141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:28]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að það sé alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að ef í ljós kemur að gallar hafi verið á innleiðingu þessarar tilskipunar sé óhjákvæmilegt að draga þá ályktun, m.a. út frá hinum fræga dómi sem kenndur er við Erlu Maríu, að það kunni að baka ríkinu skaðabótaábyrgð.

Muni ég rétt varðaði bréf Elviru Méndez Pinedo til framkvæmdastjórnarinnar þá tilskipun sem við erum nú að fjalla um innleiðingu á og sem leidd var í lög Evrópusambandsins árið 2008 og er fyrst núna verið að innleiða. Svar framkvæmdastjórnarinnar til hennar sagði alveg skýrt að sú tilskipun gerði kröfur um að verðbótaþáttarins væri getið þegar kostnaðinum, sem hljótast mundi af láninu, væri lýst fyrir lántakanda. Ég þori ekkert að fullyrða um það en ekki er hægt að útiloka að vísað hafi verið með einhverjum hætti til slíkra krafna í fyrri tilskipuninni. Þá hygg ég að hugsanlegt sé að slík ábyrgð sem hv. þingmaður gat um að mundi stofnast sé til staðar. Það er eitt af því sem hugsanlega verður skoðað í nefndum þingsins. Jafnframt sýnist mér að það mál sé þannig vaxið að það verði líkast til ekki útkljáð nema hugsanlega fyrir dómstólum. Það er ekki hægt að lesa það algjörlega skýrt, segja sérfræðingar mér, en þeir treysta sér ekki til þess að fortaka það.