141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi ekki spyrja hæstv. ráðherra mikið um efnisatriði málsins. Fram kemur í tillögunni sem liggur fyrir þinginu að hér sé um að ræða ítarlegri útfærslu á upplýsingum um lán en verið hefur fram til þessa. Síðan eru tilgreind ýmis lán, yfirdráttarlán og ýmis önnur. Við höfum verið að vinna í frumvarpi um neytendalánin og málið fjallar um neytendalán. Við erum að ganga frá því núna á síðustu dögum þingsins. Væri ekki skynsamlegt að vísa málinu líka til umsagnar til hv. efnahags- og viðskiptanefndar í það minnsta þannig að við getum fengið umsögn fram sem allra fyrst vegna þess að við erum að ganga frá neytendalánafrumvarpinu þessa dagana?

Hafa embættismenn ráðuneyta séð eitthvað nýtt þarna við yfirferð á málinu í þessari umferð? Ég geri ráð fyrir því. Það væri kauðskt ef við þyrftum að fara að taka neytendalánalögin fljótlega upp aftur vegna þess að hér væri að koma fram breytt tilskipun.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort málið hafi verið skoðað eitthvað í samhengi við neytendalánin. Er ekki skynsamlegt að við skoðum málið í því samhengi sem allra fyrst?