141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka kærlega fyrir þá umræðu sem hér hefur staðið yfir um Ríkisútvarpið, hún hefur verið málefnaleg. Fram hafa komið ýmis sjónarmið um þessa stofnun sem ég tel afar mikilvæga í samfélagi okkar. Hún hefur lýðræðislegu, menningarlegu og félagslegu hlutverki að gegna eins og kemur vel fram í frumvarpinu sjálfu. Rætt hefur verið um að þetta er fjölmiðill sem þarf að hafa skýr rekstrarskilyrði, þarf að hafa ákveðið sjálfstæði í fjárhagslegum málefnum og faglegum á sama tíma og hann stendur vörð um þessi gildi, stendur vörð um innlenda dagskrárgerð, stendur vörð um að upplýsa almenning um það sem gerist hér í þinginu og í samfélaginu öllu og hefur í heiðri jafnræði og að ekki sé komið fram af hlutdrægni gagnvart ólíkum málsaðilum.

Upp hafa komið hugmyndir í þessari umræðu sem eru allrar athygli verðar, sjónarmið frá hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni varðandi ljósleiðaravæðingu, að það sé mikilvægt framtíðarverkefni að ljósleiðaravæða öll heimili landsins. Það er hugmynd sem við þurfum að taka alvarlega. Það er mjög mikilvægt að landsmenn allir hafi jafnt aðgengi að þeirri dagskrá sem Ríkisútvarpið er að bjóða og mætti vel hugsa sér, ef ríkið fer út í að selja eitthvað af eignum sínum í framtíðinni, að tekjur af því yrðu að einhverju leyti settar í slíkt verkefni í samvinnu við fjarskiptafélög og fjarskiptasjóð.

Ég vil vekja athygli á því að mikil og góð samstaða hefur verið um þetta mál í nefndinni og sjö af níu nefndarmönnum í allsherjar- og menntamálanefnd styðja þetta mál og standa að áliti meiri hlutans. Ég vil einnig þakka fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni fyrir gott innlegg, góða vinnu í því að bæta og breyta frumvarpinu. Allmargar tillögur voru gerðar af hálfu nefndarinnar á síðasta þingi sem meðal annars lutu að því að þrengja að umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði. Það var gert í ákveðnum tilgangi til að skapa einkamiðlunum tækifæri til að blómstra á þessum markaði. Við viljum umfram allt tryggja að gott jafnvægi sé á fjölmiðlamarkaðnum, RÚV sé sterkt og öflugt en einnig að einkamiðlarnir hafi meira svigrúm til að athafna sig.

Taka má undir það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi: Við þurfum fleiri fjölmiðla til að segja fréttir, við þurfum fleiri sjónarmið, við þurfum fleiri fréttaskýringaþætti, bæði á RÚV og á markaðnum öllum. Það er með þeim hætti sem við stöndum vörð um hagsmuni almennings í þessu efni. Ég ítreka þakkir mínar til þingheims fyrir þessa vönduðu umræðu og vona að við stígum hér eitt skref sem við getum síðan haldið áfram með í framtíðinni varðandi það að ná aukinni sátt um þessa mikilvægu stofnun.