141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 210/2012 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

564. mál
[22:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt að skýrast betur. Um ræðir hvorki meira né minna en trefjasamsetningu vöru og að hún sé í samræmi við staðla þannig að merkingar séu alveg réttar. Auðvitað er afskaplega mikilvægt að við fáum það inn hér. Það er synd hversu fáir eru í salnum vegna þess að málið kallar náttúrlega á djúpa umræðu. Það væri kannski gott ef hæstv. ráðherra mundi í stuttu andsvari fara aðeins yfir hverjar vörurnar eru nákvæmlega af því að auðvitað falla textílvörur undir mjög breitt svið og þetta á örugglega við einhvern ákveðinn þátt vara. Það gæti jafnvel tengst, sem kom ekki alveg nógu skýrt fram hjá hæstv. ráðherra, ákveðinni innlendri framleiðslu sem er í miklum blóma núna.

Virðulegi forseti. Það væri mjög upplýsandi ef hæstv. ráðherra færi aðeins dýpra í þann þátt. Ég spyr: Hvaða vörur er helst um að ræða? Við sjáum að fataiðnaðurinn vex á mörgum sviðum. Ég veit að fólk fylgist með umræðunni og heiti tillögunnar er þess eðlis að vekja forvitni margra og snertir miklu fleiri en menn kannski ætla. Ég met hversu skilmerkilega hæstv. ráðherra hefur svarað fram til þessa en gott væri ef hann færi meira í það sem snýr að því hverjar vörurnar eru sem um ræðir. Hann er búinn að fara vel yfir samræmdu prófanirnar og trefjasamsetninguna en hvað erum við að tala um? Hvaða íslensku framleiðendur eða innflytjendur, þótt ég eigi nú frekar von á því að það séu framleiðendur, snertir þetta?