búið að svara því og ég hvet hv. þingmann til að fara í eitt örstutt andsvar og upplýsa það aftur því að það fór fram hjá einhverjum af okkur hérna. Ég veit reyndar ekki um neinn hv. þingmann sem hefur fengið þær upplýsingar og það er auðvitað miður ef það hefur komið skýrt fram einhvers staðar án þess að berast til okkar. Það væri ágætt að fá fram og eiginlega alveg nauðsynlegt.

Þótt ég fagni því að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi tekið þátt í umræðunni hefur mér ekki fundist nein skýring gefin á því af hverju hlutverk Ríkisútvarpsins er ekki skilgreint. Þótt ég sé ekki í neinni sérstakri hagsmunagæslu fyrir þann hóp eða aðra hópa held ég að það sé erfiðast fyrir hóp þeirra sem starfa hjá Ríkisútvarpinu. Það er augljóslega mjög mikilvægt, sama hvar maður starfar, að vita innan hvaða ramma viðkomandi starfsemi á að vera.

Ég fór aðeins yfir þróun á fjömiðlamarkaði áðan sem við höfum rætt og svolítið umræða spunnist um hér og ég skal alveg viðurkenna að ég sé ekki fyrir. Ég ætla ekki að segja hvernig ástandið verður eftir eitt eða tvö ár, ég veit ekki einu sinni hvernig ástandið verður á morgun þó svo ég eigi ekki von á neinum róttækum breytingum hvað varðar fjölmiðla. Við vitum að þeir þróast mjög hratt og það verður auðveldara að koma fram með efni og að mörgu leyti auðveldara að koma fram með fjölmiðla. Ég tel að ef við erum með ríkisfjölmiðil eigi hann fyrst og fremst, og aldrei meira en nú, að vera sú stofnun sem hefur íslenska menningu og tungu í heiðri og ég tel að endalausir möguleikar séu á því sviði. Það má alveg rusla út, fyrirgefið orðbragðið, ýmsu af dagskrá Ríkisútvarpsins til að koma meira af slíku efni fyrir. Það væri örugglega það besta sem væri hægt að gera fyrir íslenska listamenn ef Ríkisútvarpið legði meiri áherslu á það. Það er alveg nægt framboð af hinu alls staðar annars staðar, hvort sem það er á öðrum rásum eða á alnetinu.

Við ættum að sjá sóma okkar í því núna að skilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins og koma með stefnu sem getur náðst þokkaleg sátt um. Við erum ekki einu sinni komin á þann stað að vera að ræða hana, við erum ekki komin á þann stað að skiptast á skoðunum um hvar Ríkisútvarpið eigi að vera og hvar það eigi ekki að vera. Það er mín skoðun. Mér finnst að það eigi að vera forgangsmálið og aðalatriðið. Ríkisútvarpið gerir margt gott í því og hefur gert í gegnum árin og áratugina. Ég fór inn á einn samskiptamiðil áðan, nánar tiltekið Facebook, og fékk svar við spurningu sem ég velti upp áðan. Svona eru boðleiðirnar stuttar og núna veit ég nákvæmlega hvernig ég á að komast í útvarpsleikhúsið og fylgjast með því. Það er lítið mál og umræðan hefur í það minnsta skilað því. Eftir stendur að við eigum eftir að svara stóru spurningunum um málið.