141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

564. mál
[22:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Með þeirri tillögu til þingsályktunar sem ég mæli fyrir er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 210/2012. Hún fjallar um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun. Sömuleiðis felst í tillögunni að inn í samninginn verði felld reglugerð framkvæmdastjórnarinnar nr. 286/2012 frá 27. janúar sama ár.

Með reglugerðinni er tiltekinni trefjategund bætt við á skrá yfir textíltrefjar í reglugerð nr. 1007/2011 sem varðar heiti textíltrefja og merkimiða og merkingar varðandi trefjasamsetningu textílvara. Þá voru líka skilgreindar samræmdar prófunaraðferðir fyrir trefjategundina.

Innleiðing reglugerðar nr. 1007/2011 hér á landi kallar á að hér verði sett lög um textílheiti, textílmerkingar o.fl. Fyrirhugað er að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til laga um efnið á komandi löggjafarþingi og að í því lagafrumvarpi verði kveðið á um innleiðingu reglugerðar nr. 286/2012.

Frú forseti. Ekki er gert ráð fyrir því að innleiðing reglugerðanna muni hafa í för með sér neinar efnahagslegar og stjórnsýslulegar afleiðingar hér á landi.

Þar sem ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Þess vegna er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem felst í ákvörðuninni svo unnt verði að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Frú forseti. Ég legg til að þegar umræðunni slotar um síðir verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.