141. löggjafarþing — 87. fundur,  25. feb. 2013.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 229/2012 um breytingu á XIX. viðauka við EES-samninginn.

566. mál
[22:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég tek líka undir með hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni að málinu verði vísað eins hratt og hægt er til efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar þar sem sú nefnd er einmitt að fjalla um þessi mál í lagafrumvarpi um neytendalán sem við ræddum hér áðan. Sú sérkennilega staða getur komið upp að Evrópusambandið er að vinna tilskipun um fasteignalán sem það skilgreinir ekki sem neytendalán.

Ég hef reynt að glöggva mig á þeirri tilskipun en hún er með allt öðrum hætti og kemur til vegna þess að menn hafa lent í því víða um Evrópu að fasteignaverð hefur hrunið. Það hefur valdið óskaplegu tjóni fyrir það fólk sem hefur keypt fasteignir, svo sem bæði á Írlandi og Spáni. Þar er ágætis evra til að miða við og engin verðtrygging en þar situr fólk uppi með vanda sem er jafnvel stærri en hér á landi varðandi tapað eigið fé og skuldar miklu meira en það á. Í þessari tilskipun sem er í smíðum er reynt að taka að einhverju leyti á þessum vanda þó að það kannski sé erfitt að taka á bóluvanda í fasteignaviðskiptum.

Það segir svo í þessari tilskipun að framkvæmdin eða forsendan sem sett var fram í tilskipuninni sem við leggjum til grundvallar neytendalánum hafi ekki staðist og þurfi að lagfæra hana með þeirri tilskipun sem við ræðum hér. Það er verið að skerpa á tilskipun um neytendalán sem er í hugum Evrópusambandsins allt annað en fasteignalán.