141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

Ríkisútvarpið, fjölmiðill í almannaþágu.

194. mál
[21:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir það hversu vel hann hefur staðið sig í umræðum um þetta mál og svarað þeim spurningum sem komið hafa fram. Ég tel að umræðurnar hafi verið mjög málefnalegar og gagnlegt fyrir okkur öll að hlusta á ákveðin sjónarmið.

Mig langar að kalla eftir viðbrögðum því að það kom fram í síðasta andsvari hv. þingmanns [Kliður í þingsal.] að hann telji að frumvarpið muni hafa meiri áhrif á þá aðila sem hafa verið á einkamarkaðnum en í upphafi var talið. Hann kom inn á það í andsvari við mig fyrr í kvöld að tekjuskerðing Ríkisútvarpsins vegna auglýsingatekna muni verða um 365 millj. kr. Þá er bilið sem liggur fyrir að verði á aukningum á ríkisútgjöldum, tekið tillit til þessarar tölu, 500 millj. kr. sem verið er að auka útgjöldin til Ríkisútvarpsins umfram þær skerðingar sem fyrir verða vegna þess að kostnaðurinn eða aukningin er 875 millj. kr. Því langar mig að varpa því hér fram við umræðuna hvort ekki væri þess virði að skoða milli 2. og 3. umr. hvort hægt væri að skipta greiðslunum upp, Ríkisútvarpið fengi aðlögun eins og stundum er kallað í sambandi við Evrópusambandsumræðurnar. Það fengi þá skerðingu á næsta ári, 2014, á meðan staða ríkissjóðs er með þeim hætti sem hún er, og ekki þarf að deila um það, en hafi fengið þá alla vega þessa 365 svo maður reyni að vera sanngjarn. Þá gæti komið meira á árinu 2015.

Ég segi þetta vegna þess að mér er auðvitað, eins og öllum öðrum hér, mjög annt um hag ríkissjóðs og hef mjög sterkar skoðanir á því hvernig beri að forgangsraða þessum fjármunum í aðra þætti. Ég er þó ekki að gera lítið úr því — það er alltaf snúið þannig út úr því þegar menn gera athugasemdir við að auka útgjöld og sagt að maður hafi ekki skilning á því hversu mikilvægt hlutverk Ríkisútvarpsins er. Ég hef fullan skilning á því. Mig langar að hvetja hv. þingmann til að skoða þetta í hv. allsherjar- og menntamálanefnd milli 2. og 3. umr.

Eftir að ég las fyrirspurn frá einum hv. þingmanni til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra í september, þegar fram kom í fréttum að uppsagnir stæðu fyrir dyrum hjá Ríkisútvarpinu, þá verð ég að gera þá játningu hér að ég hef kannski ekki áttað mig algerlega á því sjálfstæði sem Ríkisútvarpið þarf að hafa gagnvart pólitískum afskiptum. Ég hef kannski gert of lítið úr því og ég ætla að hugsa það betur áður en ég kem hingað í 3. umr. Þetta rifjaðist upp fyrir mér áður en ég kom í þessa ræðu, ég fór yfir fyrirspurnina og svör hæstv. ráðherra og tel að ég hafi hugsanlega gert of lítið úr þeim pólitísku afskiptum sem forustumenn Ríkisútvarpsins hafa verið að benda á.